Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 9

01.02.2012 20:00

Miðvikudaginn 1. febrúar 2012 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Yfirlit yfir rekstur skipulagsmála og umhverfismála á árinu 2011

Lagt fram yfirlit yfir rekstur hreinlætismála, skipulags- og byggingamála og umhverfismála á árinu 2011.

 

2. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, umræða

Lagðir fram og ræddir minnispunktar skipulagsráðgjafa frá íbúafundi um aðalskipulagsgerð fyrir sveitarfélagið sem haldinn var í Hlíðarbæ 25. janúar 2012. Fundinn sóttu um 35 manns. Þá var rætt um að óska eftir formlegu samstarfi við Akureyrarbæ um skipulagsmál.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að vísa minnispunktum um gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið til úrvinnslu hjá skipulagsráðgjafa. Ennfremur samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn að óskað verði eftir formlegu samstarfi við Akureyrarbæ um sameiginleg skipulagsmál sveitarfélaganna.

 

3. Gjaldskrá fyrir skipulagsvinnu og framkvæmdaleyfi

Lögð fram tillaga að gjaldskrá að fyrir skipulagsvinnu og framkvæmdaleyfi á grundvelli 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 14. desember 2011. Tillagan er byggð á fyrirmynd að slíkri gjaldskrá sem gerð hefur verið af Sambandi ísl. sveitarfélaga, sbr. bréf þess dags. 1. júní 2011.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að gjaldskrá fyrir skipulagsvinnu og framkvæmdaleyfi verði afgreidd til gildistöku.

 

4. Spónsgerði, framkvæmdaleyfi

Tekið fyrir að nýju bréf, dags. 27. október 2011, frá HGH verki ehf. þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Spónsgerðis í Hörgárdal, sem nemur alls um 50.000 m3. Á fundi nefndarinnar 12. desember 2011 samþykkti hún að fresta afgreiðslu umsóknarinnar og óska eftir frekari gögnum um málið, sem hafa nú borist. Fyrir lágu eftirfarandi gögn: lýsing framkvæmdarinnar, yfirlitsuppdráttur/afstöðuuppdráttur, heimild landeiganda, áætlun um efnistökuna, álit Skipulagsstofnunar um að efnistakan sé ekki háð umhverfismati.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Spónsgerðis með gildistíma til 1. október 2017, sbr. fyrirliggjandi umsókn, og að óskað verði eftir því við Umhverfisstofnun að hún krefjist tryggingar vegna frágangs svæðisins, sbr. 48. gr. laga um náttúruvernd.

 

5. Vaglir, framkvæmdaleyfi

Lagt fram bréf, dags. 13. desember 2011, frá Skógrækt ríkisins þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir nýrri aðkomuleið og vegagerð að/í skóglendinu að Vöglum á Þelamörk. Fyrir lágu eftirfarandi gögn: lýsing framkvæmdarinnar, yfirlitsuppdráttur/afstöðuuppdráttur, áætlun um framkvæmdina.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir nýrri aðkomuleið og vegagerð að/í skóglendinu að Vöglum, sbr. fyrirliggjandi umsókn, að fengnu samþykki Vegagerðarinnar fyrir tengingu við stofnveg.

 

6. Björg II, efnistaka, tillaga að matsáætlun

Lagt fram bréf, dags. 24. janúar 2012, frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir að veitt verði umsögn um tillögu að matsáætlun fyrir efnistöku á Björgum II, sbr. 8. gr. laga nr. 106/2000, sem fylgdi með bréfinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd af hálfu Hörgársveitar við fyrirliggjandi tillögu að matsáætlun fyrir efnistöku á Björgum II.

 

7. Yfirlit yfir störf náttúruverndarnefndar

Lögð fram drög að yfirliti yfir þau störf skipulags- og umhverfisnefndar sem snúa að hlutverki hennar sem náttúruverndarnefndar, sbr. 11. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fyrirliggjandi yfirlit um störf hennar sem náttúruverndarnefndar, með þeim breytingum á þeim sem gerðar voru á fundinum, verði send Umhverfisstofnun.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:50.