Sveitarstjórn fundur nr. 150

01.06.2023 09:15

Fimmtudaginn 1. júní 2023 kl. 09:15 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir, Jónas Þór Jónasson og Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir (vm).

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

Þetta gerðist:

1. SSNE, kynning á líforkuveri

Fulltrúar SSNE héldu kynningu í gegnum Teams fjarfundarbúnað fyrir sveitarstjórn á hugmyndum um líforkuver á Dysnesi.

2. Fundargerð fræðslunefndar frá 30.05.2023

Fundargerðin lögð fram og er hún í 9 liðum og þarfnast 3 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 2, tillaga að skipulagsbreytingu varðandi stöðu aðstoðarskólastjóra

Aðstoðarskólastjóri hefur sagt starfi sínu lausu og leggur skólastjóri til að 49% stjórnunarhlutfall aðstoðarskólastjóra verði fært yfir á tvo verkefnastjóra úr hópi kennara, 20% á hvorn. Þessir verkefnastjórar verði í stjórnendateymi skólans og annar þeirra verði staðgengill skólastjóra. Þá verði það 9% stjórnendahlutfall sem eftir er fært á starf ritara sem mun taka til starfa í haust. Fyrirkomulag þetta verði endurskoðað í mars 2024.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu skólastjóra.

b) Í lið 3, frístund fyrir 1.- 4. bekk næsta skólaár

Lagt fram minnisblað um tilhögun frístundar frá næsta hausti.

Sveitarstjórn samþykkti tilhögun frístundar samkvæmt minnisblaðinu.

c) Í lið 7, breyting á skóladagatali

Lögð var fram tillaga að breytingu á skóladagatali Álfasteins 2023-2024 er varðar færslu á starfsdegi frá 4. sept. til 28. ágúst og skipulagsdagur færist frá 6.okt. til 29. sept.

Sveitarstjórn samþykkti breytinguna.

3. Fundargerð atvinnu- og menningarnefndar frá 31.05.2023

Fundargerðin lögð fram og er hún í 4 liðum og þarfnast 3 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, Menningarstefna Hörgársveitar

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu til næsta fundar.

b) Í lið 2, Verksmiðjan á Hjalteyri

Beiðni um endurnýjun á styrktar samningi sveitarfélagsins við Verksmiðjuna á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti að gerður verði styrktarsamningur vegna áranna 2023, 2024 og 2025 með 550.000,- kr. framlagi árið 2023 sem taki síðan breytingum miðað við vísitölu.

b) Í lið 3, félagsstarf íbúa 60+ í Hörgársveit

Umsókn um styrk fyrir menningarferð í Skagafjörð 4. júní 2023.

Sveitarstjórn samþykkti að veita styrk að upphæð 74.000 kr. af liðnum styrkir til menningarmála.

4. Aðalfundur Minjasafnsins á Akureyri, fundarboð

Fundarboðið lagt fram.

Sveitarstjórn samþykkti að Ásrún Árnadóttir verði fulltrúi Hörgársveitar á fundinum.

5. Aðalfundur Hjalteyrar ehf., fundarboð

Fundarboðið lagt fram.

Sveitarstjórn samþykkti að Axel Grettisson verði fulltrúi Hörgársveitar á fundinum.

6. Aðalfundur Hrauns ehf, fundarboð

Fundarboðið lagt fram.

Sveitarstjórn samþykkti að Ásrún Árnadóttir verði fulltrúi Hörgársveitar á fundinum.

7. Flugklasinn

Lagt fram að nýju erindi frá Flugklasanum þar sem óskað er eftir áframhaldandi stuðningi við starfsemi hans.

Sveitarstjórn samþykkti að veita Flugklasanum framlag kr. 300,- á íbúa vegna ársins 2023.

8. Lónsbakki – framkvæmdir

Lagðar fram tillögur og kostnaðaráætlun um gerð leikvallar við Víðihlíð. Þá var lögð fram tillaga um að nýta framkvæmd við Hjalteyrarlögn neðan Lónsbakkahverfis til að gera undirlag fyrir göngu- og hjólastíg frá afleggjara að ÁK-smíði og að afleggjara að Álfasteini.

Sveitarstjórn samþykkti að fara í þessar framkvæmdir á grundvelli tillagna í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun.

9. Syðri-Kambhóll, erindi

Lagt fram erindi frá Stefáni Ragnarssyni lögmanni f.h. eigenda Syðri- Kambhóls dags. 8. maí 2023 þar sem óskað er eftir því að Hörgársveit láti fara fram hættumat í skilningi laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Er þar vísað til fyrri samskipta þar sem vitnað er í könnun á nokkrum skriðuhættustöðum í Hörgársveit, sem unnin var af Sveini Brynjólfssyni fyrir Ofanflóðasjóð í febrúar 2020 þar sem fjallað er m.a. um hættu á skriðuföllum úr Hrossahjalla ofan Kambhóls.

Jafnframt var lagt fram minnisblað Lögmannsstofu Norðurlands dags. 30. maí 2023.

Með vísan til 2. mgr., sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 49/1997 samþykkti sveitarstjórn að fara þess á leit við umhverfisráðherra að hann veiti álit sitt á því hvort gildar ástæður séu til þess að fram fari hættumat vegna hættu á skriðuföllum úr Hrossahjalla og hlíðum ofan Syðri- Kambhóls í Hörgársveit. Verði álit ráðherra að svo sé, ákvað sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að fara þess á leit við ráðherra að hann láti gera hættumat í samræmi við ákvæði laganna.

10. Aðalskipulag, endurskoðun, verkáætlun og samningsdrög

Lögð fram drög að samningi við Landmótun, skipulagsráðgjafa vegna vinnu við endurskoðun á aðalskipulagi Hörgársveitar. Samningsdrögunum fylgir verkáætlun.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins sem og að leita eftir framlagi úr Skipulagssjóði vegna verkefnisins.

11. Umsóknir um styrki vegna varmadæla

Lagðar fram umsóknir um styrki frá sveitarfélaginu frá eigendum 5 lögbýla vegna kostnaðar við varmadæluvæðingu.

Sveitarstjórn samþykkti að veita styrk að upphæð kr. 300.000,- á hvern aðila í samræmi við reglur þar um.

12. Vinnuskóli 2023

Lögð fram tillaga að starfsemi vinnuskóla sumarið 2023.

Sveitarstjórn samþykkti að laun í vinnuskóla sumarið 2023 verði 1.545 kr./klst. fyrir börn fædd 2009, 1.695 kr./klst. fyrir börn fædd 2008 og 2.035 kr./klst. fyrir börn fædd 2007. Orlof er innifalið.

13. Lækjarvellir land 2

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi. Auglýsingartímabili um breytingu á deiliskipulagi fyrir Lækjarvelli land 2, lauk 24.5.2023 og engar athugasemdir bárust.

Sveitarstjórn samþykkti auglýsta skipulagstillögu skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er skipulagsfulltrúa falið að fullnusta gildistöku skipulagsins

Lögð fram tillaga að áfangaskiptingu framkvæmda við gatnagerð og veitur sem og útreikning fyrir gatnagerðargjöld.

Sveitarstjórn samþykkti að leita eftir samstarfi við veitufyrirtæki um framkvæmdir og láta fara fram verðkönnun við framkvæmd 1. áfanga. Miðað verði við gjaldskrá gatnagerðargjalda og ákveðið að auglýsa þær 4 lóðir sem verða byggingarhæfar í 1. áfanga þegar ljóst verður hvernig gatnaframkvæmdum framvindur.

14. Skólaakstur

Lögð fram niðurstaða útboðs á skólaakstri í Þelamerkurskóla 2023-2027.

Tilboð voru opnuð 22. maí 2023.

Boðnar voru út 4 akstursleiðir að Þelamerkurskóla; Leið 1 Hjalteyri-; Leið 2, Þverá Öxnadal; Leið 3 Myrkárbakki; og Leið 4 Lónsbakki (2 bílar).

Á leið 1 barst ekkert tilboð. Á leið 2 barst eitt tilboð frá Sigurði B. Gíslasyni að fjárhæð kr. 349 pr.km kostnaðarætlun var kr. 332 pr.km. Á leið 3 bárust tvö tilboð, frá Sigurði B. Gíslasyni kr. 524 pr.km og frá Akureyri Excursion ehf. kr 512 pr.km. Kostnaðaráætlun var kr. 345 pr.km. Á leið 4 barst eitt tilboð frá Akurinn Bus ehf. að fjárhæð kr. 1.354 pr.km en kostnaðaráætlun var kr. 332. pr.km.

Við yfirferð tilboða með lögmanni sveitarfélagsins kom í ljós skekkja og galli í tilboði Akursins Bus á leið 4. Sveitarstjóri gerði grein fyrir í hverju sá galli felst, en hann birtist í útreikningi á margfölduðu einingaverði sem ekki bar saman við útkomutölu sem bjóðandi færði á reit á tilboðsblaði. Þá komu ekki fram gildar skýringar á misræminu á opnunarfundi þannig að unnt væri að leiðrétta tilboðið innan heimilda útboðsfyrirkomulags. Sveitarstjóri gerði grein fyrir að hann telji tilboðið háð svo miklum annmörkum að þeir verði ekki leiðréttir við yfirferð og óhjákvæmilegt sé að vísa því frá sem ógildu.

Sveitarstjórn samþykkti að taka skuli tilboði Sigurðar B Gíslasonar sem barst í leið 2 og felur sveitarstjóra að tilkynna bjóðanda það og ganga til samninga við hann.

Sveitarstjórn samþykkti að taka skuli lægra tilboði sem barst í leið 3, tilboði frá Akureyri Excursion ehf. og felur sveitarstjóra að tilkynna bjóðendum það og ganga til samninga við lægstbjóðanda.

Sveitarstjórn vísar tilboði Akursins Bus ehf. í leið 4 frá sem ógildu við útboðið og felur sveitarstjóra að tilkynna bjóðanda það.

Með vísan til þessarar afgreiðslu sveitarstjórnar liggur fyrir að engin gild tilboð bárust í leiðir 1 og 4. Felur sveitarstjórn oddvita og sveitarstjóra umboð til að leita eftir og gera samning við aðila til að annast skólaakstur á leiðum 1 og 4 í samræmi við þarfir sveitarfélagsins sem lýst var í útboðsskilmálum án undangenginnar útboðsauglýsingar með vísan til heimildar í a. lið 1. mgr. 39. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Í endanlegum samningi skal ekki vikið í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum útboðsgagna.

Ásrún Árnadóttir vék af fundi og tók Vignir Sigurðsson sæti hennar undir þessum lið á fundinum.

15. Umsóknir um hagagönguleyfi 2023

Lagður fram listi yfir framkomnar umsóknir um heimild til uppreksturs.

Sveitarstjórn samþykkti að veita leyfi fyrir hagagöngu til eins árs á grundvelli fyrirliggjandi umsókna enda liggi fyrir samþykki viðkomandi landeiganda. Þá liggi fyrir mat fulltrúa Landgræðslu ríkisins á þoli hlutaðeigandi jarða.

16. Trúnaðarmál

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:45