Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 4
Mánudaginn 8. janúar 2007 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.
Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, formaður, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Gásir, fyrirspurn um skipulag
Á fundinn kom Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals ehf. sem er landeigandi á Gásum. Hann gerði grein yfir hugmyndum fyrirtækisins um skipulag á nýjum íbúðarhúsalóðum á Gásum. Að loknum umræðum um hugmyndirnar samþykkti nefndin að mæla með því við sveitarstjórn að rætt verði við Lífsval ehf. um útfærslu þeirra.
Nefndin leggur áherslu á náið samráð við höfund væntanlegs aðalskipulags sveitarfélagsins um málið.
2. Umsókn um verslunar- og þjónustulóð
Lagt fram bréf, dags. 2. janúar 2007, frá Vélaveri hf. í Reykjavík þar sem óskað er eftir úthlutun á lóð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi, sbr. 2. tl. fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar 8. nóv. 2006.
Að loknum umræðum um málið samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn að strax verði hafin gerð deiliskipulags fyrir verslunar- og þjónustulóðir á því svæði sem tilgreint er á samþykktu svæðisskipulagi sem athafnasvæði að svo miklu leyti sem skriflegt samþykki annarra viðkomandi landeigenda en sveitarfélagsins liggi fyrir áður en skipulagsvinna hefst.
3. Hraun, fólkvangur
Lagt fram tölvubréf, dags. 4. jan. 2007, frá Tryggva Gíslasyni, þar sem fram kemur lýsing á afmörkun væntanlegs fólksvangs að Hrauni í Öxnadal, sbr. 3. tl. fundargerðar skipulags- og umhverfisnefndar 6. sept. 2006. Þá var lögð fram hugmynd að reglum fyrir hinn væntanlega fólkvang. Á fundinum kom fram að gera þarf samning milli sveitarfélagsins, landeiganda og Umhverfisstofnunar um fólkvanginn.
Nefndin samþykkti fyrir sitt leyti að undirbúningur að stofnun fólkvangsins verði haldið áfram af sveitarstjórn og að undirbúningurinn miðist við að hann verði formlega stofnaður um miðjan júní næstkomandi.
4. Skógarhlíð 14, byggingarfrestur og breyttar teikningar
Lagt fram bréf, dags. 5. jan. 2007 frá Þresti Sigurðssyni þar sem hann f.h. AJ Byggis ehf. sækir um byggingarfrest á lóðinni Skógarhlíð 14 til 1. sept. nk., þar sem til standi að breyta núgildandi teikningum og nýtingu á lóðinni.
Nefndin samþykkti að veita umbeðinn byggingarfrest, breyttar útlitsteikningar skulu lagðar fyrir nefndina til afgreiðslu.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:30