Húsnefnd félagsheimilanna, fundur nr. 1 - 2008

06.07.2008 20:30

Sunnudaginn 6. júlí 2008 kl. 20:30 boðaði formaður húsnefndar, Árni Arnsteinsson, til fundar í Hlíðarbæ.  Fundinn sátu eftirtaldir: Húsnefndin: Árni Arnsteinsson, Guðný Fjóla Árnmarsdóttir og Jóhanna María Oddsdóttir. 

Ennfremur voru á fundinum Birna Jóhannesdóttir, Guðmundur Sigvaldason, Jóhannes Axelsson, Ragnheiður Sverrisdóttir, Sighvatur Stefánsson og Þorsteinn Áskelsson. Guðný Fjóla tók að sér að rita fundargerð.

Þetta gerðist:

Árni Arnsteinsson formaður húsnefndar bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. 

Ragnheiður Sverrisdóttir kynnti teikningar vegna endurbóta sem fram eiga að fara á anddyri og salerni Hlíðarbæjar. Samþykkt var að hefja framkvæmdir í lok júlí nk. í samræmi við framlagðar teikningar. Ennfremur var samþykkt að Sighvatur og Þorsteinn hefðu yfirumsjón með verkinu.

Lýsing í lofti var rædd og Jóhannes Axelsson tók að sér að teikna og setja sig í samband við rafvirka hjá Rafeyri varðandi það sem snýr að rafmagnsmálum.

Ragnheiður kom með sýnishorn og hugmyndir varðandi  heppileg gólfefni og var ákveðin flísategund frá Vídd valin og mun Ragnheiður sjá um innkaup á þeim.  Guðmundur ætlar að finna múrara sem tilbúnir eru að taka það sem snýr að múrverki að sér og eins lagði fundurinn til að samið yrði við Harald Helgason um pípulagnir og Pálma Bjarnason varðandi málningarvinnu. Árni mun sjá um að semja við Steypusögun Norðurlands um múrbrot og steypusögun. Ragnheiður tók að sér að tala við trésmiðjuna Öl varðandi trésmíðavinnu við fyrirhugaðan bar, gerð gólflista, hurða og fleira.

Samhliða þessum framkvæmdum var ákveðið að endurnýja útihurð hússins en hún er orðin er léleg og kostnaðarsamt að halda henni við. Samþykkt var að leita tilboða í nýja hurð hjá Berkinum.

Ýmislegt fleira rætt en ekki fært til bókar og var fundi slitið um kl. 24:00.