Folaldasýning Framfara

Á laugardaginn var hrossaræktarfélagið Framfari með folaldasýningu, sem tókst afar vel. Sýnd voru hvorki meira né minna en 64 folöld í tveimur flokkum. Efstu folöld í hvorum flokki voru undan hestagullinu Álfi frá Selfossi.  Í flokki hestfolalda sigraði Álmur frá Skriðu. Hann er undan Dalrós (Mola frá Skriðu dóttur) frá Arnarstöðum. Í flokki merfolalda sigraði Leynd frá Litlu-Brekku, sem er undan Ásaþórsdótturinni Líf frá Litlu-Brekku. Álmur var einnig kosinn flottasta folaldið af áhorfendum, sem voru rétt um hundrað á þessari stórvelheppnuðu sýningu.
Ræktunarhátíð Framfara fór svo fram á laugardagskvöldið. Þar voru ræktendur 14 hrossa heiðraðir og hlutu viðurkenningu fyrir árangur sinn í hrossaræktinni. Nánar á heimasíðu félagsins.