Fjallskilanefnd, fundur nr. 1

05.07.2010 20:30

Mánudaginn 5. júlí 2010 kl. 20:30 kom nýkjörin fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar á heimili formanns Guðmundar Skúlasonar Staðarbakka. Allir nefndarmenn mættir, en þeir eru auk formannsins: Aðalsteinn H Hreinsson Auðnum, Helgi B Steinsson Syðri-Bægisá, Jósavin Gunnarsson Litla-Dunhaga og Stefán L Karlsson Ytri-Bægisá.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

1. Formaður setti fundinn og bauð nefndarmenn velkomna til þessa 1. fundar nefndarinnar og lét í ljós ósk um að nefndarmenn mættu eiga gott og farsælt samstarf næstu fjögur árin.

 

2. Kosning varaformanns og ritara nefndarinnar: Stefán kjörinn varaformaður og Aðalsteinn ritari. Ákveðið að Guðmundur formaður nefndarinnar, annist frágang fundargerða og sendi þær í tölvupósti til annarra nefndarmanna til skoðunar og samþykktar, áður en hann sendir endanlega fundargerð til sveitarstjóra.

 

3. Farið var yfir þær vinnureglur og erindisbréf, sem fjallskilanefnd Hörgárbyggðar hefur unnið eftir. Nefndarmenn eru sammála um að byggja megi á hvoru tveggja fyrir fjallskilanefnd Hörgársveitar, en sumu þarf að breyta og/eða aðlaga að nýju sveitarfélagi. Nefndin gerði þær breytingar sem hún telur æskilegar og verða vinnureglurnar sendar til umsagnar sveitarstjórnar.

 

4. Ákveðið að álagning gangnadagsverka og annað skipulag fjallskila verði með sama hætti og verið hefur undanfarin ár, annars vegar eins og það var í Hörgárbyggð og hins vegar í Arnarneshreppi. Fjallskil verða eingöngu lögð á sauðfé, en ekki á annan búpening eða land. Lagt er til að sveitarsjóður kosti fjallskil með svipuðum hætti og verið hefur, þar er einkum um að ræða gangnasvæði þar sem enginn sleppir fé.

 

5. Tímasetning gangna haustið 2010 rædd. Ákveðið var að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga að flýta göngum í Hörgársveit um eina viku, frá þeim tíma sem mælt er fyrir um í fjallskilasamþykkt. Fyrstu göngur verða því í Hörgársveit, frá miðvikudeginum 8. september til sunnudagsins 12. september. Aðrar göngur verði svo viku síðar.

 

6. Fram hefur komið í samtölum við oddvita og fjallskilastjóra Akrahrepps, að æskilegt væri að fjallskilanefndir Akrahrepps og Hörgársveitar hittust og ræddu sameiginleg fjallskilamál. Ákveðið að stefna að slíkum fundi um miðjan ágúst.

 

7. Ákveðið að þeir sem hafa allt sitt fé í sauðheldum girðingum allt sumarið, geti sótt um að vera undanþegnir fjallskilum.

 

8. Rætt um viðhald fjárrétta sveitarfélagsins. Ákveðið að fjallskilanefndarmaður frá hverri fjallskiladeild sjái um að eðlilegt viðhald verði framkvæmt á réttum sveitarfélagsins í hans deild.

 

9. Vegrið við Þverárbrú: Hætta er af því varðandi rekstur fjár í og frá réttarhólfi við Þverárrétt. Fjallskilanefnd beinir því til sveitarstjórnar að rætt verði við vegagerðina um úrbætur, þannig að þær verði gerðar fyrir fyrstu göngur nk. haust.

 

10. Göngur á Illagilsdal og Lambárdal: Jósavin gerði tillögu um að fjölgað verði um 2 menn á gangnasvæðinu í 1. göngur, annar þeirra komi frá Skriðudeild en hinn frá Arnarnesdeild. Tillagan samþykkt samhljóða.

 

11. Vélhjólamenn á fjallsbrúnum Arnarnesdeildar, Þorvaldsdals og Auðbrekkufjalls: Jósavin greindi frá því að undanfarin tvö haust hafi verið fengnir tveir menn á torfæruhjólum til að smala og verja fjallið. Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn, að heimilt verði að greiða verðmæti tveggja gangnadagsverka úr sveitarsjóði eins og þau eru metin ár hvert í þetta verkefni.

 

Fleiri ekki bókað og fundi slitið kl. 23:45.