Sveitarstjórn fundur nr. 154

31.10.2023 08:45

Þriðjudaginn 31. október 2023 kl. 08:45 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

Þetta gerðist:

1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 30.10.2023
Fundargerðin lögð fram og er hún í 16 liðum og þarfnast 14 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, Hall – umsókn um byggingarreit fyrir íbúðarhús (2310009)
Guðmundur Karl Björnsson sækir um byggingarreit fyrir íbúðarhús á lóðinni Hall (L236333) sem stofnuð var úr jörðinni Syðri-Brennihóli (L152528).
Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar samþykkja skriflega að ekki sé gerð athugasemd við áformin. Erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabili.

b) Í lið 2, Moldhaugar, byggingarleyfi (221102)
Byggingarfulltrúa hefur borist umsókn frá Skútabergi ehf. um byggingarleyfi vegna bílgeymslu í landi Moldhauga. Erindinu fylgja uppdrættir frá Haraldi Árnasyni dags. 30. júní 2023.
Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar samþykkja skriflega að ekki sé gerð athugasemd við áformin. Erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabili.

c) Í lið 5, Blöndulína 3 – umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun (2310005)
Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn Hörgársveitar vegna breytingar á línuleið Blöndulínu 3 frá því sem gert var ráð fyrir í umhverfismati árið 2022. Lögð voru fram drög að umsögn.
Sveitarstjórn samþykkti að fela skipulagsfulltrúa að að senda inn umsögn í samræmi við umræður á fundinum.

d) Í lið 6, Dalvíkurlína 2 – umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi (2309010)
Framhald umræðu er varðar umsókn frá Landsneti um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir fyrir Dalvíkurlínu 2, en afgreiðslu umsóknarinnar var frestað á síðasta fundi nefndarinnar.
Sveitarstjórn samþykkti að afgreiðslu verði frestað þar til fyrir liggur samþykki 80% landeigenda fyrir línuleiðinni. e) Í lið 7, Dalvíkurlína 2 – aðalskipulagsbreyting, (2307002)

e) Í lið 7, Dalvíkurlína 2 – aðalskipulagsbreyting, (2307002)
Umræður frá síðasta fundi. Lögð fram tillaga aðalskipulagshöfundar að breytingu á aðalskipulagi ásamt greinargerð.
Sveitarstjórn samþykkti að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 aftur þar sem lega strengs og stígs hefur breyst.

f) Í lið 8, Blómsturvellir – umsókn um framkvæmdaleyfi til efnislosunar (2306007)
Á fundi sveitarstjórnar 24. ágúst síðastliðinn var lagt fram erindi frá Akureyrarbæ þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi til efnislosunar fyrir 49.000 m3 í landi Blómsturvalla. Sveitarstjórn samþykkti að heimilt verði að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir efnislosun á 10.000 m3 að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 43. og 44. gr. skipulagslaga. Grenndarkynningu lauk 13. október síðastliðinn og bárust ábendingar á grenndarkynningartímabilinu sem nefndin fjallaði um.
Sveitarstjórn samþykkti að heimilt verði að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir efnislosun fyrir 10.000 m3. Í framkvæmdaleyfinu verði tekið tillit til þeirra athugasemda og ábendinga sem bárust í grenndarkynningu.

g) Í lið 9, Glæsibær – áfangi 3 (2301004)
Kynningartímabili skipulagslýsingar fyrir Glæsibæ áfanga 3 í landi Glæsibæjar lauk 3. mars sl. og var skipulagshönnuði falið að hafa hliðsjón af innkomnum erindum við gerð skipulagstillögunnar. Sveitarstjórn hélt áfram umræðum um erindið.
Sveitarstjórn samþykkti að aðal- og deiliskipulagsstillagan verði kynnt í samræmi við 2. mgr. 30 greinar og 3.mgr.40.greinar skipulagslaga nr.123 frá 2010. Kynningin fari fram á opnum kynningarfundi.

h) Í lið 10, Hörgá svæði E9 – umsókn um framkvæmdaleyfi (2310015)
Fyrir sveitarstjórn liggur bókun skipulags- og umhverfisnefndar og þau gögn sem þar voru lögð fram. Sveitarstjórn tekur undir rökstuðning skipulags- og umhverfisnefndar. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sem sótt er um sé í samræmi við umhverfismat Environice frá apríl 2015 og leggur það til grundvallar ásamt áliti Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins, dags. 4. júní 2015. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Hörgársveitar 2012 til 2024 og ákvæði skipulagsins um efnistöku úr Hörgá. Í fyrirliggjandi leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, er afstaða tekin til framkvæmdarinnar á grundvelli gildandi leyfa um efnistöku úr Hörgá. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa kemur fram greining á framkvæmdinni á grundvelli laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin leiði ekki til að vatnshlot Hörgár versni og telur að framkvæmdin sé í samræmi við þá stefnumörkun og markmið um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun fyrir Ísland, sbr. lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011.
Sveitarstjórn samþykkir greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna framkvæmdarinnar og leggur til grundvallar þau rök sem þar koma fram.
Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.

i) Í lið 11, Skriða – umsókn um framkvæmdaleyfi til efnistöku á svæði E8 (2310018)
Fyrir sveitarstjórn liggur bókun skipulags- og umhverfisnefndar og þau gögn sem þar voru lögð fram. Sveitarstjórn tekur undir rökstuðning skipulags- og umhverfisnefndar. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sem sótt er um sé í samræmi við umhverfismat Environice frá apríl 2015 og leggur það til grundvallar ásamt áliti Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins, dags. 4. júní 2015. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Hörgársveitar 2012 til 2024 og ákvæði skipulagsins um efnistöku úr Hörgá en framkvæmdin fellur undir svæði E8. Efnistökusvæðið er í um 350 m fjarlægð frá Hörgá og í rétt yfir 100 m fjarlægð frá Syðri-Tunguá. Þegar af þeirri ástæðu telur sveitarstjórn að framkvæmdin leiði ekki til að vatnshlot Hörgár eða Syðri-Tunguár geti versnað eða að framkvæmdin sé ekki í samræmi við þá stefnumörkun og markmið um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, sbr. lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Jafnframt er þá ekki þörf á leyfi Fiskistofu eða frekari afstöðu til gildandi leyfa Fiskistofu. Sveitarstjórn samþykkir greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna framkvæmdarinnar og þau rök sem þar koma fram.
Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.

j) í lið 12, Vegagerðin – umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir bakkavörnum í Öxnadalsá og Hörgá (2309015)
Lögð fram umsókn frá Vegagerðinni ásamt fylgigögnum.
Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.

k) Í lið 13, Lækjarvellir lóðarumsóknir (2310021)
Fyrir liggja fjórar umsóknir um fjórar auglýstar lóðir við Lækjarvelli sem auglýstar voru og rann umsóknarfrestur út þann 10. október 2023.
Sveitarstjórn samþykkt að ganga til samninga við umsækjendur um úthlutun lóðanna.

l) Í lið 14, Hvítbók um skipulagsmál (2310020)
Drög að hvítbók um skipulagsmál hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er lögð fram endurskoðuð landsskipulagsstefna til fimmtán ára ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára. Lögð fram drög að umsögn.
Sveitarstórn samþykkti að fela skipulagsfulltrúa að senda umsögn í samræmi við umræður á fundinum.

m) Í lið 15, Arnarholtsvegur 9, umsókn um leigulóð (2310019)
Fyrir liggur meðfylgjandi umsókn um lóðina.
Sveitarstjórn samþykkti að úthluta Jóni Valgeiri Ólafssyni kt. 251160-2529 lóðinni nr 9 við Arnarholtsveg landnúmer L-232437 og gerður verði um það hefðbundinn lóðarleigusamningur.

n) Í lið 16, merkingar á þjóðvegi 1
Sveitarstjórn samþykkti að óskað verði eftir því við Vegagerðina að merkingar á þjóðvegi 1 verði lagfærðar til að sporna við slysahættu við afleggjara inná þjóðveginn.

2. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 61. fundi
Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð aðalfundar SBE frá 29.9.2023
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð stjórnar SSNE frá 55. fundi
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerðir stjórnar Norðurorku frá 289. 290. og 291. fundi
Fundargerðirnar lagðar fram.

6. Fundargerðir stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 934. og 935. fundi
Fundargerðirnar lagðar fram.

7. Fundargerð skólanefndar TE frá 143. fundi
Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð HNE frá 231. fundi
Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð svæðisskipulagsnefndar og erindi til sveitarstjórnar
Fundargerðin lögð fram ásamt erindi til sveitarstjórnar er varðar umræður um tilgang og endurskoðun svæðisskipulagsins. Umræður um tilgang og endurskoðun svæðisskipulagsins. Fulltrúa sveitarfélagsins í nefndinni falið að koma sjónarmiðum sveitarstjórnar til nefndarinnar.

10. Flugklasinn, erindi til sveitarstjórnar
Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir áframhaldandi stuðningi Hörgársveitar við verkefnið.
Sveitarstjórn samþykkti að styrkja Flugklasann um kr. 300 á íbúa á árinu 2024.

11. Hraun í Öxnadal, verkefnisstjórn
Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir tilnefningu Hörgársveitar í verkefnastjórn fyrir Hraun í Öxnadal.
Sveitarstjórn samþykkti að tilnefna Ásrúnu Árnadóttur og Jónas Þór Jónasson til vara.

12. Líforkuver, kynnisferð til Finnlands og Noregs
Axel Grettisson oddviti og Jónas Þór Jónasson kynntu kynnisferð vegna líforkuvera sem þeir fóru í fyrir hönd Hörgársveitar til Finnlands og Noregs. Sveitarstjórn tekur jákvætt í staðsetningu líforkuvers í sveitarfélaginu.

13. Aflið, erindi
Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við starsemi Aflsins.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til gerðar fjárhagsáætlunar 2024.

14. Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið, erindi um orkuskipti
Erindið lagt fram.

15. Erindi frá íbúum á Hjalteyri vegna gatnamála
Lagt fram erindi frá 13 íbúum við Brekkuhús (efri hluta) þar sem athygli er vakin á slæmu ástandi götunnar.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa lagfæringu götunnar til gerðar fjárhagsáætlunar 2024.

16. Lónsá A (L236095), lóðarleigusamningur
Lögð fram drög að lóðarleigusamningi við Stóri Stólpi ehf. kt. 480921-0890. Samningnum fylgir hnitsett lóðarblað.
Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

17. Berghóll, forkaupsréttur
Lagt fram kauptilboð í Berghól B (F2216468) og Berghól II (F2232057 og F2235059). Hörgársveit á þinglýstan forkaupsrétt á eignunum. Jafnframt var lögð fram samantekt lögfræðings sveitarfélagsins varðandi málið.
Afgreiðslu frestað.

18. Staða landbúnaðarins
Sveitarstjórn Hörgársveitar lýsir yfir miklum áhyggjum sínum yfir þeirri stöðu sem upp er komin í landbúnaði. Miklar kostnaðarhækkanir og hækkun vaxta á liðnum misserum hafa verið atvinnugreininni mjög erfiðar og hefur rekstrargrundvöllur margra búa brostið.
Landbúnaður er aðal atvinnuvegur Hörgársveitar og því hvetur sveitarfélagið ríkið til þess að honum sé tryggð sem best rekstrarskilyrði. Landbúnaður er þjóðhagslega mjög mikilvægur og því þarf ríkisvaldið að sjá til þess að matvælaframleiðsla eflist svo fæðuöryggi þjóðarinnar verði sem best tryggt.

19. Fjárhagsáætlun 2024, fyrri umræða

Tillaga að fjárhagsáætlun lögð fram og rædd.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til síðari umræðu.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 12:10