Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 98

23.01.2024 08:45

Þriðjudaginn 23. janúar 2024 kl. 08:45 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Glæsibær, Hagabyggð – deiliskipulag áfangi III (2301004)
Áframhaldandi umræður frá seinasta fundi nefndarinnar um aðal- og deiliskipulagstillögu 3. áfanga Hagabyggðar úr landi Glæisbæjar. Skipulagshöfundur, Ingólfur Guðmundsson kom til fundar við nefndina og kynnti deiliskipulagstillögu.

2. Dalvíkurlína 2 – aðalskipulagsbreyting (2307002)
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 vegna Dalvíkurlínu 2 ásamt breytingu á legu göngu-, hjóla og reiðleiðar var auglýst frá 20. nóvember 2023 til 1. janúar 2024. 11 erindi bárust á auglýsingatíma skipulagstillögu og voru þau lögð fram til umfjöllunar ásamt tillögum að svörum sem skipulags- og byggingarfulltrúi hefur tekið saman.
Skipulags- og umhverfisnefnd fjallar um innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer.

2-1. erindi, sendandi HNE
Athugasemd: HNE vekur athygli á því að efnistaka vegna Dalvíkurlínu 2 er háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar og leggur áherslu á að efni í framkvæmdina verði tekið úr námum með gilt starfsleyfi.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að viðeigandi ákvæði um starfsleyfisskylda efnistöku verði bætt við aðalskipulagstillöguna.

2-2. erindi, sendandi Minjastofnun
Athugasemd: Minjastofnun bendir á að áður en framkvæmdaleyfi er gefið út vegna framkvæmdarinnar þurfi málið að koma til umsagnar stofnunarinnar, og minnir enn fremur á að nýta fyrirliggjandi fornminjaskráningu við hönnun mannvirkisins.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að viðeigandi ákvæði um minjaskráningu og umsögn MÍ vegna leyfisveitngar verði bætt við aðalskipulagstillöguna.

2-3. erindi, Hulda Sigurvinsdóttir
Athugasemd: Misræmi er milli uppdráttar og texta auglýstrar skipulagstillögu að því leyti að hjóla- og gönguleið er í texta sögð liggja samhliða nýrri Dalvíkurlínu, sem samkvæmt samkomulagi liggur stígurinn í vegstæði gamla Ólafsfjarðarvegarins. Uppdráttur auglýstrar skipulagstillögu sýnir hinsvegar göngu- og hjólaleið þvert yfir landeign sendanda.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga verði yfirfarin þannig að tryggt verði að samræmi sé milli greinargerðar og uppdráttar.

2-4. erindi, sendandi Vegagerðin.
Athugasemd a) Breytingar á stígum og undirgöngum eins og þær eru sýndar á skipulagsuppdrætti miða við óbreytta legu Hringvegar á Moldhaugnahálsi.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að stígar og undirgöng þurfi að fylgja Dalvíkurlínu 2 og séu því staðsett eins og raun ber vitni. Nefndin telur því að athugasemdin gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b) Í tillögu að breyttu skipulagi eru sýnd ný undirgöng á Ólafsfjarðarveg en hafa þarf samráð við Vegagerðina um staðsetningu og fjölda þeirra.
Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að áform um undirgöng hafi verið send Vegagerðinni til umsagnar sbr. erindið sem hér er til umræðu. Nefndin telur ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd c) Í viðræðum Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins hefur komið fram að ekki verði lagður göngu- og hjólastígur meðfram Hlíðarvegi en slíkur stígur er sýndur á uppfærðu skipulagi.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að göngu- og hjólastígur meðfram Hlíðarvegi sé á núgildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og að þó ekki séu uppi áform um lagningu stígsins í fyrirsjáanlegri framtíð sé ekki ástæða til að fella hann út af skipulagi við svo búið.
Athugasemd d) Af uppdrætti má ætla að Dalvíkurlína 2 muni liggja í vegi. Geta má í greinargerð að svo sé ekki.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að uppdráttur verði lagfærður þannig að merkingar vega og strengs verði aðgreindar.

2-5. erindi, sendandi Norðurorka
Athugasemd: Væntanlegur göngu og hjólastígur liggur nærri og þverar nokkrar vatns- og hitaveitulagnir Norðurorku og bent er á að taka þarf tillit til lagnanna við hönnun stígsins.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ákvæði um að lega göngu- og hjólastígs skuli taka mið af lögnum í jörðu skuli bætt við auglýsta skipulagstillögu.

2-6. erindi, sendandi Fiskistofa
Athugasemd: Fiskistofa bendir á að samkvæmt 33. gr. laga um lax- og silungsveiði eru framkvæmdir í og við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, háðar leyfi Fiskistofu.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ákvæði um að framkvæmdir innan 100 m frá bakka veiðivatns séu háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2001 verði bætt við auglýsta skipualgstillögu.

2-7. erindi, sendandi Umhverfisstofnun
Athugasemd: Umhverfisstofnun minnir á ákvæði laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011 þar að lútandi að opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda skuli vera í samræmi við stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að texta um samræmi skipulagsáætlunar við vatnaáætlun skv. lögum nr. 36/2011 verði bætt við greinargerð aðalskipulags og að í umhverfisskýrslu verði fjallað um áhrif skipulagsbreytingarinnar á ástand vatnshlota sem við sögu koma.

2-8. erindi, sendandi Jón Jónsson f.h. Jóns Björgvinssonar.
Athugasemd a) Sendandi finnur að því að ekki hafi farið fram áhættugreining vegna nálægðar raflínu við önnur framkvæmdasvæði né heldur hafi verið lagt fullnægjandi mat á strengleið meðfram Dalvíkurlínu 1 uppi í Hlíðarfjalli.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki að umtalsverð áhætta gagnvart jarðstrengnum fylgi því að leggja hann í námunda við þjóðveg og aðrar lagnir en þvert á móti geti falist hagræði í því að leitast við að leggja vegi og lagnir saman í „mannvirkjabelti“. Nefndin telur ennfremur að mat á ólíkum valkostum sem fram fór á undirbúningsstigi framkvæmdarinnar, og gerð er grein fyrir í framkvæmdartilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar dags. 18. júlí 2022, teljist fullnægjandi og að ekki sé tilefni til að stilla upp nánari valkostagreiningu í skipulagstillögunni. Nefndin telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b) Sendandi telur ljóst að lagning Dalvíkurlínu 2 mun þrengja að möguleikum til nýtingar svæðisins sem byggingarlands og jafnframt skapa sérstakt óhagræði og kostnað við nýtingu svæðisins.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að uppbygging íbúðarsvæðis sé leyfisskyld framkvæmd og skuli sem slík vera í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Strengleið Dalvíkurlínu 2 liggur um land sendanda á um 260 m kafla á svæði sem í Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 er skilgreint sem landbúnaðarland. Framkvæmdaáformin sem sem sendandi vísar til samræmast því ekki gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Ennfremur bendir nefndin á að í framkvæmdalýsingu Landsnets til Skipulagsstofnunar dags. 18. júlí 2022 kemur fram strengleið Dalvíkurlínu 2 sé að mestu innan veghelgunarsvæðis þjóðvegar sem er 30 m frá miðlínu vegar á svæðinu sem hér um ræðir. Í sama gagni kemur fram að helgunarsvæði 66 kV jarðstrengs sé alls 7 m breitt. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segir að ný íbúðar- eða frístundahús skuli ekki standa nær stofnvegi en 100 m og önnur hús ekki nær en 50 m, og því má ljóst vera að af slíkri uppbyggingu getur ekki orðið á svæðinu þar sem jarðstrengurinn og helgunarsvæði hans eru fyrirhuguð. Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd c) Sendandi mótmælir að skilyrði verði til útgáfu framkvæmdaleyfis á grunni svo ónákvæms aðalskipulags.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags og umhverfisnefnd bendir á að framkvæmdaleyfisumsókn sé ekki til meðferðar í þessu máli heldur einungis aðalskipulag. Þegar framkvæmdaleyfisumsókn vegna framkvæmdarinnar berst sveitarfélaginu muni hún hljóta málsmeðferð skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd d) Kvaðir sem fylgja lagningu Dalvíkurlínu 2 munu fela í sér að önnur landnot en ræktun á efstu 30 cm yfirborðs verður bönnuð. Það felur m.a. í sér að skógrækt verður ekki heimiluð.
Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að skógrækt er leyfisskyld framkvæmd og skuli sem slík vera í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Það svæði sem erindi sendanda lýtur að er skilgreint sem landbúnaðarland í Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024. Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki að athugasemd sendanda gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Ekki eru gerðar athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu í erindum sem bárust frá Akureyrarbæ, Dalvíkurbyggð og Náttúrufræðistofnun Íslands.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að auglýstri skipulagstillögu verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslunefndarinnar á athugasemdum 1, 2, 3, 4d, 5, 6 og 7 og að svo breytt skipulagstillaga verði samþykkt skv. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bjarki Brynjólfsson og sveitarstjóri véku af fundi undir þessum lið.

3. Aðalskipulag Hörgársveitar endurskoðun (2305001)
Skipulags- og matslýsing vegna endurskoðunar Aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024 var kynnt á milli 15. nóvember og 13. desember 2023 og bárust 20 erindi á kynningartímabilinu. Nefndin fjallaði um innkomin erindi.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagshöfundi verði falið að hafa hliðsjón af innsendum erindum við gerð skipulagstillögu.

4. Dysnes, landfylling og höfn – mat á umhverfisáhrifum – umsagnarbeiðni (2311012)
Hafnasamlag Norðurlands bs. áformar uppbyggingu á hafnarsvæði við Dysnes samkvæmt samþykktu deiliskipulagi. Matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum er nú í kynningu og hefur Skipulagsstofnun óskað umsagnar Hörgársveitar um matsáætlunina sem lögð var fram og unnin af Mannvit í nóvember 2023.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við matsáætlunina á þessu stigi.

5. Neðri-Rauðilækur land – byggingarreitir fyrir tvö frístundahús (2311013)
Lagt fram erindi og uppdráttur vegna fyrirhugaðra bygginga tveggja frístundahúsa.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

6. Lónsbakkahverfi – aðal- og deiliskipulagsbreyting 2023 (2312004)
Lagðar fram aðal- og deiliskipulagstillögur er varða Lónsbakkhverfi. Deiliskipulagshöfundur, Árni Ólafsson kom til fundar við nefndina og kynnti deiliskipulagstillögu.

7. Lónsbakki þéttbýli – Reynihlíð 20-26 – deiliskipulagsbreyting (2311015).
Fyrir fundinum lágu fjórar breytingartillögur er varða deiliskipulag Lónsbakkahverfis. Tillögurnar hafa áður hlotið málsmeðferð samkv. 43.grein skipulagslaga, en hafa ekki verið auglýstar í b-deild stjórnartíðinda.
a) Breyttur í íbúðafjöldi í Reynihlíð 15.
b) Breytt húsagerð í Reynihlíð 21 og 23.
c) Breyttur byggingarreitur Álfasteins
d) Breytt húsagerð Reynihlíð 20-26.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagsbreytingarnar verði samþykktar samkvæmt 2. málsgr. 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

8. Breyting á aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 – efnisnáma við Hálsá – umsagnarbeiðni (2312003)
Dalvíkurbyggð óskar eftir umsögn Hörgársveitar um skipulagslýsingu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 vegna áforma um efnisnám við Hálsá. Skipulagslýsing frá Teikna frá desember 2023 lögð fram. Umsagnarfrestur var til 29. desember 2023 en hefur verið framlengdur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

9. Gáseyri – umsókn um framkvæmdaleyfi til sandtöku (2401001)
Lögð fram umsókn frá Gáseyrin ehf. um framkvæmdaleyfi til sandtöku við ósa Hörgár á Gásum/Gásaeyri.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað enda samræmist það ekki gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins.

10. Breytingar á Blöndulínu 3 – ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu (2310005)
Um er að ræða breytingar á línuleið Blöndulínu 3 á nokkrum stöðum í Húnabyggð, Skagafirði og Hörgársveit. Framkvæmdin er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 19. gr. og lið 10.15 og lið 13.02 í 1. viðauka í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og fylgir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Lagt fram og kynnt.

11. Dalvíkurlína 2 – framkvæmdaleyfi, umsókn frá Landsneti (2401004)
Lögð fram Umsókn frá Landsneti um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Dalvíkurlínu 2, ásamt fylgigögnum.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu umsóknarinnar þar til breytt aðalskipulag vegna Dalvíkurlínu 2 öðlast gildi.

12. Lónsbakkahverfi – deiliskipulagsbreyting (2312004)
Lögð fram deiliskipulagstillaga er varðar breytingu á Lónsbakkahverfi, framlenging Skógarhlíðar felld út.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagsbreytingunni verði vísað í kynningarferli sbr. 4. málsgr. 40. greinar skipulaga nr. 123/2010.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:45