Sveitarstjórn fundur nr.181

27.03.2025 08:30

Fimmtudaginn 27. mars 2025 kl. 08:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri

Þetta gerðist:

1. Fundargerð atvinnu- og menningarnefndar frá 19. mars 2025
Fundargerðin lögð fram og er hún í 5 liðum og þarfnast 3 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, erindi frá UMSE
UMSE óskar eftir að gera samstarfssamning við Hörgársveit og Ungmennafélagið Smárann fyrir árin 2025-2028 og vorur drög að samningi lögð fram.
Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

b) Í lið 3, erindi frá foreldrafélagi Álfasteins
Foreldrafélag Álfasteins óskar eftir styrk kr. 150.000 til að halda veglega afmælisveislu í tilefni 30 ára afmæli leikskólans á vorhátíðinni, sveitungum verður boðið að koma á opið hús.
Sveitarstjórn fagnar framlagi foreldrafélagsins og samþykkti að veita styrk að upphæð kr. 150.000.

c) Í lið 5, Sæludagur og Fjölskylduhátíðin á Hjalteyri
Umræður um viðburðina.
Sveitarstjórn samþykkti að Sæludagurinn verði haldinn laugardaginn 21. júní 2025. Fjölskylduhátíðin á Hjalteyri verði venju samkvæmt haldin um Verslunarmannahelgina.

2. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 25.3.2025
Fundargerðin lögð fram og er hún í 14 liðum og þarfnast 11 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, Árskógsvirkjun, Þorvaldsdal - Breyting á aðalskipulagi mál nr. 0214/2025 í skipulagsgátt – umsagnarbeiðni (2502024)
Dalvíkurbyggð óskar umsagnar Hörgársveitar á skipulagslýsingu skv. 1.mgr. 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna breytingar á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 fyrir allt að 5 MW vatnsaflsvirkjun í Þorvaldsdalsá, stíflu og stöðvarhús auk 3,7 km langrar aðrennslispípu og fylgir lýsing á skipulaginu dags. 06.01.2025 erindinu.
Sveitarstjórn samþykkti að ekki verði gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

b) Í lið 4, Fagranes L152434 – umsókn um byggingarreit (2503028)
Landeigandi á Fagranesi sækir um byggingarreit fyrir 200m2 heilsárshús. Byggingarreiturinn er 711 m2 stór.
Sveitarstjórn samþykkti erindið, að því tilskyldu að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir sem og umsögn Vegagerðarinnar vegna vegtengingar. Einnig verði tryggt að reiturinn sé ekki á hættusvæði vegna ofanflóða.

c) í lið 5, Fagranes L2157606 - umsókn um leyfi til skógræktar (stækkun á framkvæmdarsvæði) (2411010)
Sveitarstjórn samþykkti á 178. fundi sínum að óska eftir umsögn Skipulagsstofnunar varðandi umfang skógræktar á svæðinu, sem liggur nú fyrir fundinum til umfjöllunar.
Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaraðila sé gert að tilkynna skógræktaráform sín til Skipulagsstofnunar, líkt og ber að gera óháð stærð framkvæmda á vatnsverndarsvæðum, samkv. 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Ef auka á skógrækt á jörðinni umfram þá 74 ha sem nú er leyfi fyrir þarf að liggja fyrir matsskylduákvörðun eða umhverfismat áður umsóknin verði tekin til afgreiðslu.

d) Í lið 6, Skútar - Moldhaugaháls - beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingarreits 3 (2410006)
Óskað er eftir deiliskipulagsbreytingu sem felst í því að taka út skiptingu á A og B rými á byggingarreit 3. Heildar byggingarmagn verður áfram það sama, þ.e. 690 m2.
Sveitarstjórn samþykkti breytinguna á deiliskipulaginu. Breytingin telst óveruleg og er fallið frá grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

e) Í lið 7, Aðalskipulag Skagafjarðar endurskoðun 2025-2040 - kynning á tillögu á vinnslustigi - (2503036)
Skagafjörður óskar umsagnar Hörgársveitar um tillögu á vinnslustigi vegna nýs aðalskipulags. Skipulagstillaga unnin af VSÓ ráðgjöf, mars 2025 fylgir erindinu.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við vinnslutillöguna að öðru leyti en því er varðar Blöndulínu 3, þar sem bent er á misræmi sem verður á sveitarfélagamörkum þar sem í greinargerð með gildandi aðalskipulagi Hörgársveitar er enn gert ráð fyrir jarðstreng.

f) Í lið 9, Blómsturvellir L152465 - Stofnun tveggja lóða úr landi Blómsturvalla (2503045)
Umsókn frá Akureyrarbæ, eiganda Blómsturvalla þar sem óskað er eftir samþykki Hörgársveitar fyrir stofnun tveggja lóða úr landi Blómsturvalla L152465.
Sveitarstjórn samþykkti stofnun lóðanna og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kalla eftir merkjalýsingu og fullnusta málið á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.

g) Í lið 10, Sandvík, Hauganesi - Umsagnarbeiðni vegna breytingar á Aðalskipulagi (2503050)
Dalvíkurbyggð óskar umsagnar Hörgársveitar um skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi. Skipulags- og matslýsing unnin af Nordic Office og Arcitecture, 7. mars 2025 fylgir erindinu.
Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við skipulagslýsinguna.

h) Í lið 11, Hagabyggð áfangi 3, framkvæmdaleyfi (2502002)
Fyrir liggur umsókn um framkvæmdaleyfi varðandi framkvæmdir við áfanga 3 í Hagabyggð.
Sveitarstjórn samþykkti að skipulags- og byggingarfulltrúa verði heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir ákveðnum verkþáttum þegar öll fullnægjandi gögn þeirra vegna liggja fyrir, sem og undirritaður samstarfssamningur milli Hörgársveitar og GLB17 ehf. um uppbyggingu 3. áfanga í Hagabyggð.

i) Í lið 12, stofnun lóðar úr landi Garðshorns
Umsókn um stofnun 10 ha lóðar úr landi Garðshorns L152487.
Sveitarstjórn samþykkti stofnun lóðarinnar enda verði tryggð kvöð um aðkomurétt að lóðinni og veitum. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að kalla eftir merkjalýsingu og fullnusta málið á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.

j) Í lið 13, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku
Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í óskiptu landi Ytri-Bægisár 1, Ytri-Bægisár 2 og Garðshorns á Þelamörk.
Afgreiðslu frestað þar til frekari gögn liggja fyrir.

k) Í lið 14, umsókn um framlengingu á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku
Fyrir liggur umsókn frá GLB17 ehf um framlengingu á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Glæsibæjar.
Sveitarstjórn samþykkti að skipulags- og byggingarfulltrúa verði heimilt að gefa út framlengingu á framkvæmdaleyfi til loka árs 2029 þegar öll fullnægjandi gögn liggja fyrir.

3. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 89. fundi
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð stjórnar SSNE frá 71. fundi
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga frá 972. fundi
Fundargerðin lögð fram.

6. Aðalfundur Norðurorku
Lögð fram boðun á aðalfund Norðurorku hf. 9. apríl 2025.
Sveitarstjórn samþykkti að Jónas Þór Jónasson fari með umboð Hörgársveitar á fundinum.

7. Gallup – bréf vegna sveitarfélag ársins
Lagt fram.

8. Fiskistofa, bréf varðandi netaveiði í sjó í Eyjafirði
Lögð fram bréf frá Fiskistofu vegna þriggja jarða í eigu Hörgársveitar og fjallar um tillögu Hafrannsóknarstofunar um að netaveiði göngusilungs í sjó í Eyjafirði verði bönnuð í 5 ár.
Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við áform Fiskistofu.

9. Samningur og afsal vegna hringtorgs
Lögð fram drög að samningi (og afsali) Vegagerðarinnar og Hörgársveitar, sem landeiganda, vegna framkvæmda við hringtorg á Hringvegi við Lónsveg í landi Berghóls II.
Sveitarstjórn samþykkti samninginn og afsalið.

10. Samningur um uppbyggingu 3. áfanga í Hagabyggð
Ólafur Rúnar Ólafsson, lögmaður sveitarfélagsins mætti á fundinn og kynnti drög að samningi.
Sveitarstjórn samþykkti að fela oddvita og sveitarstjóra að ganga frá samningi við GLB17 ehf. á grundvelli þeirra draga sem lögð voru fram á fundinum. Undirritaður samningur komi til afgreiðslu sveitarstjórnar þegar hann liggur fyrir.

11. Viðauki 1, 2025
Lögð fram tillaga að viðauka 01 við fjárhagsáætlun 2025.
Sveitarstjórn samþykkti viðauka 01 við fjárhagsáætlun ársins 2025 sem gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins verði jákvæð sem nemur 33.842 þús.kr. og handbært fé í árslok verði 56.404 þús.kr.

12. Lánasjóður sveitarfélaga, lánasamningur
Í samræmi við fjárhagsáætlun 2025 voru lögð fram drög að lánasamningi uppá 50 milljónir sem koma til útgreiðslu í mars 2025.
Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 50.000.000,- , með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér.
Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum við grunnskóla í sveitarfélaginu sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Snorra Finnlaugssyni, sveitarstjóra Hörgársveitar, kt. 210260-3829, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hörgársveitar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

13. Búland – umsókn um afmörkun lóðar ásamt byggingarreit
Fyrir fundinum liggur erindi frá landeigendum að Búlandi þar sem óskað er eftir heimild til stofnunar lóðar sem yrði Búland 3 og afmörkun á byggingarreit fyrir íbúðarhús á lóðinni. Lagður fram uppdráttur um afmörkun lóðarinnar í landi Búlands L152305, frá Hákoni Jenssyni á Búgarði.
Sveitarstjórn samþykkti stofnun lóðar ásamt byggingarreit samkvæmt framlögðum uppdrætti og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að fullnusta stofnun lóðarinnar með afgreiðslu merkja-lýsingar á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.

14. SSNE – erindi vegna svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi
Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið tilnefni tengilið vegna þeirrar vinnu sem framundan er við áætlunina.
Sveitarstjórn samþykkti að tilnefna Kolbrúnu Lind Malmquist verkefnastjóra sem tengilið Hörgársveitar.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 12:20