Sveitarstjórn, fundur nr. 146

26.01.2023 09:15

Sveitarstjórn Hörgársveitar

  1. fundur

Fundargerð

Fimmtudaginn 26. janúar 2023 kl. 09:15 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.

Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

Þetta gerðist:

  1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 24.01.2023

Fundargerðin lögð fram og er hún í 9 liðum og þarfnast 4 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

  1. a) Í lið 2, Lækjarvellir 1, erindi vegna breytingar á byggingarreit

Lagt fram erindi þar sem að óskað er eftir að byggingarreitur fyrir lóðina Lækjarvellir 1, verði stækkaður til vesturs.

Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu í grenndarkynningu samkvæmt 44. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabil ef skriflegt samþykki berst frá öllum hagsmunaaðilum. Erindið telst samþykkt ef ekki berast andmæli.

  1. b) Í lið 6, Glæsibær áfangi 3, skipulagslýsing

Lögð fram tillaga að skipulagslýsingu að Glæsibær áfangi 3, unnin af Kollgátu 18. Janúar 2023. Áður hafa verið skipulagðir tveir áfangar austan núverandi svæðis sem verður þá

það þriðja í röðinni. Götur í áfanga I og II kallast Hagabrekka og Hagatún, en í þessum þriðja áfanga verða götur kallaðar Hagaflöt. Fyrri áfangarnir tveir samanstanda af einbýlishúsum eingöngu en í III áfanga er markmiðið að auka fjölbreytni í íbúðarkosti og skipuleggja svæði með blöndu af raðhúsum og einbýlishúsum. Fjöldi íbúða á skipulagssvæðinu verður á bilinu 40-54 íbúðir. Húsgerðir verða ýmist 4-6 íbúða raðhús eða einbýlishús. Yfirbragð verður lágstemmt þar sem öll hús verða einnar hæðar og tekur það mið af landslagi svæðisins sem er að nokkru frábrugðið landslagi á svæðum I og II þar sem landhalli og gróðurfar er með öðrum hætti. Nýtt deiliskipulag mun ekki fela í sér heimildir til framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum. Gerð deiliskipulagsins fellur því ekki undir lög um umhverfismat áætlana sbr. 1.mgr. 3.gr. laga nr. 105/2006.

Sveitarstjórn samþykkti erindið og að skipulagslýsingunni verði vísað í kynningarferli samkvæmt 2.mgr. 30 gr. og 3.mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. c) Í lið 7, Steinkot, umsókn um afmörkun lóðar

Lagt fram erindi frá Ingólfi Sigþórssyni eiganda Steinkots l.nr. 152541 sem óskað er eftir afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Aðkoma að lóðinni er frá afleggaranum að Steinskoti og Hlíðarhóli. Jafnframt er óskað eftir að nefna lóðina Undraland.

Sveitarstjórn samþykkti erindið enda verði þinglýst kvöð um vegtengingu og lagnir að lóðinni.

  1. d) Í lið 9, skógur við Álfastein

Umræður um fallin tré og nauðsyn á umhirðu og grisjun.

Sveitarstjórn beinir erindinu til þjónustumiðstöðvar til úrvinnslu.

  1. Fundargerð stjórnar SSNE frá 45. fundi

Fundargerðin lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar Norðurorku frá 281. fundi

Fundargerðin lögð fram.

  1. Sýslumaðurinn Norðurlandi eystra, umsögn v. tækifærileyfis

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um tækifærisleyfi til skemmtanahalds vegna þorrablóts í íþróttahúsinu á Þelamörk í Hörgársveit þann 04.02.2023.

Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd fyrir sitt leyti við að leyfið verði veitt.

  1. Erindi vegna fasteignarinnar Syðri-Kambhóll

Lagt fram erindi Krst lögmanna, Stefáns Ragnarssonar lögmanns fyrir hönd eigenda Syðri- Kambhóls þar sem þess er farið á leit við sveitarfélagið að það gangi inn í kaupsamning um fasteignina frá 13. apríl 2022 þar sem hún sé á svæði þar sem talin er hætta á ofanflóðum. Við meðferð málsins liggur fyrir minnisblað Lögmannsstofu Norðurlands, Ólafs Rúnar Ólafssonar lögmanns, þar sem fram kemur það mat að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að sveitarfélagið geti samþykkt erindið, m.a. vegna þess að ekki liggi fyrir lögbundið hættumat um eignina né flokkun hennar á hættusvæði.

Sveitarstjórn samþykkti að hafna framlögðu erindi um að Hörgársveit gangi inn í kaupsamning frá 13. apríl 2022 um fasteignina Syðri- Kambhól, með vísan til gagna málsins og þess að ekki liggur fyrir hættumat í skilningi laga nr. 49/1997 og því ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að samþykkja erindið.

  1. Húsnæðisáætlun Hörgársveitar 2023, tillaga

Lögð fram tillaga að húsnæðisáætlun til umræðu og afgreiðslu, en tillagan hefur verið yfirfarin af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Sveitarstjórn samþykkti húsnæðisáætlunina eins og hún liggur fyrir.

  1. Lánasjóður sveitarfélaga, lánasamningur

Í samræmi við fjárhagsáætlun 2023 liggur fyrir lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga um lán að upphæð kr. 50.000.000,-

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 50.000.000,- , með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.

Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Er lánið tekið til fjármögnunar framkvæmdum við leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Snorra Finnlaugssyni, sveitarstjóra Hörgársveitar, kt 210260-3829, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hörgársveitar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

  1. Fundardagar sveitarstjórnar 2023

Lögð fram fundaáætlun sveitarstjórnar janúar til desember 2023.

  1. Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:10