Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 68

25.01.2021 16:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

68. fundur

Fundargerð

Mánudaginn 25. janúar 2021 kl. 16:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í húsnæði félagsmiðstöðvar í heimavist Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir, Agnar Þór Magnússon, Ásgeir Már Andrésson (í fjarfundi) og Jónas Þór Jónasson (vm) í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar (í fjarfundi) og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Umhverfisstefna Hörgársveitar

Unnið að gerð umhverfisstefnu sveitarfélagsins. Á fundinn mætti Sif Jóhannesdóttir verkefnisstjóri og fór yfir verkáætlun með nefndinni ásamt flokkun á viðfangsefnum.

2. Hjalteyri, deiliskipulag

Rætt um breytingar á deiliskipulagi á Hjalteyri sem skipulagshönnuður hefur unnið að.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gerð verði eftirtaldar breytingar á deiliskipulagi Hjalteyrar: Einni einbýlishúsalóð verði bætt við austan við lóð sem í gildandi deiliskipulagi er auðkennd Búðagata 6 og vegamótum Búðagötu verði hliðrað þannig að þau verði milli Péturshúss og lóðar sem í gildandi deiliskipulagi er auðkennd Búðagata 2. Lóðirnar fjórar sem eru austan við hliðraða vegtengingu Búðagötu hljóti framvegis staðvísinn „Hjalteyrarbraut“ í stað „Búðagata“. Gert verði ráð fyrir göngustíg í framhaldi af Búðagötu sunnan við fyrrgreindar fjórar lóðir. Byggingarreitum lóða sem standa gengt kaffihúsi verði staðsettir þannig að sjónarás frá kaffihúsi út á haf verði sambærilegur því sem ráðgert er í gildandi deiliskipulagi. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ofangreindar breytingar á deiliskipulagi verði samþykktar skv. 2. mgr. 43. gr. skiplagslaga nr. 123/2010 og að breytingarnar verði grenndarkynntar skv. 44. gr. sömu laga. Heimilt verði að stytta grenndarkynningatímabil skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga og ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabili teljist deiliskipulagsbreytingin samþykkt.

3. Lóðir við Reynihlíð og Víðihlíð

Formaður fór yfir þær viðræður sem fram hafa farið með þremur aðilum sem lýst hafa yfir áhuga á að fá lóðir til bygginga á svæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn í samræmi við gr. 3.4 í reglum um lóðaúthlutanir að gerðir verði samningar við eftirtalda aðila um uppbyggingu eftirtaldra lóða:

a)    Reynihlíð 17 og 19 við Bögg ehf. - Jón Örvar Eiríksson húsasmíðameistara

b)    Reynihlíð 21 og 23 ásamt Víðihlíð 1 og 3 við Hamra byggingarfélag ehf - Helga Snorrason húsasmíðameistara

c)    Víðihlíð 5 og 7 við A plús ehf - Reynir Örn Hannesson húsasmíðameistara

Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri vék af fundi undir þessum lið.

4. Lónsbakki, deiliskipulag

Umræður um breytingu á deiliskipulagi við Reynihlíð og hugmyndir um áframhaldandi skipulag á svæðinu.

Fyrir fundinum liggja drög að teikningum að fimm íbúða raðhúsum alls 612 fm á lóðunum Reynihlíð 17 og 19, þar sem gert er ráð fyrir fjögurra íbúða raðhúsum allt að 600 fm í gildandi deiliskipulagi.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að gerð verði breyting á deiliskipulagi Lónsbakkahverfis á þann hátt að heimilt verði að byggja fimm íbúða raðhús allt að 620 fm á lóðunum Reynihlíð 17 og 19.

Ennfremur verði heimilað að einnar hæðar raðhús rísi á lóðunum Reynihlíð 21 og 23 þar sem gert er ráð fyrir tveggja íbúða raðhúsum í gildandi deiliskipulagi.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ofangreindar breytingar verði samþykktar á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og að fallið verði frá grenndarkynningu á grundvelli 3. mgr. 44. gr. sömu laga.

 Þá samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að skoðaðar verði með skipulagshöfundi hugmyndir að frekari byggð í þéttbýlinu við Lónsbakka.

5. Lækjarvellir, deiliskipulag

Umræður um deiliskipulag og lóðir.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að lóðir við Lækjarvelli 2 a og b verði auglýstar til úthlutunar.

Þá samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að skoðaðar verði með skipulagshöfundi hugmyndir að breytingu á deiliskipulagi Lækjarvalla.

6. Engimýri, deiliskipulag

Kynning á deiliskipulagstillögu á vinnslustigi vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Engimýri 3 fór fram í desember sl. og bárust engin erindi á kynningartímabilinu. Fyrir fundinum liggur fullunnin deiliskipulagstillaga sem tekur til byggingar sex smáhýsa fyrir ferðaþjónustu til viðbótar við gistiheimili sem fyrir er á landeigninni. Skipulagstillagan er unnin af Þorgeiri Jónssyni arkitekt, uppdráttur nr. 99-00.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkt verði að vísa skipulagstillögu í lögformlegt auglýsingarferli skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7. Akureyrarbær ASK – Holtahverfi tillaga

Lögð fram tillaga til kynningar.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagstillöguna.

8. Akureyrarbær ASK – Oddeyri tillaga

Lögð fram tillaga til kynningar.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagstillöguna.

9. Akureyrarbær stígakerfi – svar við umsögn

Lagt fram svar við umsögn Hörgársveitar frá 66. fundi nefndarinnar.

10. Ægisgarður Hjalteyri – umsókn um byggingarreit

Lögð fram umsókn frá Sigríði Seit þar sem sótt er um heimild fyrir 6,5 m2 byggingareit fyrir viðbyggingu við suðurhluta Ægisgarðs á Hjalteyri.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta tímabil grenndarkynningar skv. 3. mgr. sömu lagagreinar og að erindið teljist samþykkt ef ekki berast andmæli á grenndarkynningartímabili.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19:02