Sveitarstjórn, fundur nr 110

23.01.2020 15:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar

110. fundur

Fundargerð

Fimmtudaginn 23. janúar 2020 kl.15:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Jónas Þór Jónasson og María Albína Tryggvadóttir.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1. Gjaldskrá fráveitu

Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir fráveitur í Hörgársveit.

Sveitarstjórn samþykkti gjaldskrána.

2. Orkustofnun, beiðni um umsögn um umsókn um nýtingarleyfi fyrir jarðhitasvæðið á Hjalteyri

Lagt fram erindi frá Orkustofnun þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar Norðurorku um nýtingarleyfi fyrir jarðhitasvæðið á Hjalteyri.

Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi umsögn:

Orkustofnun óskar með erindi sínu dags. 19. desember 2019 eftir umsögn Hörgársveitar vegna nýtingarleyfisumsóknar Norðurorku fyrir jarðhitasvæði við Hjalteyri.

Í 13. gr. laga um nýtingu auðlinda í jörðu nr. 57/1998 segir:

" Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna grunnvatns innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa vatnsveitu sem rekin er þar."

Hörgársveit bendir á að verulegur hluti íbúa sveitarfélagsins er án hitaveitu og rýrir það til muna búsetuskilyrði á þeim svæðum sem í hlut eiga. Skammt er að minnast þess ástands sem skapaðist þegar óveður gekk yfir landið í desember sl. og rafmagnslaust varð dögum saman, en þá voru mörg dæmi þess að íbúar sveitarfélagsins urðu að yfirgefa heimili sín þar sem hitastig innanhúss var komið undir 10°C á svæðum þar sem hitaveitu nýtur ekki við. Auk þess má benda á fjárhagslegt og umhverfislegt óhagræði sem hlýst af því að kynda hús með rafmagni eða jarðefnaeldsneyti. Hörgársveit telur óviðunandi að íbúar sveitarfélagsins þurfi að sæta svo löku hlutskipti þegar gjöful jarðhitasvæði eru innan sveitarfélagsmarkanna.

Með vísan til lögbundins forgagnsréttar sveitarfélagsins beinir Hörgársveit eindregnum tilmælum til rétthafa nýtingarleyfisins sem um ræðir þess efnis að vatn sem unnið er við Hjalteyri sé nýtt í auknum mæli til að mæta þörf innan sveitarfélagsins, s.s. í Hörgárdal og Öxnadal.

3. Húsnæði heimavistar, drög að samningi við Íbúðalánasjóð um framgang verkefnisins

Lögð fram drög að samningi milli Hörgársveitar og Íbúðalánasjóðs vegna úrræða til uppbyggingar húsnæðismála í Hörgársveit.

Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

4. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, umsókn um tækifærisleyfi, þorrablót Hörgársveitar

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til skemmtanahalds vegna þorrablóts Hörgársveitar í íþróttamiðstöðinni Þelamörk þann 8.2.2020.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

5. Byggingarfulltrúi Eyjafjarðar, útgáfa byggingarleyfa, síðari umræða

Síðari umræða um tillögu að samþykkt um niðurfellingu sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis og samþykktar um afgreiðslur nefndarinnar en fyrri umræða fór fram þann 28.11.2019:

1. gr.

Sameiginleg byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis skal lögð niður.

2. gr.

Samþykkt um afgreiðslur sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 17. apríl 2013, nr. 420/2013, skal felld niður.

3. gr.

Samþykkt þessi tekur gildi þegar öll samstarfssveitarfélögin hafa samþykkt hana og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti tillöguna.

6. Lögþvinguð sameining sveitarfélaga

Lagt fram tölvubréf frá Braga Þór Thoroddsen sveitarstjóra í Súðavík dags. 20.12.2019.

Sveitarstjórn hvetur til samvinnu minni sveitarfélaga til að verja ákvörðunarrétt íbúa sinna í sameiningarmálum. 

7. Fundargerðir Eyþings frá 20.11.2019 og 18.12.2019

Fundargerðirnar lagðar fram

8. Fundargerðir stjórnar Norðurorku frá 29.11.2019 og 13.12.2019

Fundargerðirnar lagðar fram.

9. Skógarhlíð 13, skil á lóð

Lagt fram erindi frá Eyþóri Árna Sigurólasyni þar sem hann tilkynnir að hann skili einbýlishúsalóðinni nr. 13 við Skógarhlíð, en honum hafði verið úthlutað lóðinni.

Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa lóðina lausa til umsóknar.

10. Rekstrar- og framkvæmdanefnd

Í upphafi kjörtímabils var komið á fót rekstrar- og framkvæmdanefnd sem verði ráðgefandi fyrir sveitarstjórn varðandi rekstur stofnana og þær framkvæmdir sem í gangi eru hverju sinni.

Sveitarstjórn samþykkti að nefndin starfi áfram sem verkefnabundin nefnd til loka kjörtímabilsins sbr.D.lið 40 gr. samþykktar um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar.

11. Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 18:20