Sveitarstjórn fundur nr. 151

15.06.2023 09:15

Fimmtudaginn 15. júní 2023 kl. 09:15 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

Þetta gerðist:

1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 08.06.2023

Fundargerðin lögð fram og er hún í 10 liðum og þarfnast 6 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, Moldhaugnaháls, aðal- og deiliskipulag

Skipulagsstofnun hefur lokið yfirferð sinni á samþykktu aðal- og deiliskipulagi fyrir athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugnahálsi skv. 2. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og liggur afgreiðslubréf stofnunarinnar dags. 30 maí 2023 fyrir fundinum. Fyrir fundinum liggur einnig minnisblað unnið af SBE dags. 6. júní 2023 þar sem fram kemur tillaga að viðbrögðum við athugasemdum Skipulagsstofnunar.

Sveitarstjórn samþykkti að brugðist verði við athugasemdum Skipulagsstofnunar líkt og lagt er til í minnisblaði SBE dags. 6. júní 2023 og að svo breytt aðal- og deiliskipulag verði samþykkt skv. 1. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti einnig að skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta gildistöku skipulaganna.

b) Í lið 4, Vegagerðin, þjóðvegur 1

Framhald umræðu eftir fund með Vegagerðinni.

Sveitarstjórn samþykkti að leggja áherslu á það við Vegagerðina að við gatnamót Þjóðvegar 1 og Ólafsfjarðarvegar verði mislæg gatnamót. Einnig verði bættar vegtengingar við Dagverðareyrarveg.

c) Í lið 5, Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs

Svæðisáætlunin lögð fram og kynnt.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti svæðisáætlunina fyrir sitt leyti, en kallar eftir frekari útfærslum er varðar með hvaða hætti henni verði framfylgt.

d) Í lið 7, Brekkuhús 24, Hjalteyri umsókn um breytingu á lóðarmörkum

Lagt fram erindi frá eiganda Brekkuhúsa 24, Hjalteyri (Arnargarðs) þar sem óskað er eftir breytingu á lóðamörkum og óverulegri breytingu á deiliskipulagi.

Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði vísað í grenndarkynningu samkvæmt 43. og 44. gr. skipulagslaga. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabil ef skriflegt samþykki berst frá öllum hagsmunaaðilum. Erindið telst samþykkt ef ekki berast andmæli.

e) Í lið 8, Hagaskógur 10, erindi um DSK breytingu

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir breytingu á skilmálum lóðarinnar og byggingarreit.

Sveitarstjórn samþykkti að erindinu verði vísað í grenndarkynningu samkvæmt 43. og 44. gr. skipulagslaga. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabil ef skriflegt samþykki berst frá öllum hagsmunaaðilum. Erindið telst samþykkt ef ekki berast andmæli.

f) Í lið 10, umferðarhraði á þjóðvegi 1 við Þelamerkurskóla

Lagt fram yfirlit yfir mældan umferðarhraða í maí 2023.

Sveitarstjórn Hörgársveitar lýsir yfir þungum áhyggjum yfir miklum umferðarhraða við Þelamerkurskóla. Í birtum mælingum kemur fram að meðalhraði er á ákveðnum tímum yfir 90 km./klst. Hæsti mældi hraði var 167 km./klst.

Sveitarstjórnin ítrekar það við Vegagerðina að umferðarhraði við Þelamerkuskóla verði lækkaður hið fyrsta og gerðar verði ráðstafanir við veginn til að auka öryggi barna við skólann.

2. Fundargerð Ungmennaráðs frá 2. fundi

Fundargerðin lögð fram og er hún í 4 liðum og er 2 liðum beint til sveitarstjórnar.

a) Í lið 2, aðgangseyrir í sundlaug fyrir ungmenni yngri en 18 ára

Sveitarstjórn samþykkti að við næstu gjaldskrárbreytingu verði þetta tekið til skoðunar.

b) Í lið 3, vinnutími vinnuskólans

Sveitarstjórn samþykkti að fyrir næsta sumar verði það skoðað hvort eldri árgangar geti fengið lengri vinnutíma í vinnuskóla.

3. Fundargerðir afgreiðslufunda SBE frá 54. 55. og 56. fundi

Fundargerðirnar lagðar fram.

4. Fundargerðir stjórnar SSNE frá 52. fundi

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð HNE frá 299. fundi

Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð stjórnar Flokkunar frá 09.03.2023

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 286. fundi

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerðir stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 925. - 928. fundi

Fundargerðirnar lagðar fram ásamt minnisblaði um ágang búfjár.

9. Jónasarlundur, erindi, skýrsla og reikningar

Lögð fram ársskýrsla Jónasarlundar ásamt ársreikningi. Jafnframt lagt fram erindi frá stjórn Minningarlundar Jónasar Hallgrímssonar þar sem rætt er um vatnsmál í Jónasarlundi. Sveitarstjóri mun skoða málið með fulltrúum Jónasarlundar og Vegagerðarinnar.

10. Innviðaráðuneytið, bréf frá EFS

Lagt fram bréf frá Eftirlistnefnd með fjármálum sveitarfélaga varðandi almennt eftirlit með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2023.

11. Skógræktarfélag Íslands, bréf

Lagt fram bréf frá stjórn Skógræktarfélags Íslands þar sem rætt er almennt um skógrækt á Íslandi.

12. Skipulag skógræktar, erindi

Lagt fram bréf frá stjórn VÍN er fjallar um skipulag skógræktar og ábyrgð sveitarstjórna.

13. Varmadælur, styrkir

Lagt fram erindi frá Oddgeir Sigurjónssyni varðandi upphæð styrkja sem samþykktir voru á síðasti fundi samkvæmt reglum um styrki vegna varmadæla.

Sveitarstjórn áréttar að allir sem vildu áttu kost á ráðgjöf þeirri sem sveitarstjórn kostaði á sínum tíma.

14. Sýslumaðurinn Norðurlandi eystra, umsögn v. tækifærileyfis

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til dansleiks að Melum í tilefni af Sæludegi í Hörgársveit þann 24.06.2023.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

15. Menningarstefna Hörgársveitar 2023-2033, fyrri umræða

Lögð fram til fyrri umræðu tillaga atvinnu- og menningarnefndar að menningarstefnu Hörgársveitar 2023-2033.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa menningarstefnunni til síðari umræðu í sveitarstjórn.

16. Verkefnastjóri, upplýsinga-, atvinnu- og menningarmála

Umræður um framhald á skipulagi starfsins.

17. Líforkuver, viljayfirlýsing

Lagt fram erindi frá SSNE ásamt drögum að viljayfirlýsingu vegna áframhaldandi vinnu við uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti viljayfirlýsinguna fyrir sitt leyti.

18. Úrgangsmál og sorphirða

Lögð fram tillaga um greiningarvinnu vegna nýrra laga um úrgangsmál. Tillagan gerir ráð fyrir samvinnu fimm sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu um vinnuna.

Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að vinna áfram að málinu með hinum fjórum sveitarfélögunum og koma greiningarvinnunni að stað sem fyrst.

Sveitarstjórn samþykkti að sorphirðusamningur við Terra Norðurland ehf frá 2020 sem rennur út þann 30.6.2023 verði framlengdur til 31.12.2023.

19. Lónsá, umsókn um skiptingu lóða

Lagt fram erindi frá eiganda Lónsár þar sem óskað er eftir að skipta lóðunum við Lónsá í fjórar lóðir úr þremur samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.

Sveitarstjórn samþykkti að lóðunum við Lónsá sem eru nr. L173137, L232428 og L232429 verði skipt upp í fjórar lóðir samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti, sem fái heitin Lónsá S, Lónsá 1, Lónsá A og Lónsá N.

20. Skólaakstur

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var oddvita og sveitarstjóra falið umboð til að leita eftir og gera samninga við aðila til að annast skólaakstur í samræmi við þarfir sveitarfélagsins. Kynnt voru gögn málsins þar sem fram kemur m.a. að Akureyri Excusion ehf hefur fallið frá tilboði sínu í leið 3. Í ljósi þessa og eftir yfirferð og úrvinnslu var lögð fram eftirfarandi tillaga um verktöku í skólaakstri í Hörgársveit 2023-2027:

Leið 1: Hjalteyri – Þelamerkurskóli: Verktaki: Akureyri Excusion ehf

Leið 2: Þverá – Þelamerkurskóli: Verktaki: Sigurður B Gíslason

Leið 3: Myrkárbakki – Þelamerkurskóli: Verktaki: Sigurður B Gíslason

Leið 4: Lónsbakki – Þelamerkurskóli: Verktaki: Akureyri Excusion ehf

Sveitarstjórn samþykkti tillöguna og felur sveitarstjóra að tilkynna niðurstöðuna og ganga frá samningum við ofangreinda verktaka.

Ásrún Árnadóttir og Jón Þór Benediktssn véku af fundi undir þessum lið.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:50