Sveitarstjórn Hörgárbyggðar, fundur nr. 25

11.12.2002 20:30

Miðvikudaginn 11. desember 2002 kl. 20:30 kom sveitarstjórn Hörgárbyggðar saman til fundar í Hlíðarbæ.

Mætt voru: Ármann Þórir Búason, Birna Jóhannesdóttir, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir, Helgi Bjarni Steinsson, Klængur Stefánsson, Sigurbjörg Jóhannesdóttir, Sturla Eiðsson og Helga Erlingsdóttir, sveitarstjóri. Tveir áheyrnarfulltrúar voru mættir.

Helgi Steinsson oddviti Hörgárbyggðar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. 

 

1.   Fundargerðir

Sveitarstjórnar 20. nóvember og 2. desember samþykktar samhljóma.

 

Fundargerð leikskólanefndar frá 4. desember var rædd, þar kemur fram að kostnaður á hvert barn á Álfasteini árið 2001 var kr. 908.600 og næst dýrasti leikskólinn sem kannaður var með kr. 507.526 á hvert barn en á einum minnsta leikskólanum á Akureyri var kostnaðurinn kr. 370.111. Sveitarstjóra falið að skoða leikskólamálin í samstarfi við leikskólastjóra og leikskólanefnd.

 

Fundargerð skólanefndar frá 10. des. afgreidd án athugasemda. Ef um aukakostnað verður að ræða vegna árshátíðar skólans sem fyrirhugað er að halda í Hlíðarbæ þá verður það skoðað sérstaklega.

Framkvæmdanefnd skólans og íþróttahúss f.h. Hörgárbyggðar var ákveðið að væri skipuð þeim Helga Steinssyni og Ármanni Búasyni, til vara verður Sturla Eiðsson. Fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun Þelamerkurskóla vísað til framkvæmdanefndarskolana til skoðunar.

 

Fundargerð bygginganefndar frá 3. desember lögð fram til kynningar, þar er fjallað um tvö mál í Hörgárbyggð. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við fundargerðina.

 

Fundargerð fjallskilanefndar frá 18. nóv. afgreidd án athugasemda en fundargerð fjallskilanefndar frá 27 nóv. var rædd, þar kom fram að 550 kindur komu til réttar í Hörgárbyggð frá Akrahreppi og hefur sveitarstjóri ritað sveitarstjórn Akrahrepps bréf þar sem óskað er eftir fundi til að ræða fjallskilamál. Einnig var samþykkt vegna 4. liðar fundargerðarinnar að sveitarstjórn verði við framkominni beiðni fjallskilanefndar um að draga áminningu til fjallskilastjóra frá því fyrr í haust til baka, þar sem hún hafi verið tilefnislaus.

 

Fundargerðir Heilbrigðiseftirlitsins frá 11. nóv. og 2. des. lagðar fram til kynningar.

 

Fundargerðir Sorpeyðingar Eyjafjarðar frá 2002, 48. – 53. fundur, lagðar fram til kynningar.

 

Fundargerð stjórna Eyþings dags. 1. nóv. 2002, 136. fundur og fundar stjórn Eyþings með þingmönnum frá 23. okt. lagðar fram til kynningar.

 

Fundargerð Hafnarsamlags Norðurlands frá 11. nóv. lögð fram til kynningar.

 

2.   Skipulagsmál

Oddviti og sveitarstjóri fyrirhuga að kalla skipulagsnefnd til fundar þann 16. desember til að fara yfir stöðu skipulagsmála og þá sérstaklega vegna byggingakvæmda í Skógarhlíð.

 

3.   Breytingar á húsnæði Þelamerkurskóla

Teikningar lagðar fram og skoðaða. Gunnlaugur O. Johnsson hönnuður teikninganna mun væntanlega leggja fram næstu daga kostnaðaráætlun vegna verksins. Málið verður síðan skoðað nánar.

 

4.   Bréf sem borist hafa:

Bréf frá Náttúruverndarnefnd Eyjafjarðar dags. 20. nóv. vegna jarðrasks í landi Gerðis í Hörgárdal vegna framkvæmda við fyrirhugað girðingarstæði. Sveitarstjórn styður einhuga við athugasemdir nefndarinnar að landeigendum sé gert að lagfæra, eins og unnt er, umrædda sjónmengun af þessum jarðvegssárum.

 

Ferðamálasetur Íslands/Gásaverkefnið. Afrit af bréfi, sent oddvita, stílað á Sorpeyðingu Eyjafjarðar um áhyggjur vegna fyrirhugaðrar sorpurðunar á Gásum frá samráðshópi Gásaverkefnisins undirritað af þeim Guðrún Kristinsdóttur og Kristínu Sóleyju Björnsdóttur, bréfið lagt fram til kynningar.

 

Vinnueftirlitið dreifibréf til sveitarfélaga og byggingafulltrúa. Efni: Húsnæði fyrir sorpbrennslu hjá sveitarfélögum, kröfur laga og reglna um aðbúnað, þjónustuhætti og öryggi á þannig vinnustöðum, bréfið lagt fram til kynningar.

 

Upplýsingar um snjómokstur á vegnum utan þjóðvegar nr. 1, frá oddvita Arnarneshrepps. Þar koma fram hugmyndir um samning um snjómokstur við Vegagerðina h.f. Eftirlitsgjaldið er kr. 90 pr. km. En mokstursgjaldið er kr. 250 pr. km. Samþykkt að semja við Vegagerðina um eftirlit og mokstur á leiðinn Hlíðarbær-Hörgárbrú, Skottið og svo fram Torfuna að Staðartungu. Að öðru er fyrri ákvörðun um snjómokstur óbreytt.

 

Ljósastaura, greiðsla, framtíðarsýn

Samráðshópur um stefnu í ljósastauramálinu leggur til að haldið verði áfram að leggja til allt að tvo ljósastaura á hverja heimreið á þeim jörðum sem eru í ábúð í Hörgárbyggð. Einnig að frá og með 1. janúar 2003 verði hætt að greiða niður rafmagn til þeirra sem hafa haft slíka niðurgreiðslu. Klæng Stefánssyni og sveitarstjóra falið að vinna að málinu og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund.

 

Frá fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Upplýsingar um breytingar á styrkjum Reykjavíkurborgar vegna nemenda með lögheimili í öðrum sveitarfélögum. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að frá og með næsta hausti muni Reykjavíkurborg hætta að greiða niður styrki til Tónlistarskóla Reykjavíkur vegna nemenda með lögheimili úr öðrum sveitarfélögum.

 

Rafræn samfélag

Kynning á bréfi Byggðastofnunar um verkefnið rafrænt samfélag sem er þróunarverkefni, þar sem tvö byggðarlög verða valin í kjölfar samkeppni um að verða rafrænt tilraunasamfélag. Sveitarstjórn ákvað að taka ekki þátt í samkeppni um slíkt samfélag.

 

5.   Styrkbeiðnir

Varpholt óskar eftir kr. 12.000 styrk vegna söfnunar örnefna í Hörgárbyggð og staðsetningu þeirra inn á loftmynd frá BSE. Samþykkt að veita Varpholti kr. 12.000 í styrk.

 

Gásafélagið. Umsókn um kr. 10.00 styrk vegna rekstrarársins 2003, erindið var samþykkt.

 

Stígamót beiðni um aukin fjárstuðning sveitarfélaga til rekstrar samtakanna. Sveitarstjórn hafnar erindinu.

 

Styrkbeiðnum frá Götusmiðjunni, Gigtarfélagi Íslands og Námsmannahreyfingunni var einróma hafnað.

 

6.   Lagðar fram reglur (frá gamla Glæsibæjarhreppi) um innheimtumál.

Sveitarstjóra falið að vinna nánar að reglunum fyrir Hörgárbyggð í samræmi við umræðuna á fundinum og koma með á næsta fund.

 

7.   Fjárhagsáætlun – frágangur að breyttri, endurgerðri fjárhagsáætlun vegna 2002

Eftir nýjum reglum um reikningsskil. Sveitarstjóra og oddvita falið að ganga frá áætluninni með áorðnum breytingum og senda til Félagsmálaráðuneytisins.

 

8.   Undirbúningur fjárhagsáætlunar 2003

Ákveðið að stefna að því að taka fjárhagsáætlun til fyrri umræðu 15. janúar og til þeirrar síðari 29. janúar 2003. Einnig var ákveðið að útsvarsprósenta næsta árs verði óbreytt, þ.e. útsvar 12,8%, fasteignagjöld 0,38%, fasteignagjöld á iðnaðar og atvinnuhúsnæði 1,32%, holræsagjald 0,18% og afsláttur af fasteignagjöldum til eldri borgara allt að kr. 27.500.

 

8.   Önnur mál

Sveitarstjóra falið að senda beiðni til Vegagerðarinnar um að þeir lýsi upp vegarspottann frá Laugalandsafleggjara og einhverja tugi metra suður fyrir afleggjarann í Þelamerkurskóla þar sem að mjög blint er við afleggjarann að skólanum. Vísa er til þess að Vegagerðin hefur sett upp fyrir mörgum árum slíka lýsingu við Hrafnagilsskóla.

 

Erindisbréf fyrir skólanefnd var lagt fyrir nefndina og var það afgreitt án athugasemda. Sveitarstjórn Hörgárbyggðar samþykkti síðan erindisbréfið samhljóða fyrir sitt leyti.

Samræmt erindisbréf til allra nefnda sveitarfélagsins var síðan samþykkt í sveitarstjórn og ákveðið að senda afrit af erindisbréfinu til allra nefndamanna Hörgárbyggðar.

Erindisbréf fyrir leikskólanefnd verður afgreitt á næst fundi.

 

Erindi frá sveitarstjóra, þar kemur fram að ákveðið er lokaverkefni hennar í Háskólanum á Akureyri verði úttekt á einu sérstöku sveitarfélagi og er þegar ákveðið að hún og þrír aðrir nemendur taki Hörgárbyggð sem sitt verkefni og óskar hún eftir heimild til að fá að skoða Hörgárbyggð í samræmi við það. Sveitarstjórn fagnaði því að Hörgárbyggð hafi orðið fyrir valinu i þetta verkefni og veitti leyfið fúslega.

 

Helga og sveitarstjóra falið að fara yfir launamál nefndarmanna sveitarfélagins og oddvita og leggja fyrir næsta fund, einnig að koma með tillögur um fundafyrirkomulag fyrir næsta ár þar sem að sveitarstjórnarfundir eru óheyrilega langir og þá hvort ekki sé nauðsyn að hafa tvo sveitarstjórnarfundi löglega boðaða í hverjum mánuði.

 

 

Sveitarstjóra falið að fara yfir leigumál v/Mið-Samtúns og þá í samráði við lögfræðing sveitarfélagsins og þá hvort ekki sé hægt að segja upp leigusamningnum vegna vanskila leigutaka, þar sem ekki hefur verið greidd leiga nánast allt árið 2002.

 

Fundur með framkvæmdanefnd skólans og Norðurorku var haldinn 26. nóvember vegna óheyrilegs kostnaðar við kaup á köldu vatni til Þelamerkurskóla og íþróttamannvirkja. Mánaðarreikningurinn er u.þ.b. 94.000. Kvartað hefur verið undan því að vatnið í sundlauginni sé ekki tært og ekki sjáist alltaf til botns í lauginni. Áætlað er að taka sýni úr vatninu og rannsaka það og verður málið skoðað í framhaldi af þeirri niðurstöðu.

 

Guðnýju og sveitarstjóra falið að vinna að undirbúningi á vinnuskóla fyrir unglinga 14-16 ára sem á ætlað er að starfrækja í Hörgárbyggð sumarið 2003.

 

 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 01:03.

 

Birna Jóhannesdóttir, fundarritari