Sveitarstjórn fundur nr.178

23.01.2025 08:30

Sveitarstjórn Hörgársveitar 178. fundur

Fimmtudaginn 23. janúar 2025 kl. 08:30 kom sveitarstjórn Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla .
Fundarmenn: Axel Grettisson oddviti, Jón Þór Benediktsson, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Jónas Þór Jónasson
Fundarritari: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri
Þetta gerðist:

1. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 21.01.2025
Fundargerðin er í 6 liðum og þarfnast 5 liðir afgreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, Lækjarvellir, breyting á deiliskipulagi og úthlutun lóða (2501004)
Fyrir fundinum liggja hugmyndir um að skipta lóðinni Lækjarvöllum 21 upp í tvær lóðir 21 og 21a líkt og kemur fram í fram lagðri skýringarmynd. Einnig lagt fram minnisblað sveitarstjóra m.a. varðandi úthlutun lóða við Lækjarvelli en þrír aðilar hafa sýnt áhuga á úthlutun eftir auglýsingu.
Sveitarstjórn samþykkti óverulega breytingu á deiliskipulagi Lækjarvalla þar sem lóðinni nr. 21 er skipt upp í tvær lóðir nr. 21 og 21a í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt. Þar sem málið varðar ekki aðra en sveitarfélagið er fallið frá grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta breytinguna. Í framhaldinu verði lóðirnar auglýstar til úthlutunar.
Þá samþykkti sveitarstjórn eftirfarandi varðandi úthlutun lóða:

a) Gengið verði til samninga við Lækjarvelli 22 ehf, (Atli Gunnarsson) um að hann falli mögulega frá lóðinni nr. 22 og fái í staðinn lóðina nr. 19.
b) Gengið verði til samninga við Vökvaþjónustu Kópaskers ehf um úthlutun lóðarinnar nr. 20, með hugsanlegri sameiningu við lóðina nr. 18.
c) Ef fallið verði frá samningi um lóð nr. 22 (samkv. a lið), verði gengið til samninga við Byggingarfélagið A-plús ehf um úthlutun lóðarinnar nr. 22
Sveitarstjórn ítrekar þá samþykkt sína að skilyrt er að byggt verði hús á lóðunum og skal það vera að lágmarki 50% af heimiluðu byggingarmagni. Sveitarstjórn samþykkti einnig að sett verði það skilyrði að innan 18 mánaða frá undirritun lóðarleigusamnings verði byggingar-framkvæmdir komnar á byggingastig B2.

b) Í lið 2, Skútar L152537 - umsókn um framkvæmdaleyfi - mön við þjóðveg (2501001)
Fyrir fundinum liggur umsókn frá Skútabergi ehf. þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna manar meðfram þjóðvegi 1. Meðfylgjandi er deiliskipulag á því svæði sem um ræðir ásamt uppdrætti af framkvæmdasvæðinu.
Sveitarstjórn samþykkt umsóknina að því gefnu að umsögn Vegagerðarinnar liggi fyrir og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi. Bent er á að framkvæmdin sé unnin í samráði við Vegagerðina vegna nálægðar við veghelgunarsvæði og frágang á milli þjóðvegar og manar.

c) Í lið 3, Hringvegur (1) hringtorg við Lónsveg - framkvæmdaleyfi (2501006)
Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi til Hörgársveitar skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin felur í sér byggingu hringtorgs á gatnamótum Hringvegar (1) og Lónsvegar (8298) í Hörgarsveit og Akureyrarbæ. Meðfylgjandi er umsókn ásamt uppdráttum af framkvæmdasvæðinu.
Sveitarstjórn samþykkti umsóknina og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi innan sveitarfélagsmarka Hörgársveitar.

d) Í lið 4, Fagranes L2157606 - Umsókn um leyfi til stækkunar á áður samþykktu svæði til skógræktar (2411010)
Fyrir fundinum liggur erindi að nýju frá Henri Middeldorp, f.h. ITF Reforestation ehf. eiganda Fagraness. Leiðrétt erindi barst, þar sem kemur fram að óskað er eftir stækkun á því framkvæmdasvæði sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 29. apríl 2021. Stækkunin er svæði sem nemur 92,1ha. Meðfylgjandi er kort gert af „B.D“, sem sýnir breytt framkvæmdasvæði.
Sveitarstjórn samþykkti, að þar sem heildarmagn skógræktar í Fagranesi og nágrenni er komið umfram viðmið varðandi umhverfismat, er skipulagsfulltrúa falið að óska eftir umsögn Skipulagsstofnunar varðandi umfang skógræktar á svæðinu.

e) Í lið 5, breyting á Aðalskipulagi Akureyrarbæjar vegna Blöndulínu 3 – umsagnarbeiðni (2404003)
Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnir hér með drög að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin tekur til svæða sem merkt eru ÓB, ÍÞ7 og SL7 í aðalskipulagi og felst meðal annars í að felldir eru út skilmálar í greinargerð um iðnaðarsvæði I16 fyrir tengivirki í landi Kífsár.
Kafla 2.1.27 Veitur, sem fjallar um Blöndulínu 3, er breytt á þann veg að Blöndulína 3 tengist Rangárvöllum sem loftlína. Þegar tæknilegar forsendur hafa skapast til að breyta loftlínu í jarðstreng næst Akureyri er gert ráð fyrir að línan sé lögð í jörðu að hluta leiðarinnar. Öryggis- og athafnarsvæði 220kV jarðstrengs með tvö strengsett er um 20 m breytt og felur í sér byggingarbann og takmarkanir á röskun lands nema í samráði við Landsnet. Aðgengi til viðgerða á strengnum þarf að vera tryggt og takmarkanir eru á plöntun trjágróðurs. Gert er ráð fyrir niðurrifi Rangárvallarlínu 2 þremur árum eftir að Blöndulína 3 kemst í rekstur.
Sveitarstjórn samþykkti að gera ekki athugasemd við tillögu að aðalskipulagsbreytingu er varðar Blöndulínu 3, en bendir á misræmi sem verður á sveitarfélagamörkum þar sem í greinargerð með gildandi aðalskipulagi Hörgársveitar er enn gert ráð fyrir jarðstreng.

2.Fundargerð fræðslunefndar frá 22.01.2025
Einn liður var á dagskrá fundarins og þarfnast hann afreiðslu sveitarstjórnar.

a) Í lið 1, ráðning skólastjóra Þelamerkurskóla til afleysinga skólaárið 2025-2026.
Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir mun verða í veikindaleyfi sem skólastjóri Þelamerkurskóla til loka þessa skólaárs. Hún sótti um nýtt námsleyfi veturinn 2025-2026 og fékk úthlutun úr námsleyfasjóði.
Sveitarstjórn samþykkti tillögu fræðslunefndar um að Anna Rósa Friðriksdóttir verði ráðin skólastjóri Þelamerkurskóla til afleysinga til 31.júlí 2026.

3. Fundargerð afgreiðslufundar SBE frá 85. fundi
Fundargerðin lögð fram.

4. Húsnæðisáætlun Hörgársveitar 2025
Lögð fram tillaga að húsnæðisáætlun til umræðu og afgreiðslu, en tillagan hefur verið yfirfarin af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Sveitarstjórn samþykkti húsnæðisáætlunina eins og hún liggur fyrir.

5. Norðurorka, vatns- og fráveitumál á Hjalteyri og Lækjarvöllum
Í kjölfar upphafs viðræðna við Norðurorku voru lögð fram samningsdrög um þjónustu og þóknun KPMG vegna verðmats á vatns- og fráveitu að Hjalteyri auk fráveitu að Lækjarvöllum.
Sveitarstjórn samþykkti samninginn.

6. Númerslausir bílar í sveitarfélaginu
Umræður og tillögur um fyrirkomulag á hirðingu og sektum.
Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra í samráði við forstöðumann þjónustumiðstöðvar og heilbrigðisfulltrúa að leggja fyrir sveitarstjórn tillögur að fyrirkomulagi á hirðingu og sektum er varðar númerslausa bíla og fleira, til að stuðla að bættri umgengni og almennri snyrtimennsku í sveitarfélaginu.

7. Erindi frá Greiðri leið ehf., hlutafjáraukning
Lagt fram erindi varðandi hlutafjáraukningu
Sveitarstjórn samþykkti að taka þátt í hlutafjáraukningunni að sínum hluta sem nemur kr. 20.036,-.

8. Gáseyri, úrskurður vegna synjunar á leyfi til efnistöku og bréf v. deiliskipulags
Lagður fram úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála dags. 17.1.2025 í máli nr. 148/2024 er varðar synjun á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri. Nefndin hafnaði kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 13. júní 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr sjó við Gáseyri í Hörgársveit. Þá var lagt fram bréf til sveitarstjórnar frá Gáseyrin ehf dags. 20.01.2025 með beiðni um endurskoðun á deiliskipulagi vegna ólögmætrar skerðingar á eignarétti.
Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa að yfirfara skipulagsáætlun þá sem bréfið beinist að í samstarfi við lögmann sveitarfélagsins og efni bréfsins að öðru leyti.

9. Jónasarlundur, skipan í stjórn
Sveitarstjórn samþykkti að skipa Þorstein Rútsson, Sigurð Björgvin Gíslason og Fanney Lind Hauksdóttur í stjórn Jónasarlundar.
Ásrún Árnadóttir vék af fundi undir þessum lið.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 10:10