Sveitarstjórn, fundur nr. 44

19.03.2014 15:00

Miðvikudaginn 19. mars 2014 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Helgi Þór Helgason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Ársreikningur sveitarsjóðs 2013, fyrri umræða

Lagður fram ársreikningur sveitarsjóðs fyrir árið 2013. Skv. ársreikningnum urðu rekstrartekjur sveitarsjóðs alls 443,3 millj. kr. og rekstrargjöld 424,9 millj. kr. á árinu 2013. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 7,6 millj. kr. Heildarrekstrarniðurstaða sveitarsjóðs á árinu varð því jákvæð upp á 10,8 millj. kr. Veltufé frá rekstri á árinu var 35,5 millj. kr. Handbært fé í árslok var 18,4 millj. kr. og lækkaði um 38,3 millj. kr. milli ára.

Aðalheiður Eiríksdóttir frá PriceWaterhouseCoopers kom á fundinn, fór yfir ársreikninginn og svaraði fyrirspurnum um hann.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa ársreikningi sveitarsjóðs fyrir 2013 til síðari umræðu.

 

2. Fundargerðir heilbrigðisnefndar 15. janúar og 19. febrúar 2014

Fyrri fundargerðin er í ellefu liðum, auk níu umsókna um starfsleyfi. Seinni fundargerðin er í fimm liðum, auk sjö umsókna um starfsleyfi og annarra mála. Enginn þessara liða varða Hörgársveit með beinum hætti.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

3. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 4. mars 2014

Fundargerðin er í níu liðum. Í henni eru fjórar tillögur til sveitarstjórnar, um fyrirspurn um Blöndulínu 3, um lagfæringu á misræmi í afmörkun svæðis 505 á náttúruminjaskrá, um þátttöku í samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu og um meðhöndlun á seyru. Aðrir liðir hennar eru um drög að deiliskipulagstillögu fyrir Dysnes og um skipulagsmál á Akureyri (fjórir liðir).

Sveitarstjórn samþykkti tillögur skipulags- og umhverfisnefndar, um fyrirspurn um Blöndulínu 3, um lagfæringu á misræmi í afmörkun svæðis 505 á náttúruminjaskrá, um þátttöku í samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu og um meðhöndlun á seyru. Aðrir liðir fundargerðarinnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar 11. mars 2014

Fundargerðin er í átta liðum. Í henni eru tillögur til sveitarstjórnar um afgreiðslu á þremur styrkbeiðnum, frá Bjarna E. Guðleifssyni, Leikfélagi Hörgdæla og Þorgerði Ólafsdóttur. Aðrir liðir hennar eru um drög að menningarstefnu fyrir sveitarfélagið, eignarhald á félagsheimilinu Melum, framtíðarhlutverk UMSE, um ályktun sambandsþings UMFÍ, svo og um umsóknir um unglingalandsmót UMFÍ og landsmót 50+.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur menningar- og tómstundanefndar um afgreiðslu á styrkbeiðnum frá Bjarna E. Guðleifssyni, Leikfélagi Hörgdæla og Þorgerði Ólafsdóttur. Aðrir liðir fundargerðarinnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Skipulag skólamála, yfirlit yfir helstu valkosti

Tekið fyrir að nýju yfirlit yfir helstu valkosti í skipulagi skólamála, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 19. febrúar 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu málsins til næstu fundar.

 

6. Þelamerkurskóli, stækkun anddyris o.fl., útboð

Gerð grein fyrir niðurstöðu útboðs á stækkun anddyris o.fl. í Þelamerkurskóla, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 19. febrúar 2014. Í verkið bárust tvö tilboð, frá Bjálkanum og flísinni ehf. að fjárhæð 61,1 millj. kr. og frá ÁK-smíði ehf. að fjárhæð 75,8 millj. kr. Kostnaðaráætlun var 58,0 millj. kr. Rædd voru innkaup á lyftu og eftirlit með ofangreindum framkvæmdum.

Sveitarstjórn samþykkti að samið verði við Bjálkann og flísina ehf. um stækkun anddyris o.fl. í Þelamerkurskóla, við Kone ehf. um innkaup á lyftu og við verkfræðistofuna Mannvit um eftirlit með framkvæmdunum, í öllum tilvikum á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lágu á fundinum.

 

7. Skólaakstur

Rætt um fyrirkomulag skólaaksturs í Þelamerkurskóla skólaárið 2014-2015.

Sveitarstjórn samþykkti að leitað verði eftir því að núgildandi samningar um skólaakstur verði framlengdir fyrir skólaárið 2014-2015.

 

8. Kræklingahlíð, lagning ljósleiðara

Tekið fyrir að nýju bréf, dags. 20. janúar 2014, frá Jónasi Þór Jónassyni um lagningu ljósleiðara í Kræklingahlíð.

Sveitarstjórn samþykkti að leitað verði eftir samningi við Tengi hf. um að fyrirtækið leggi ljósleiðara um þann hluta sveitarfélagsins sem hann er ekki núna, á þeim forsendum sem ræddar voru á fundinum.

 

9. Grjótgarður og Djúpárbakki 5, sameining

Lagt fram bréf, dags. 24. febrúar 2014, frá Sigríði Þ. Mahon, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar um sameiningu jarðarpartsins Djúpárbakki 5 við Grjótgarð.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti sameiningu jarðarpartsins Djúpárbakki 5 við Grjótgarð, sem lýst er í  framlögðum gögnum.

 

10. Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA), reglur

Lögð fram drög að reglum um notendastýrða aðstoð (NPA) við fatlað fólk, sbr. fundargerð sveitarstjórnar 19. febrúar 2014.

Sveitarstjórn samþykkti drög að reglum um notendastýrða aðstoð við fatlað fólk, eins og þau voru lögð fram á fundinum.

 

11. Auðbrekka 2, nafnbreyting o.fl.

Lagt fram tölvubréf, dags. 6. mars 2014, frá Oddi Andra Thomasson, þar sem óskað er eftir umsögn um breytingu á heiti húseignarinnar Auðbrekku 2 í Hörgártún. Ennfremur er óskað eftir leyfi fyrir gestahúsi, gróðurhúsi, lóðargirðingu og gluggabreytingum.

Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði athugasemd af hálfu sveitarfélagsins við að heiti húseignarinnar Auðbrekku 2 verði breytt í Hörgártún. Ennfremur samþykkti sveitarstjórn að bygging gestahúss við húseignina sé háð deiliskipulagi. Að öðru leyti var erindi bréfsins vísað til byggingarnefndar.

 

12. Norðurorka hf., aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Norðurorku hf. Aðalfundurinn verður 21. mars 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason  fari með umboð sveitarfélagsins á aðalfundi Norðurorku hf. 21. mars 2014.

 

13. Lánasjóður sveitarfélaga ohf., aðalfundarboð og framboð í stjórn

Lögð fram til kynningar tvö bréf, dags. 28. febrúar 2014, frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. annars vegar með aðalfundarboði 27. mars 2014 og hins vegar með auglýsingu eftir framboðum í stjórn sjóðsins.

 

14. Gásakaupstaður ses., aðalfundarboð

Lagt fram aðalfundarboð Gásakaupstaðar ses. Aðalfundurinn verður 27. mars 2014.

Sveitarstjórn samþykkti að Guðmundur Sigvaldason fari með umboð sveitarfélagsins á aðalfundi Gásakaupstaðar ses. 27. mars 2014.

 

15. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 00:25.