Sveitarstjórn, fundur nr 109

16.12.2019 15:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar

109. fundur

Fundargerð

Mánudaginn 16. desember 2019 kl.15:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn:  Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Jónas Þór Jónasson og María Albína Tryggvadóttir.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Þetta gerðist:

1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 13.12.2019

Fundargerðin lögð fram ásamt fylgigögnum og þarfnast fimm liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) í 1. lið: Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breyt-ingum sem tilgreindar eru í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 2 b) og 3 a).

b) í 2. lið:  Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti að framlögð breytingartillaga við svæðisskipulag Eyjafjarðar verði auglýst.

c) í 5. lið:  Sveitarstjórn samþykkti að landeiganda verði heimilað að vinna deilskipulag og kallar eftir að lögð verði fram skipulagslýsing á grundvelli 2. málsgr. 38. gr. skipulagslaga.  Skipulagsfulltrúa er falið að annast kynningu skipulagslýsingar og að heimilað verði að auglýsing skipulagstillögu fari fram samkvæmt 41. gr skipulagslaga, ef ekki berast veigamiklar athugasemdir við lýsingu.

d) í 6. lið:  Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við lýsinguna.

e) í 7. lið:  Sveitarstjórn samþykkti landskiptin samkvæmt fyrirliggjandi hnitsettum uppdrætti.

2. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 20.11.2019

Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð stjórnar AFE frá 13.12.2019

Fundargerðin lögð fram.

4. Sýslumaðurinn á Norðurl.eystra, umsókn um tækifærisleyfi, þorrablót Melum

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til skemmtanahalds vegna þorrablóts að Melum þann 25.1. 2020.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

5. Aflið, styrkbeiðni

Erindið lagt fram.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu til afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2020.

6. Fjárhagsáætlun 2020-2023, síðari umræða

Fjárhagsáætlun aðalsjóðs, eignasjóðs og veitna fyrir árin 2020-2023 var tekin til síðari umræðu. Fyrir lá endurskoðuð tillaga með breytingum á þeirri tillögu sem var til fyrri umræðu, í samræmi við nýjar upplýsingar og viðbætur. Þá var lögð fram greinargerð sveitarstjóra varðandi tillögu að fjárhagsáætlun.

Sveitarstjórn samþykkti framlagða tillögu að fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og stofnana hans fyrir árin 2020-2023. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að á árinu 2020 verði rekstrartekjur 724 millj. kr., að heildarrekstrarkostnaður A-hluta verði 698,9 millj. kr. og að rekstrarhalli veitna verði 1,8 millj. kr.. Heildar rekstrarafgangur verði því 23,3 millj.kr. Veltufé frá rekstri verði 51 millj. kr. Áætlað er að til framkvæmda og annarra eignabreytinga á árinu verði varið 141,7 millj. kr. Þar ber hæst framkvæmdir við viðbyggingu við leikskólann Álfastein og áframhaldandi gatnagerð við Reynihlíð. Ný lántaka er áætluð 15 millj. kr. á árinu 2020 og eldri skuldir verði greiddar niður um sömu upphæð. Þá er áætlað að handbært fé í árslok 2020 verði 31 millj. kr. og lækki um 90,6 millj. kr. á milli ára til að mæta fjármögnun á framkvæmdum ársins.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir að afgangur af rekstri samstæðunnar verði 22,7 millj. kr., á árinu 2022 verði hann 16 millj. kr. og 14,7 millj. kr. á árinu 2023.

7. Óveður og rafmagnsleysi

Sveitarstjórn Hörgársveitar eru það mikil vonbrigði að það óveður sem gekk yfir landið í síðustu viku hafi valdið þeim mikla vanda og tjóni sem varð.  Í Hörgárdal og Öxnadal var rafmagnslaust í nær fjóra sólarhringa þar sem það skorti lengst.   Ljóst er að þær loftlínur raforku sem enn eru í sveitarfélaginu eru á engan hátt tilbúnar að mæta miklum vetrarveðrum eða hvassviðri og staðsetning hluta þeirra í gegnum þéttan trjágróður er óásættanleg.  Því er algjörlega hafnað að farið verði í einhverjar framtíðarviðgerðir á þeim tveimur köflum loftlína í sveitarfélaginu sem nú brugðust.  Krafan er að strax og hægt er, verði þessum línum komið í jörð. Það er krafa Hörgársveitar að RARIK og Landsnet sjái síðan til þess að allar þær loftlínur rafmagns sem í sveitarfélaginu eru, fari í jörð eins fljótt og mögulegt er.  Á þetta við um allar sveitalínur, Dalvíkurlínu og núverandi byggðalínu. Allar þessar línur eru komnar til ára sinna og ljóst að þær standast ekki þær kröfur sem nútímasamfélag gerir varðandi raforkuöryggi.  Stjórnvöld sjái til þess að þessi dreififyrirtæki verði studd til að fara í slíkt átak um allt land.  Því hlýtur að vera hafnað að þessi fyrirtæki verði áfram látin greiða arð í ríkissjóð meðan þessi stóru verkefni bíða þeirra. 

Fjarskiptakerfi svæðisins þarf að yfirfara með því markmiði að aldrei komi upp sú staða að vegna skorts á fjarskiptum verði lífi stefnt í hættu.   Það hefði getað gerst hér í sveitarfélaginu nú, þegar allt fjarskiptasamband lá niðri á ákveðnu svæði vegna rafmagnsleysis og neyðarafl var uppurið.

Sveitarstjórn Hörgársveitar sendir öllum þeim sem áttu erfiða daga í síðustu viku í rafmagnsleysi og köldum húsum sínar kærleikskveðjur.  Hugur okkar og vilji til að létta byrðina var sannarlega til staðar og sveitarfélagið gerði margt til að svo væri gert.  Öll áhersla var lögð á það um leið og veðrinu slotaði að opna alla vegi þannig að enginn var einangraður vegna ófærðar.  En auðvitað var aðal verkefnið að koma rafmagni á eins fljótt og frekast var kostur.  Strax á fimmtudagsmorgni þegar hægt var að skoða skemmdir á línum kom í ljós að það yrði mikið og erfitt verkefni.  Því miður varð verkefnið erfiðara og tímafrekara en vonir stóðu til og þær voru fleiri en ein vonbrigðarstundirnar þegar rafmagnið datt aftur út, eftir að náðst hafði að koma því inn eftir hefðbundnar viðgerðir.  Sú aðgerð sem að lokum var farið í á laugardag var neyðaraðgerð, þegar fullreynt var að venjulegar viðgerðir báru ekki árangur. 

Starfsmenn RARIK og aðstoðarmenn þeirra eiga þakkir skyldar fyrir sín miklu störf þessa daga og nætur.  Sveitarfélagið reyndi eins og kostur var og út frá þeim upplýsingum sem við höfðum á hverjum tíma að miðla þeim áfram til íbúa.

Samstarf okkar við aðgerðarstjórn lögreglu og björgunarsveita hefði mátt vera nánara og er það hlutur sem ræða verður á vettvangi almannavarna, hvernig fulltrúar hverrar sveitarstjórnar koma að vinnu með aðgerðarstjórn í staðbundnum vanda eins og hér var.  Björgunarsveitum og lögreglu eru hér með færðar þakkir fyrir þeirra þátt í því að aðstoða íbúa og létta undir með þeim á ýmsan hátt.

Verkefni sveitarstjórna og ríkisvalds er nú að tryggja að slíkir atburði eins og urðu hér í síðustu viku endurtaki sig aldrei þó slæm veður komi aftur.

8. Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 17:30