Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 7

11.10.2011 20:00

Þriðjudaginn 11. október 2011 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Helgi Þór Helgason, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Laugaland, deiliskipulag skólasvæðis

Tillaga að deiliskipulagi skólasvæðis, íþróttasvæðis og sundlaugar á Laugalandi var auglýst 24. ágúst 2011, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2011 og ákvörðun sveitarstjórnar 17. ágúst 2011. Athugasemdafrestur rann út 5. október 2011. Þrjú erindi bárust í kjölfar auglýsingarinnar, frá minjaverði Norðurlands eystra, frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og frá Vegagerðinni. Í bréfi minjavarðar segir að fornleifarannsóknir þurfi að fara fram áður en framkvæmt er skv. deiliskipulaginu, eða að öðrum kosti þurfi að breyta skipulagstillögunni. Í bréfi Vegagerðarinnar er gerð grein fyrir því að Vegagerðin gerir ekki ráð fyrir færslu Hringvegarins eins og skipulagstillagan kveður á um. Í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins segir að ekki verði annað séð en að breytingar skv. tillögunni auki umferðaröryggi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu málsins og afla frekari gagna um það.

 

2. Garðshorn, Þelamörk, deiliskipulag vegna frístundahúss

Tillaga að deiliskipulagi vegna frístundahúss á landspildu í landi Garðshorns á Þelamörk var auglýst 24. ágúst 2011, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2011 og ákvörðun sveitarstjórnar 17. ágúst 2011. Athugasemdafrestur rann út 5. október 2011. Engin athugasemd barst.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.

 

3. Syðri-Reistará, deiliskipulag vegna íbúðarhúss

Tillaga að deiliskipulagi vegna byggingar íbúðarhúss í landi Syðri-Reistarár var auglýst 24. ágúst 2011, sbr. tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2011 og ákvörðun sveitarstjórnar 17. ágúst 2011. Athugasemdafrestur rann út 5. október 2011. Engin athugasemd barst.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.

 

4. Gloppa, deiliskipulag vegna frístundahúss

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna frístundahúss í landi Gloppu. Lýsing á skipulagsverkefninu hefur verið kynnt, sbr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna frístundahúss í landi Gloppu verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 

5. Öxnadalur, rofvarnir, framkvæmdaleyfi

Lagt fram til bréf, dags. 5. október 2011, frá Vegagerðinni þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir öryggisaðgerðum á Hringvegi í Öxnadal, þ.e. rofvörnum og vegriði. Bréfinu fylgja uppdrættir og kennisnið fyrirhugaðra framkvæmda.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir umbeðnum öryggisaðgerðum við Hringveginn í Öxnadal þegar fyrir liggur samkomulag um málið við alla viðkomandi landeigendur beggja vegna árinnar.

 

6. Svæðisskipulag Eyjafjarðar, lýsing

Lagt fram bréf, ódags., frá samvinnunefnd um svæðisskipulag Eyjafjarðar, þar sem óskað er eftir að sveitarstjórn samþykki fyrir sitt leyti lýsingu á skipulagsverkefninu „Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2023”. Lýsingin og helstu forsendur hennar voru lagðar fram á fundinum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi lýsing á skipulagsverkefninu „Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2023“ verði samþykkt af hálfu Hörgársveitar.

 

7. Um gerð aðalskipulags

Lagt fram yfirlit yfir þá átján aðila sem lýst hafa yfir áhuga á að taka að sér gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið, sbr. samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2011.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samið verði við Landmótun sf. um gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið.

 

8. Fjárhagsrammi skipulags- og umhverfisnefndar 2012

Lagt fram bréf, dags. 23. september 2011, frá sveitarstjórn þar sem gerð er grein fyrir því að fjárhagsrammi skipulags- og umhverfisnefndar, sbr. 9. gr. erindisbréfs hennar, vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2012 er 14 millj. kr. Farið var yfir þau viðfangsefni sm heyra undir nefndina og lögð drög að áætlun um heildarfjárhæð fyrir hvert þeirra.

 

9. Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2012-2023

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 26. september 2011, frá umhverfisráðuneytinu þar sem gerð er grein fyrir því að hafinn er undirbúningur að útgáfu landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs.

 

10. Umhverfismat á tillögu að samgönguáætlun 2011-2022, auglýsing

Lagt fram til kynningar tölvubréf, dags. 23. september 2011, frá innanríkisráðuneytinu með auglýsingu um umhverfismat á tillögu að samgönguáætlun 2011-2022.

 

11. Umhverfisþing 2011

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 9. september 2011, frá umhverfisráðuneytinu þar sem boðað er til umhverfisþings sem verður 14. október 2011.

 

12. Förgun dýrahræa

Rætt um möguleika á að jarðgera dýrahræ í jarðgerðarstöð Moltu ehf.

Skipulags- og umhverfisnefnd  leggur til að kannaður verði kostnaður við að koma upp nauðsynlegum búnaði til að jarðgera dýrahræ í jarðgerðarstöðinni.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 23:10.