Sveitarstjórn fundur nr.185
Fimmtudaginn 22. maí 2025 kl. 08:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til
fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla .
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri
Þetta gerðist:
1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 20.5.2025
Fundargerðin lögð fram og er hún í 7 liðum og þarfnast 6 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.
a) Í lið 1, Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 - Kynning tillögu á vinnslustigi (Breyting á aðalskipulagi) (2504029).
Akureyrarbær óskar umsagnar Hörgársveitar um tillögu á vinnslustigi vegna endurskoðunar á aðalskipulagi. Skipulagstillaga unnin af Landslagi, 23.04.2025 fylgir erindinu.
Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemdir við tillöguna.
b) Í lið 2, Hjalteyrarvegur 15 - Umsókn um stækkun á byggingarreit (2505022).
Fyrir fundinum liggur erindi frá lóðarhafa að Hjalteyrarvegi 15, Hörgársveit þar sem óskað er eftir að stækka byggingarreit miðað við gildandi deiliskipulag á svæðinu. Teikningar unnar af Þóri Guðmundssyni dags. 24.04.2025 fylgja erindinu.
Sveitarstjórn samþykkti breytingu á deiliskipulaginu í samræmi við óskir lóðarhafa og meðfylgjandi uppdrátt. Breytingin telst óveruleg með tilliti til gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. og fallið er frá grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
c) Í lið 3, Gamla Síldarverksmiðjan L152373 - Umsókn um uppsetningu fjarskiptaloftnets (2505023).
Umsókn liggur fyrir fundinum varðandi uppsetningu á fjarskiptaloftnets á gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri. Meðfylgjandi eru teikningar unnar af Sigurði Lúðvík Stefánssyni, dags. 07.05.2025.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr 123/2010. Heimilt verði að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við áformin. Erindið telst samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabilinu.d) Í lið 4, Hagaflöt 1, 3, 5, 2, 4 og 6 - beiðni um stækkun á byggingarreit (2505031).
Umsókn liggur fyrir fundinum varðandi stækkun á byggingarreit lóðanna. Meðfylgjandi eru teikningar í vinnslu, unnar af Steinmar H. Rögnvaldssyni dags. 13.04.2025.
Sveitarstjórn samþykkti breytingu á deiliskipulaginu í samræmi við óskir lóðarhafa og meðfylgjandi uppdrátt. Breytingin telst óveruleg með tilliti til gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leggur nefndin til að fallið verði frá grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
e) Í lið 5, Ytri-Bægisá 2 L152509 - stofnun tveggja lóða og stækkun á landspildu. (2503052).
Erindi liggur fyrir fundinum sem var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 28. apríl en er nú til umfjöllunar að nýju. Um er að ræða stækkun á landspildunni Ytri-Bægisá 1 skógrækt sem fái nafnið Hylskógur.
Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði gerð athugasemd við þá merkjalýsingu sem fyrir liggur varðandi landspilduna L229542 sem fái nafnið Hylskógur.
f) Í lið 6, Fossá – umsókn um leyfi til lagfæringar á árfarvegi 2024 (2410007).
Fyrir fundinum liggur fyrir erindi f.h. landeiganda þar sem óskað er eftir að uppmokstur sem gerður var í landi Áss verði fjarlægður.
Sveitarstjórn samþykkti að uppmoksturinn verði fjarlægður þegar samþykki allra landeigenda liggur fyrir og felur skipulagsfulltrúa að hafa eftirlit með framkvæmdinni.
2. Fundargerð fræðslunefndar frá 13.5.2025
Fundargerðin lögð fram og er hún í 11 liðum og þarfnast 3 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.
a) Í lið 2, skóladagatal Álfasteins 2025 – 2026
Lögð fram tillaga að skóladagatali.
Sveitarstjórn samþykkti skóladagatal leikskólans Álfasteins 2025-2026 eins og það liggur fyrir.
b) Í lið 3, skóladagatal Þelamerkurskóla 2025 – 2026
Lögð fram tillaga að skóladagatali.
Sveitarstjórn samþykkti skóladagatal Þelamerkurskóla 2025-2026 eins og það liggur fyrir.
c) Í lið 8, innritunarreglur
Rætt um endurbætur á innritunarreglum eins og t.d. innritun barna eftir áramót – með hvað löngum tíma skal tilkynna foreldrum um pláss fyrir börn sem koma inn í leikskólann á seinni önn. Eins rætt um reglur varðandi heimgreiðslur og umsókn í leikskólann.
Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi breytingar á innritunarreglum:
3. og 4. grein orðist svo:
3. grein:
Aðalinnritun í leikskóla fer fram í apríl ár hvert. Mikilvægt er að umsókn hafi borist fyrir 1. mars það ár sem barnið á að innritast. Þeir sem sækja um leikskóladvöl eftir 1. mars geta ekki vænst þess að fá leikskólapláss fyrr en ári seinna. Þetta á jafnt við um forgangshópa sem og aðra. Umsóknir raðast á biðlista eftir kennitölum barna, þau elstu fyrst.
4. grein:
Til að barn geti hafið dvöl í leikskólanum Álfasteini, þarf það að hafa náð 12 mánaða aldri, hafa lögheimili í Hörgársveit og laus dvalarrými að vera til staðar. Umsóknum er svarað í apríl til maí. Umsóknum utan þess tíma eru teknar fyrir sérstaklega. Óskað er eftir staðfestingu forráðamanna í tölvupósti. Hafni forráðamenn leikskólaplássi færist umsóknin aftast á biðlista.
Inn komi ný grein sem verði 6. grein og orðist svo:
6. grein:
Börn starfsfólks Hörgársveitar sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu, fá einungis úthlutað leikskólaplássi til eins árs í senn.
3. Fundargerðir afgreiðslufunda SBE frá 93. og 94. fundi
Fundargerðirnar lagðar fram.
4. Fundargerð stjórnar SSNE frá 73. fundi
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð ársþings SSNE frá 2.-3. apríl 2025
Fundargerðin lögð fram.6. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, umsókn um gistileyfi, umsögn
Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki IV-B, stærra gistiheimili að Engimýri.
Sveitarstjórn samþykkti fyrir sitt leyti að rekstrarleyfið verði veitt.
7. Landsnet, erindi vegna Blöndulínu 3
Lagt fram erindi þar sem kynnt er hækkun landbóta vegna Blöndulínu 3.
8. Lónsvegur 9 og 11
Á fundi sveitarstjórnar 28.04.2025 var samþykkt að gengið yrði til samninga við Valsmíði ehf kt. 680303-3630 um úthlutun lóðanna nr. 9 og 11 við Lónsveg.
Í viðræðum og í tölvupósti frá Valsmíði dags. 21.5.2025 kemur fram að hugmyndir umsækjanda falla ekki að hugmyndum sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn samþykkti því að leita annarra leiða við úthlutun lóðanna.
9. Fjárrétt í Glæsibæjardeild
Þar sem fjárréttin að Skútum verður nú lögð af, þarf að finna réttinni nýjan stað.
Sveitarstjórn samþykkti að leita samninga við eigendur Grjótgarðs um staðsetningu réttarinnar og farið verði í að byggja rétt þar fyrir haustið.
10. Göngu- og hjólastígur
Umræður um stöðu framkvæmda.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 10:10