Sveitarstjórn fundur nr. 164

21.03.2024 08:45

Fimmtudaginn 21. mars 2024 kl. 08:45 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

1. Fundargerð kjörstjórnar frá 12.3.2024
Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerð fræðslunefndar frá 19.3.2024
Fundargerðin er í 16 liðum og þarfnast 2 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 14, ráðning skólastjóra í eitt ár í afleysingum, umsögn fræðslunefndar
Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir skólastjóri verður í námsleyfi skólaárið 2024-2025 og var auglýst eftir skólastjóra til afleysinga þann tíma. Sex umsóknir bárust. Fræðslunefnd mælir með því við sveitarstjórn að Anna Rósa Friðriksdóttir verði ráðin.
Sveitarstjórn samþykkti að Anna Rósa Friðriksdóttir verði ráðin skólastjóri Þelamerkurskóla til afleysinga frá 1. ágúst 2024 til 31.júlí 2025.

b) Í lið 16, umferðarhraði við Þelamerkurskóla
Fræðslunefnd mælist til þess að skorað verði enn og aftur á Vegagerðina að sjá til þess að umferðarhraði við Þelamerkurskóla verði lækkaður og umferðaröryggi við skólann verði bætt nú þegar. Rökstudd áskorun verði send á forstjóra Vegagerðarinnar og Innviðaráðherra.
Sveitarstjórn tekur undir ályktun fræðslunefndar og samþykkti að vinna áfram að málinu.

3. Fundargerð Hafnarsamlags Norðurlands frá 286. fundi
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 295. fundi
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 945. fundi
Fundargerðin lögð fram.

6. Samband ísl. sveitarfélaga, erindi vegna kjarasamninga
Lögð fram erindi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem meðal annars er áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024.
Sveitarstjórn Hörgársveitar fagnar því að aðilar á vinnumarkaði hafi sameinast um skynsamlega langtíma kjarasamninga með áherslu á minni verðbólgu, lægri vexti, aukinn fyrirsjáanleika og þar með að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Sveitarstjórn minnir á að Hörgársveit tók þegar í fjárhagsáætlun ársins 2024 ákvörðun um að gjaldskrár myndu hækka minna en spár um þróun verðlags gerðu ráð fyrir.
Sveitarstjórn samþykkti að í tengslum við kjarasamninga verði gjaldskrár er varða leikskóla og grunnskóla lækkaðar úr því að hækka um 4,9% milli áranna 2023 og 2024 í að hækkunin verði 3,5%. Þessi breyting tekur gildi 1. apríl 2024.
Sveitarstjórn lýsir vilja til að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskóla frá haustinu 2024 náist ásættanleg niðurstaða um útfærslu þess og vinna áfram að öðrum þáttum samninganna sem snúa að sveitarfélögunum. Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi þessara verkefna í samræmi við væntanlegar leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem verða í kjölfarið tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.

7. Lónsbakki, breytingar á deiliskipulagi v. hringtorgs
Kynningartímabili deiliskipulagstillögu fyrir land Lónsár og Berghóls í Lónsbakkahverfi lauk þann 20. mars 2024. Deiliskipulagstillagan tekur annarsvegar til uppbyggingar á landeignunum Lónsá og Berghóli og hinsvegar til hringtorgs á gatnamótum Lónsvegar og Þjóðvegar 1. Til að greiða fyrir framkvæmdum vegna hringtorgsins hefur deiliskipulagstillögunni verið skipt í tvennt þannig að hringtorgið og framkvæmdir því tengdar koma nú fram á sjálfstæðri skipulagstillögu og liggur breytingarblað vegna hennar dags. 8. mars 2024 fyrir fundi sveitarstjórnar. Á kynningartímabili skipulagstillögunnar barst athugasemd frá Umhverfisstofnun varðandi afleggjara af hringtorgi til austurs inn í friðlandið í Krossanesborgum. Sveitarstjórn bendir á að merking tengingarinnar á skipulagsuppdrátt er einungis sýnd til skýringar en mun ekki koma til framkvæmda við gerð hringtorgsins sem nú er fyrirhugað. Auk þess bendir sveitarstjórn á að merkingin liggur sunnan við sveitarfélagsmörk Akureyrar og Hörgársveitar og er því ekki inn í lögsagnarumdæmi Hörgársveitar.
Sveitarstjórn samþykkti að umrædd merking verði felld út af skipulagsuppdrætti og að svo breytt skipulagstillaga verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8. Undraland, umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishús

Skipulags- og byggingarfulltrúi óskar eftir umsögn sveitarstjórnar vegna byggingarleyfisumsóknar Eyþórs Ævars Jónssonar vegna nýbyggingar 266,6 fm einbýlishúss á lóðinni Undralandi úr landi Steinkots, en skráning lóðarinnar var samþykkt á 146. fundi sveitarstjórnar 26. janúar 2023.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við áformin. Erindið telst samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabilinu.

9. Göngu- og hjólastígur
Farið var yfir stöðu samninga við landeigendur um lagningu göngu- og hjólastígs.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 10:25