Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 69

16.03.2005 00:00

Mætt voru allir sveitarstjórnarmenn. 

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.  Fundarritari: Birna Jóhannesdóttir. 

 

1.   Erindi frá Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. dags. 10. mars 2005.

„Fundur framkvæmdastjóra og oddvita aðildarsveitarfélaga Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. haldin á Akureyri 9. mars 2005 telur að stjórn byggðasamlagsins eigi að leita eftir því við bæjarstjórn Akureyrar að fá til afnota hluta af jörðinni Skjaldarvík fyrir urðunarstað úrgangs og jarðgerðarstöð og samhliða því að falast eftir hluta af jörðinni Glæsibæ í sama skyni. Á þetta svæði var bent sem hentugan stað í skýrslum Stuðuls frá 2001 og 2003. Fundurinn fer fram á það við sveitarstjórn Hörgárbyggðar að hún veiti þessu máli fullan atbeina. Þess er óskað að afstaða beggja viðkomandi sveitarfélaga liggi fyrir 1. apríl nk.“

„Í samræmi við þessa ályktun óskar Sorpeyðing Eyjafjarðar hér með eftir jákvæðri afstöðu sveitarstjórnar Hörgárbyggðar til þessa máls að því gefnu að samningar takist við landeigendur. Svar óskast fyrir 1. apríl nk.“.

 

Með vísan til bókunar Sveitarstjórnar Hörgárbyggðar á fundi dags. 21. janúar 2004, þar sem tekið var fyrir beiðni Sorpeyðingar Eyjafjarðar dags. 18. desember 2003 um hugsamlegan urðunarstaðar í landi Skjaldarvíkur norðan til, en þar setur sveitarstjórn fram það skilyrði, að áður en hægt sé að taka erindi Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. til efnislegrar afgreiðslu, liggi fyrir skýr afmörkuð afstöðumynd af svæðinu, ásamt skriflegu leyfi landeigenda Skjaldarvíkur og Glæsibæjar, um að þeir heimili að umrætt svæði verði skoðað sem hugsanlegur urðunarstaður fyrir sorp.  Svör við þeirri bókun hafa ekki borist sveitarstjórn Hörgárbyggðar.

 

Nú hefur sveitarstjórn borist afrit af skriflegu svari til Sorpeyðingar Eyjafjarðar frá öðrum landeigandanum, en engin önnur gögn. Telur Sveitarstjórn Hörgárbyggðar því ekki tímabært að taka erindi, Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. dags. 10. mars 2005, til efnislegrar afgreiðslu.

 

2.  Bréf frá Arnarneshreppi um:

a) Leigu skrifstofu Hörgárbyggðar. Þar kemur fram að Arnarneshreppur vill að endurgjald fyrir skrifstofu Hörgárbyggðar verði  hækkað í kr. 500.000 með þrifum og rafmagni. Samþykkt.

b) Um starfsmat. Þar kemur fram að Arnarneshreppur fellst á að þeir  launaflokkar sem starfsfólk Þ.M.S. er með umfram starfsmat verði látnir halda sér.

3.   Dreifibréf frá Hagstofunni, ásamt íbúaskrá frá 1. des. 

Óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar um hvort skráin sé rétt fyrir 30. mars. n.k. Sveitarstjóra falið að kanna lögheimili íbúa í Skjaldarvík og skrá þá aðila með lögheimili í Skjaldarvík sem skráðir eru með lögheimili á öðrum öldunarstofnunum. 

4.  Bréf frá Sagaplast ehf. (Endurvinnslunni), um þjónustu vegna rúllubaggaplasts. Þar kemur fram að Sagaplast ehf. er tilbúið að fara um alla Hörgárbyggð og taka rúllubaggaplast frá bændum, þeim að kostnaðarlausu, með því skilyrði að Hörgárbyggð leggi fram lista með nöfnum, símanúmerum og netföngum yfir þá bæi sem sækja þarf plastið á, svo þeir geti látið vita með fyrirvara um hvenær þeir hyggist taka plastið. Kröfur eru um frágang á plastinu að engin aðskotahlutir eða óhreinindi séu í því. Best sé að bændur vandi mjög til frágangs og baggi plastið í hæfilegar stærðir. Oddvita og sveitarstjóra var falið að ganga frá skriflegu samkomulagi við Sagaplast ehf.

5.  Greinargerð frá Eyþingi.

Um undirbúning að gerð menningarsamnings ríkis og sveitarfélaga á svæði Eyþings. Lagt fram til kynningar

6. Erindi frá leikskólastjóra varðandi viðhald húsnæðis.  Þar koma fram óskir um að skipta um gler á Álfasteini og fylgir með kostnaðaráætlun frá Úlfari Ragnarssyni upp á kr. 125.000. Erindinu vísað til framkvæmdar á fjárhagsáætlun ársins 2006.

7. Bréf frá Sambandi ísl.sveitarfélaga. 

Kynning og boðun ráðstefnu um nýmæli í stjórnun sveitarfélaga. Lagt fram til kynningar.

8.  Bréf lögð fram til kynningar frá:

a)  Línuhönnun um öryggismál leiksvæða, dags. 14.02.05.

b)  Vinnueftirlitinu um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.

c)  RARIK dags. 14.02.05.

9.  Innheimtureglur og samningur.

Endurskoðaðar innheimtureglur voru samþykktar samhljóða.

Sveitarstjóra og oddvita falið að ganga frá samningi við Intrum um innheimtuþjónustu með fyrirvara um uppsagnarákvæði.  Sveitarstjóra falið að setja innheimtureglurnar inn á heimasíðu Hörgárbyggðar þannig að auðvelt er að nálgast þær með aðgengilegum hætti.

10. Hunda- og kattahald:

Reglur lagðar fram vegna nokkurra breytinga í meðförum heilbrigðis-eftirlits og athugasemda. Sveitarstjóra falið að setja samþykktirnar inn á heimasíðu Hörgárbyggðar þannig að auðvelt er að nálgast þær með aðgengilegum hætti.

11.  Skipulagsmál. Umsókn um lóð. 

Deiliskipulag á Steðja.  Skipulagið hefur verið auglýst og er frestur til að skila inn athugasemdum liðinn.  Sveitarstjórn staðfestir deiliskipulagið.

Sótt hefur verið um lóð nr. 14 við Skógarhlíð.  Talið er að mjög djúpt sé á fast þarna en Kötlu ehf. hefur verið falið að kanna dýpt lóðarinnar, áður en tekin verður ákvörðun um úthlutun.

Samþykkt að reglur Hörgárbyggðar varðandi gatnagerð og gatnagerðar-gjald verði endurskoðaðar og þeim vísað til umsagnar skipulagsnefndar.

12.  Vaxtasamningur Eyjafjarðar. 

Kynning á stöðu mála. Sveitarstjóri greindi frá fundi sem hún sat hjá AFE þar sem vaxtasamningurinn og aðkoma AFE að honum var mikið ræddur.  Vinna um hina ýmsu klasa er að fara af stað.  Þeir klasar sem unnið er með eru: matvælaklasi, ferðaþjónusta, mennta- og rannsóknarklasi og heilbrigðisklasi.  Sem dæmi um verkefni sem farið er í gang er samvinna safna á Eyjafjarðarsvæðinu, þar er öflug vinna farin af stað, s.s. um skráningu sögustaða og undirbúningur á korti yfir öll söfnin á svæðinu og hina ýmsu sögustaði. Sveitarstjórn hvetur íbúa sveitarfélags til að kynna sér vaxtasamninginn og taka þátt ef áhugi er fyrir hendi.

13.   Fundargerðir: 

a) Fundargerð bygginganefndar frá 15. febrúar.

Tvö erindi eru úr Hörgárbyggð þ.e. um breytingar á húsnæði Húsa-smiðjunnar á Lónsbakka og frá Eiríki á Sílastöðum um byggingu sumarhúss úr timbri á lóð nr. 12 í Fögruvík. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

b) Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra. Tvö erindi voru úr Hörgárbyggð annars vegar um hunda og kattahald og hins vegar un starfsleyfi fyrir vatnsveituna á Hlöðum. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

c) Fundargerð stjórnar Eyþings frá 11. febrúar, 159 fundur. Lögð fram til kynningar.

d) Fundargerð bókasafnsnefndar frá 22. febrúar 2005. Undir lið 4. var samþykkt að fá Þórhall Bragason til að meta gömlu bækurnar. Fundargerðin afgreidd án athugasemda.

14.   19. Landsþing sveitarfélaga og ársfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.  Samþykkt að sveitarstjóri sæki landsþingið f.h. Hörgárbyggðar.

15.  Reikningshald – uppgjör.

Helga upplýsti að vinna endurskoðenda sé að fara í fullan gang og að vonandi verði sú vinna langt komin fyrir miðjan apríl.

16.  Erindi frá sveitarstjóra.

V/mótframlags launagreiðanda í lífeyrissjóð. Framlag sem búið var að samþykkja að greiða fyrir síðasta ár vegna Íþróttamannvirkjanna á Þelamörk  var kr. 995.115.

17.  Trúnaðarmál.

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 00:17