Sveitarstjórn, fundur nr. 19

14.12.2011 20:00

Miðvikudaginn 14. desember 2011 kl. 20:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson, Hanna Rósa Sveinsdóttir, Helgi Þór Helgason, Helgi Bjarni Steinsson, Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Fundarritari: Guðmundur Sigvaldason.

 

Þetta gerðist:

 

1. Álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2012

Fram kom að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2011 er 14,48%, sem er lögbundið hámark.

Sveitarstjórn samþykkti að álagningarhlutfall ársins 2012 verði 14,48%.

 

2. Álagningarreglur fasteignagjalda 2012

Lögð fram drög að álagningarreglum fasteignagjalda fyrir árið 2012 svo og drög að reglum um afslátt af fasteignaskatti fyrir tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995.

Sveitarstjórn samþykktiað álagningarhlutfall fasteignaskatts skv. a-lið verði 0,40%, skv. b-lið verði 1,32% og skv. c-lið verði 1,40% af fasteignamati. Þá samþykkti sveitarstjórnað vatnsgjald vatnsveitu Hjalteyrar verði kr. 10.000 á hverja íbúð og hvert frístundahús, að sorphirðugjald heimila verði kr. 35.000, að sorphirðugjald frístundahúsa verði kr. 13.000, með möguleika á 5.000 kr. lækkun ef þjónusta er ekki veitt á vetrum, og að sorphirðugjald vegna búrekstrar verði 50 kr. fyrir hverja sauðkind, 80 kr. fyrir hvert hross, 250 kr. fyrir hvert svín og 300 kr. fyrir hvern nautgrip. Framlögð drög að reglum um afslátt elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti voru samþykktar af sveitarstjórn. Þær gera ráð fyrir að efstu tekjumörk afsláttar fyrir einstaklinga verði kr. 3.450.000 og fyrir samskattaða kr. 4.600.000.

 

3. Fundargerð búfjáreftirlitsnefndar, 16. nóvember 2011

Fundargerðin er í sex liðum. Í fimmta lið hennar er fjárhagsáætlun nefndarinnar fyrir árið 2012.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

4. Fundargerð framkvæmdastjórnar byggingafulltrúaembættisins, 24. nóvember 2011

Fundargerðin er í þremur liðum. Í fyrsta lið hennar er fjárhagsáætlun embættisins fyrir árið 2012.

Fundargerðin gefur ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

5. Fundargerð fræðslunefndar, 6. desember 2011

Fundargerðin er í átta liðum. Í sjöunda lið lið hennar er tillaga til sveitarstjórnar um uppsögn yfirvinnu í Álfasteini vegna fundahalda. Þá er í fundargerðinni fjallað um umsókn um úttekt á leik- og grunnskóla, um reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, um skýrslur frá eldvarnaeftirliti og vinnueftirliti, um fjárhagsáætlun fyrir árið 2012, um íbúafund um skólastefnu og um leikskóladvöl barns með lögheimili utan sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um uppsögn á þeim hluta yfirvinnu í Álfasteini sem fallið hefur til vegna starfsmannafunda. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

6. Fundargerð menningar- og tómstundanefndar, 7. desember 2011

Fundargerðin er í níu liðum. Í henni eru fjórar tillögur til sveitarstjórnar, þ.e. um gerð rekstrarsamnings við Leikfélag Hörgdæla um Félagsheimilið Mela, um umsjón með miðaldadögum á Gásum 2012, um gjaldskrá Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk og um þjónustusamning við Minjasafnið á Akureyri. Þá er í fundargerðinni fjallað um ljóðatengingar í Jónasarlaug, um fjárhagsáætlun fyrir árið 2012, um ályktanir sambandsþings UMFÍ 2011, um ársskýrslu Héraðsskjalasafnsins á Akureyri fyrir árið 2010 og um upplýsingarit frá Félagi íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og tómstundafulltrúa sveitarfélaga.

Sveitarstjórn samþykkti tillögur menningar- og tómstundanefndar um gerð rekstrarsamnings um Félagsheimilið Mela þó þannig að 7. gr. draganna geri ráð fyrir meira samráði en en fyrirliggjandi drögum, um umsjón með miðaldadögum 2012, um gjaldskrá Íþróttamiðstöðvarinnar á Þelamörk og um þjónustusamning við Minjasafnið á Akureyri. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

7. Molta ehf., hlutafjáraukning

Lagt fram bréf, dags. 25. nóvember 2011, frá Moltu ehf. með ósk um þátttöku í hlutafjáraukningu í félaginu, sem rekur jarðgerðarstöð á Þveráreyrum í Staðarbyggð.

Sveitarstjórn samþykkti að Hörgársveit gerist hluthafi í Moltu ehf. með kaupum á hlutafé að fjárhæð allt að kr. 877.000 kr.

 

8. Samstarf um millilandaflug til Norðurlands

Lagt fram bréf, dags. 5. desember 2011, frá Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi með ósk um framlag sem nemur 300 kr. á íbúa á ári í þrjú ár til markaðssetningar Norðurlands, þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu sem miðar að því að auka nýtingu innviða á svæðinu. Markaðssetningarátakið nefnist „Air 66N“.

Sveitarstjórn samþykkti að Hörgársveit taki þátt í markaðssetningarátakinu „Air 66N“ með framlagi sem nemur 300 kr. á íbúa á ári á árunum 2012, 2013 og 2014.

 

9. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012, seinni umræða

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árið 2012 var tekin til síðari umræðu. Fyrir lágu ný drög að fjárhagsáætluninni með breytingum á þeim drögum sem voru til fyrri umræðu, í samræmi við nýjar upplýsingar.

Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árið 2012 með þeim breytingar sem gerðar voru á þeim á fundinum. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að skatttekjur verði 353.000 þús. kr., að heildarrekstrarkostnaður A-hluta (nettó) verði 327.510 þús. kr. og að rekstrarhalli B-hluta sveitarsjóðs (veitna) verði 4.418 þús. kr., þannig að afgangur af rekstri samstæðunnar verði 21.072 þús. kr. og að veltufé frá rekstri verði 42.609 þús. kr. Til framkvæmda og annarra eignabreytinga eru áætlaðar 25,0 millj. kr. og áætlað er að í lok ársins 2012 verði handbært fé sveitarsjóðs 45.432 þús. kr.

 

10. Fundargerðir heilbrigðisnefndar, 9. nóvember og 7. desember 2011

Fyrri fundargerðin er í sjö liðum, auk afgreiðslu á þrettán starfsleyfum, þ.á.m. starfsleyfi til eins árs fyrir sláturhús, kjötvinnslu og verslun B. Jensen. Síðari fundargerðin er í sex liðum, enginn þeirra varðar Hörgársveit með beinum hætti.

Fundargerðirnar gefa ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

11. Fundargerð fjallskilanefndar, 23. nóvember 2011

Fundargerðin er í sex liðum. Í henni er gerð tillaga til sveitarstjórnar um að leitað verði eftir svipuðu fyrirkomulagi og var haustið 2011 á samstarfi við Akrahrepp um fjallskil til næstu þriggja ára. Þá er í fundargerðinni fjallað um framkvæmd gangna á síðastliðnu hausti og um þann fjölda fjár sem þá kom til rétta úr öðrum sveitarfélögum, um flutning líflamba og um lausagöngu búfjár.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu fjallskilanefndar um samningaumleitanir við Akrahrepp um fjallskilamál. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

12. Laugaland, deiliskipulag

Lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í landi Laugalands með breytingu, sem miðar það því að bregðast við athugasemd sem barst frá Fornleifavernd ríkisins við hina auglýstu tillögu, sbr. fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 11. október 2011. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 12. desember 2011 að leggja til við sveitarstjórn að hin nýja tillaga verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að deiliskipulagi skólasvæðis í landi Laugalands.

 

13. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, lýsing á skipulagsverkefni

Lögð fram drög að verkefnis- og matslýsingu aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024, sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 12. desember 2011 að leggja til við sveitarstjórn að drögin verði samþykkt eins og þau liggja fyrir.

Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að verkefnis- og matslýsingu aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024, eins og þau liggja fyrir. Jafnframt var samþykkt að stefna að íbúafundi um aðalskipulagsgerðina 25. janúar 2012.

 

14. Spónsgerði, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lagt fram bréf, dags. 27. október 2011, frá HGH verki ehf. þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Spónsgerðis, þ.e. að yfirtaka framkvæmdaleyfi sem BM Vallá hf. mun hafa fengið árið 2006. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 12. desember 2011 að fresta afgreiðslu málsins og óska eftir frekari gögnum sbr. lög um náttúruvernd og lög um umhverfismat.

Sveitarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar á umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Spónsgerðis.

 

15. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, 12. desember 2011

Fundargerðin er í sex liðum. Þrír þeirra eru til afgreiðslu í dagskrárliðunum hér á undan (nr. 12-14). Í öðrum liðum fundargerðarinnar er fjallað um fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 og um kynningu á breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018, auk þess er í henni tillaga að afgreiðslu á deiliskipulagstillögu vegna frístundahúss á landspildu í landi Gloppu.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um afgreiðslu á tillögu að deiliskipulagi í landi Gloppu. Að öðru leyti gefur fundargerðin ekki tilefni til ályktunar af hálfu sveitarstjórnarinnar.

 

16. Málefni verksmiðjuhúseignanna á Hjalteyri

Fram kom á fundinum að þann 1. desember 2011 hafi einkahlutafélagið Hjalteyri verið stofnað um eignarhald og rekstur verksmiðjuhúseignanna á Hjalteyri, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 16. nóvember 2011. Hlutafé í félaginu er samtals kr. 2.191.000. Hlutur Hörgársveitar í því er 41,1%. Lögð voru fram drög að kaupsamningi um húseignirnar, þar sem gert er ráð fyrir að Hörgársveit selji Hjalteyri ehf. eignirnar. Lagður var fram uppdráttur sem sýnir afmörkun lóðar fyrir húseignirnar.

Sveitarstjórn samþykkti að einkahlutafélaginu Hjalteyri verði seldar þær húseignir sem Hörgársveit er eigandi að á Hjalteyri fyrir kr. 28.900.000, sem greitt verði með veðskuldabréfi með einum gjalddaga þann 1. febrúar 2015, óverðtryggðu með 6% ársvöxtum. Ennfremur samþykkti sveitarstjórnin þá afmörkun lóðar fyrir húseignirnar sem fram kemur á framlögðum uppdrætti.

 

17. Byggingafulltrúaembætti, samstarfssamningur

Lögð fram drög að samþykkt um sameiginlega byggingarnefnd og embætti  byggingarfulltrúa Eyjafjarðar. Þann 22. júní 2011 var til afgreiðslu sveitarstjórnar samningur um rekstur byggingarfulltrúaembættisins. Þegar til þess kom að afla staðfestingar umhverfisráðuneytisins á samningnum gerði það athugasemd við form hans. Af þeim sökum er þetta mál tekið upp að nýju til að fá staðfestingu ráðuneytis á því fyrirkomulagi í þessum efnum sem viðkomandi sveitarfélög hafa komið sér saman um.

Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að samþykkt um sameiginlega byggingarnefnd og embætti byggingarfulltrúa Eyjafjarðar.

 

18. Neytendasamtökin, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 24. nóvember 2011, frá Neytendasamtökunum þar sem óskað er eftir styrkveitingu vegna ársins 2012.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Neytendasamtökunum styrk á árinu 2012 að fjárhæð kr. 10.800.

 

19. Heimaslóð, styrkbeiðni

Lagt fram bréf, dags. 5. desember 2011, frá Bjarna E. Guðleifssyni þar sem óskað er eftir styrk til útgáfu Heimaslóðar, árbókar hreppanna í Möðruvallaklaustursprestakalli.

Sveitarstjórn samþykkti að styrkja útgáfu Heimaslóðar um kr. 300.000 á árinu 2011.

 

20. Tillögur starfshóps sjávarútvegsráðherra

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 2. desember 2011, frá Sveitarfélaginu Skagafirði þar sem fagnað er tillögu starfshóps sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun veiðigjalda.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 00:15.