Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 7

08.08.2007 20:00

Miðvikudaginn 8. ágúst 2007 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1. Samþykkt um gatnagerðargjald í Hörgárbyggð

Lögð fram drög að samþykkt um gatnagerðargjald í Hörgárbyggð. Þann 1. júlí 2007 tóku gildi ný lög um gatnagerðargjald og því er nauðsynlegt að auglýst verði ný samþykkt um þau fyrir sveitarfélagið. Drögin eru gerð í samræmi við fyrirmynd sem lögfræðisvið Sambands ísl. sveitarfélaga hefur gert.

Að loknum umæðum um drögin og gerðum nokkrum breytingum á þeim voru þau samþykkt til afgreiðslu hjá sveitarstjórn.

 

2. Lækjarvellir, deiliskipulag

Lagt fram bréf, dags. 5. júlí 2007, frá Skipulagsstofnun, þar sem óskað er eftir að gerðar verði þrjár breytingar á deiliskipulagsuppdrætti vegna Lækjarvalla, áður en gildistaka hans verður auglýst. Umbeðnar breytingar snúa að formsatriðum, en ekki að efnislegu innihaldi skipulagsins. Fram kom á fundinum að skipulagshöfundur mun lagfæra uppdráttinn skv. óskum stofnunarinnar og að hann verði síðan lagður fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

 

3. Skógarhlíð 14, viðbótarbyggingarfrestur

Lagt fram bréf, dags. 9. júlí 2007, frá Þresti Sigurðssyni hjá Opus ehf., f.h. AJ Byggis ehf., þar sem óskað er eftir teikni- og framkvæmdafresti á lóðinni Skógarhlíð 14 til 15. nóvember 2007.

Á fundi nefndarinnar 8. janúar 2007 var veittur byggingarfrestur á lóðinni til 1. september 2007.

Nefndin samþykkti fyrir sitt leyti að veita umbeðinn byggingarfrest.

 

4. RARIK, staðsetning spennistöðvar

Rætt um beiðni RARIK til að byggja nýja spennistöð fyrir Skógarhlíðarhverfið við Skógarhlíð, í staðinn spennistöðina sem nú er skammt frá lóð Þórs hf. Grenndarkynning á málinu hefur farið fram og komu fram mótmæli og undirskriftalisti gegn hinni nýju staðsetningu.

Nefndin leggur til að skoðaðir verði fleiri möguleikar á staðsetningu fyrir spennistöðina, t.d. í grennd við rotþró hverfisins.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:30.