Sveitarstjórn fundur nr. 157

07.12.2023 10:00

Fimmtudaginn 7. desember 2023 kl. 10:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

 

Þetta gerðist:

1. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 64. fundi
Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerðir stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 938. og 939. fundi
Fundargerðirnar lagðar fram.

3. Fundargerð HNE frá 232. fundi
Fundargerðin lögð fram.

4. Jónasarlundur, erindi, fundargerð og ársreikningur
Lögð fram fundargerð ársfundar stjórnar Jónasarlundar ásamt ársreikningi 2022. Einnig lagt fram erindi frá stjórninni er varðar framtíðar rekstur á Jónasarlundi.

5. Óbyggðanefnd bréf
Bréfið lagt fram, en það varðar kynningu á kröfum Óbyggðarnefndar í þjóðlendumálum. Sveitarfélagið hefur þegar hafnað kröfum nefndarinnar og fer lögmaður sveitarfélagsins með málið fyrir hönd Hörgársveitar.

6. SSNE, samgöngustefna
Lögð fram samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra sem gefin hefur verið út af SSNE.

7. Markaðsstofa Norðurlands, alþjóðlegt flug til Norðurlands
Lagt fram minnisblað frá Markaðsstofu Norðurlands er varðar beint alþjóðlegt flug til Norðurlands.

8. Sýslumaðurinn Norðurlandi eystra, umsögn v. tækifærileyfis
Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til skemmtanahalds vegna þorrablóts í íþróttahúsinu á Þelamörk í Hörgársveit þann 03.02.2024.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

9. Líforkugarðar ehf, tilnefning í stjórn
Lagt fram minnisblað frá SSNE varðandi Líforkugarða ehf og ósk um tilnefningu á stjórnarmanni frá Hörgársveit.

Sveitarstjórn samþykkti að tilnefna Jónas Þór Jónasson sem fulltrúa Hörgársveitar og Axel Grettisson til vara.

10. KPMG, greinargerð v. fjárfestinga
Lögð fram greinargerð frá KPMG vegna mikilla fjárfestinga , sbr. 66. gr. sveitarstjórnarlaga.

Greinargerðin fjallar um fyrirhugaðar endurbætur á heimavistarálmu Þelamerkurskóla og er niðurstaðan sú að þær framkvæmdir hafi ekki þau áhrif á rekstur og fjárhag sveitarfélagsins að þær rúmist ekki innan þess sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlunum fyrir árin 2024-2027.

11. Þelamerkurskóli, endurbygging heimavistarálmu
Lögð fram drög að verksamningi við Tréverk ehf. um vinnu við 2. hæð endurbyggingar sem aðalverktaki í því verki. Samningnum fylgir tilboðsskrá dags. 30.11.2023

Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

12. Akstursþjónusta, reglur og gjaldskrá
Reglur um akstursþjónustu voru samþykktar í sveitarstjórn í september 2023 og taka þær gildi frá 1.1.2024.

Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi gjaldskrá fyrir árið 2024:
Ein ferð akstursþjónustu fyrir fatlað fólk kr. 1.100
Ein ferð annarrar akstursþjónustu kr. 1.700
Gjald á km umfram 20 km kr. 185

13. Barnaverndarþjónusta samningur, síðari umræða
Lögð fram samningsdrög sem voru til fyrri umræðu á síðasta fundi sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn samþykkti fyrirliggjandi samningsdrög um Barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar við síðari umræðu.

14. Fundaáætlun 2024
Lögð fram fundaáætlun sveitarstjórnar 2024, ásamt fundaáætlun fyrir skipulags- og umhverfisnefnd.

15. Fjárhagsáætlun 2024 - 2027, síðari umræða
Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árin 2024-2027 var tekin til síðari umræðu. Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun þessara ára. Þá var lögð fram greinargerð sveitarstjóra varðandi tillögu að fjárhagsáætlun.
Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árin 2024-2027.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2024 verði rekstrartekjur 1.234 millj. kr., að heildarrekstrarkostnaður verði 1.175 millj. kr. Heildar rekstrarafgangur verði því 59 millj.kr.
Veltufé frá rekstri verði 137 millj. kr.
Áætlað er að til framkvæmda og annarra eignabreytinga á árinu verði varið 290 millj. kr. Þar bera hæst framkvæmdir við endurbyggingu heimavistarálmu Þelamerkurskóla sem og framkvæmdir við gatnagerð og frágang svæða í Lónsbakkahverfi og að Lækjarvöllum.
Ný lántaka er áætluð 180 millj. kr. á árinu 2024.
Þá er áætlað að handbært fé í árslok 2024 verði 36 millj. kr.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri verði 77 millj. kr., á árinu 2026 verði hann 78 millj. kr. og 74 millj. kr. á árinu 2027.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 12:05