Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 1
Miðvikudaginn 6. september 2006 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggð-ar saman til fundar í Þelamerkurskóla.
Sveitarstjórn Hörgárbyggðar kaus á fundi sínum 21. júní 2006 eftirtalda í skipulags- og umhverfisnefnd fyrir kjörtímabilið 2006-2010.
Aðalmenn: Varamenn:
Oddur Gunnarsson, formaður 1. Jóhanna María Oddsdóttir
Aðalheiður Eiríksdóttir 2. Guðmundur Víkingsson
Birna Jóhannesdóttir 3. Klængur Stefánsson
Allir aðalmenn voru mættir á fundinn ásamt Guðmundi Sigvaldasyni, sveitarstjóra.
Þetta gerðist:
1. Gáseyri, deiliskipulag
Lagðar fram umsagnir frá eftirtöldum þremur aðilum um drög að deiliskipulagi Gáseyrar. Skipulagshöfundur er Einar E. Sæmundsen, hjá Landmótun, Kópavogi.
· Umhverfisstofnun “fagnar þeirri metnaðarfullu tillögu sem hér er lögð fram þar sem ferðamönnum og heimamönnum er gefinn kostur á að kynnast náttúru og sögu svæðisins” og að mati stofnunarinnar mun fyrirhugað deiliskipulag ekki skerða verndargildi svæðisins. Stofnunin bendir þó á að fyrirhuguð girðing, sem nær niður í sjó í Gásavík, verður að hafa hlið eða göngustiga, þar sem skv. lögum er óheimilt að setja girðinga á sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna.
· Minjavörður Norðurlands eystra gerir ekki athugasemdir við deiliskipulagstillöguna, en leggur áherslu á að fullt samráð verði haft við Fornleifavernd ríkisins við stíga- og skiltagerð á svæðinu.
· G. Björk Pétursdóttir og Friðrik Gylfi Traustason, eigendur landsins sem skipulagstillagan nær yfir, gera tvær athugasemdir við deiliskipulagstillöguna, annars vegar að ekki komi til greina að loka núverandi vegi niður á Gáseyrina, vegna sandflutninga sem þar eiga sér stað, og hins vegar að svæði fyrir tilgátuhús nái of langt í norður og þar með inn á athafnasvæði sandnáms.
Ennfremur var lagt fram svar skipulagshöfundarins við síðastnefndu umsögninni. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að nýr vegur muni verða ákjósanlegri kostur fyrir efnisflutninga “þegar fram sækti” en sá gamli og að reynt hafi verið að hafa aðkomuleið út á eyrina rúma og greiðfæra.
Á fundinum kom fram eindregin ósk landeigenda að á skipulagstillögunni verði gert ráð fyrir vegi frá bílastæði við tilgátusvæði að sandnámi.
Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Skipulags- og umhverfisnefnd felst á framkomnar athugasemdir landeigenda, bæði þær sem koma fram í innsendri umsögn og þá sem fram kom á fundinum um veginn að sandnáminu.
2. Aðalskipulag
Landmótun, Kópavogi, vinnur að aðalskipulagi sveitarfélagsins 2006-2026. Lögð fram endurskoðuð verk- og tímaáætlun fyrir verkefnið, dags. 21. ágúst 2006, frá Landmótun.
Miklar umræður urðu um hvar í sveitarfélaginu helst eigi að gera ráð fyrir þéttbýli.
Frestað var að taka ákvarðanir í málinu til næsta fundar, sem skipulagshöfundurinn mun koma á. Gert er ráð fyrir að sá fundur verður sameiginlegur með sveitarstjórn.
3. Hraun, fólkvangur
Lögð fram bókun sveitarstjórnar Hörgárbyggðar frá 5. september 2006 um beiðni Hrauns í Öxnadal ehf. um að sveitarstjórnin beiti sér fyrir því að fólkvangur verði stofnaður í landi Hrauns. Í bókuninni er málinu vísað til skipulags- og umhverfisnefndar til umfjöllunar við aðalskipulagsgerðina. Jafnframt er nefndinni falið að hefja undirbúning fyrir stofnun fólkvangsins.
Ákveðið að taka þetta mál með í yfirstandandi aðalskipulagsgerð, jafnframt að óska eftir upplýsingum frá landeiganda um mörk hins fyrirhugaða fólkvangs og hvað af landi Hrauns yrði undanskilið friðlýsingu.
Fleira ekki fært til bókar og fundi slitið kl. 21:50