Sveitarstjórn fundur nr.183

28.04.2025 09:00

Mánudaginn 28. apríl 2025 kl. 09:00 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla .
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson.
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

 

Þetta gerðist:

1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 25.4.2025
Fundargerðin lögð fram og er hún í 10 liðum og þarfnast 7 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 2, Hallfríðarstaðir - umsókn um byggingarreit fyrir geymsluhúsnæði (2504018).
Fyrir fundinum liggur umsókn frá landeiganda að Hallfríðarstöðum L152401 vegna byggingar 194 m² stálgrindarhúss sem ætlunin er að nýta sem geymsluhúsnæði. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Sveitarstjórn samþykkti erindið og þar sem það varðar ekki hagsmuni annarra en málshefjanda sjálfs er fallið frá grenndarkynningu sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

b) Í lið 3, Ytri-Bægisá 2 L152509 - stofnun tveggja lóða og stækkun á skógræktarsvæði (2503052).
Fyrir fundinum liggur merkjalýsing þar sem landeigandi á jörðinni Ytri-Bægisá 2 óskar eftir stofnun tveggja lóða. Annars vegar afmörkun 832 fm lóðar úr landi Ytri-Bægisá 2 L152509 sem fái heitið Ytri-Bægisá og hinsvegar afmörkun 2.092,3 fm lóðar úr landi Ytri-Bægisá 2 L152509 sem fái heitið Húsá.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki er gerð athugasemd við framkvæmdina. Ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabilinu teljast áformin samþykkt og er þá skipulagsfulltrúa falið að fullnusta skráningu á breytingu og stofnun lóðanna.
Afgreiðslu á umsókn um stækkun á skógræktarsvæði frestað að tillögu nefndarinnar.

c) Í lið 4, Glæsibær - Hagabrekka 10 og 12 - áfangi 1. - óveruleg breyting á deiliskipulagi (2504001).
Fyrir fundinum liggur erindi frá landeiganda varðandi breytingu á deiliskipulagi vegna Glæsibæjar, áfanga 1, þar sem um er að ræða breytingu á lóðarmörkum og stærðum lóðanna Hagabrekku 10 og 12.
Sveitarstjórn samþykkti að vísa erindinu, sem er óveruleg deiliskipulagsbreyting skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Heimilt er að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við framkvæmdina. Ef ekki berast andmæli á grennarkynningartímabilinu teljast áformin samþykkt og felur þá skipulagsfulltrúa að fullnusta skráningu á breytingu lóðanna.

d) Í lið 5, Hagaflöt 1, 3, 5, 2, 4 og 6 - beiðni um fjölgun íbúða (2504025).
Fyrir fundinum liggur erindi frá Steinmar H. Rögnvaldssyni f.h. lóðarhafa þar sem óskað er eftir fjölgun íbúða.
Sveitarstjórn samþykkti að hafna að erindinu.

e) Í lið 6, Hraun í Öxnadal L152440 - nýtt deiliskipulag
Kynningartímabili skipulagslýsingar vegna nýs deiliskipulags að Hrauni í Öxnadal 9. desember 2024 og bárust 8 erindi á kynningartímabilinu. Sveitarstjórn fjallar um innkomin erindi um lýsinguna.
Sveitarstjórn samþykkti að fela skipulagshönnuði að hafa hliðsjón af innkomnum erindum við gerð skipulagstillögu.

f) Í lið 7, Lónsvegur 9 og 11, úthlutun lóða (2504026).
Fyrir fundinum liggja umsóknir um lóðirnar Lónsveg 9 og 11. Minnisblað um fundi með umsækjendum og frekari upplýsingar lagðar fram.
Sveitarstjórn samþykkti að gengið verði til samninga við Valsmíði ehf kt. 680303-3630 um úthlutun lóðanna nr. 9 og 11 við Lónsveg.

g) Í lið 9, Búland L152305 - ósk um byggingarreit v. geymslubragga (2504027).
Fyrir fundinum liggur erindi frá landeiganda varðandi ósk um byggingarreit fyrir geymslubragga.
Sveitarstjórn samþykkti erindið. Þar sem erindið varðar ekki hagsmuni annarra en máls-hefjanda og sveitarfélagsins er fallið frá grenndarkynningu sbr. 3.mgr 44.gr skipulagslaga nr. 123/2010.

2. Fundargerð ungmennaráðs frá 8.4.2025
Fundargerðin lögð fram og er hún í 5 liðum og þarfnast 1 liður afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 5, önnur mál
Ungmennaráð leggur til við sveitarstjórn að það verði gerður góður körfuboltavöllur á leiksvæði skólans með mjúku undirlagi og fleiri körfum. Bæta þarf úr loftræstingu í nýrri álmu skólabyggingarinnar. Ráðið leggur einnig til að félagsmiðstöðin skipti um nafn og hljóti nafnið Dranginn með tengingu til eins aðal kennileitis sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn samþykkti að:

a) Staðsetning körfuboltavalla muni fylgja endurskoðun á leiksvæði skólans.
b) Loftgæði í Árbakka, nýrri álmu skólans muni batna til muna þegar næsti áfangi álmunnar verður tekinn í notkun í haust.
c) Að félagsmiðstöðin fengi nafnið, Félagsmiðstöðin Dranginn.

3. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 91. fundi
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð skólanefndar Tónlistarskóla Eyjafjarðar frá 149. fundi
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð stjórnar SSNE frá 72. fundi
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 241. fundi
Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð aðalfundar Moltu ehf frá 8.4.2025
Fundargerðin lögð fram ásamt skýrslu stjórnar og ársreikningi 2024.

8. Fundargerðir stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá fundum 973-976.
Fundargerðirnar lagðar fram.

9. Hraun í Öxnadal ehf, aðalfundarboð
Aðalfundarboðið lagt fram en aðalfundurinn verður haldinn 5. maí 2025.
Sveitarstjórn samþykkti að Ásrún Árnadóttir verði fulltrúi Hörgársveitar á fundinum.

10. Norðurþing, erindi vegna náttúruverndarnefndar
Erindið lagt fram en þar er leitast eftir samstarfi við sveitarfélögin á starfssvæði SSNE um stofnun og rekstur náttúruverndarnefndar. Norðurþing lýsir sig reiðubúið til að vera leiðandi sveitarfélag í starfi nefndarinnar.
Sveitarstjórn telur ekki þörf á þátttöku í þessu verkefni, þar sem starfandi er umhverfisnefnd í sveitarfélaginu sem fer með náttúrverndnarmál í Hörgársveit.

11. Samband ísl. sveitarfélaga – heimsóknir til sveitarfélaga
Erindið lagt fram en þar er tilkynnt að fulltrúrar sambandsins muni sækja Hörgársveit heim þann 13. maí n.k.

12. Tillaga til þingsályktunar um fasta starfstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri
Umræður um tillöguna.
Sveitarstjórn Hörgársveitar telur að um afar brýnt mál sé að ræða og hvetur til þess að það nái fram að ganga.

13. Göngu- og hjólastígur
Umræður um stöðu framkvæmda.

14. Trúnaðarmál

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:55