Þórir Valgeirsson

Vísnasafn Hörgársveitar

 

Þórir Valgeirsson

Auðbrekku, fæddur 1922, dáinn 1987.

 

Hvað er líkt með fegurðarsamkeppni kvenna og kúasýningu:

Með þeim fátt mér svipað sýnist

sem ég þekki.

Beljan vegna kosta krýnist,

en konan ekki.

 

Aðferð sú er illa ræmd

og andúð vakin.

Konan er í klæðum dæmd

en kýrin nakin.

 

Önnur hlýtur alheims gæði

og atlot vina.

Strax er pantað sérstakt sæði

og sett í hina.

 

 

Hártíska ungu mannanna:

Hári síðu hrósa ég fús,

sem hrausta prýðir drengi,

á meðan fríð og lífsglöð lús

loðið skríður engi.

 

 

Góði vinur:

(Ort til Steindórs Guðmundssonar, Þríhyrningi, á fimmtugsafmæli hans 28. febr. 1955)

Að hafa lifað hálfa öld

er hreint ekki svo mikið.

En til þín mun ég koma í kvöld,

karl minn, fyrir vikið.

 

Á liðin ár skal líta nú

og lífga geymda minning.

Í vöggu ég, en vaxinn þú,

var hin fyrsta kynning.

 

Alltaf síðan eigum við

ótal stundir saman.

Við höfum starfað hlið við hlið,

hryggst og vakið gaman.

 

Í minning dögum fornum frá

er flest sem kætir geðið.

Við höfum fundist, flogist á

og fjölda af vísum kveðið.

 

Það er eins með þig og mig

og þykir naumast skrýtið.

Við höfum okkar ævistig

eigrað króka lítið.

 

En við höfum fylgt þeim forna sið,

sem flestu er meira virði,

að hvor vill öðrum leggja lið

og létta hinum byrði.

 

Að lokum vil ég þakka þér,

en þó með nokkrum trega,

þá hálfu öld sem horfin er

heldur skyndilega.

 

Gæfuljósið lífsins veg

lýsi þér til enda.

Halli, Anton, Halla og ég

hjartans kveðju senda.

 

 

 

 

Til baka í yfirlit vísnasafnsins