Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 10
Fimmtudaginn 14. febrúar 2008 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla. Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Nafngift á þéttbýlinu í Hörgárbyggð Rætt um nafngift á þéttbýlinu í Hörgárbyggð. Heitið Skógarhlíðarhverfi er oftast notað um íbúðabyggðina og Lónsbakki er yfirleitt notað fyrir þann hluta þar sem fyrirtækin eru staðsett. Formleg ákvörðun um heitið mun ekki liggja fyrir og borið hefur á ruglingi um hvað svæðið í heild heitir. Samþykkt var að leggja til við sveitarstjórn að þéttbýli sveitarfélagins fái heitið Lónsbakki.
2. Aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026, tillaga að greinargerð og uppdrætti Rætt um fyrirliggjandi ný drög að greinargerð aðalskipulags Hörgárbyggðar 2006-2026, dags. í febr. 2008. Gerðar voru nokkrar leiðréttingar á drögunum. Þá leggur nefndin til að svæðið í kringum Vindheimajökul verði skilgreint sem útivistar- og skíðasvæði. Skipulags- og umhverfisnefndin samþykkir fyrir sitt leyti að aðalskipulagstillagan fari í kynningu skv. 17. gr. skipulagslaga.
3. Moldhaugar, skáli i fornum stíl Lagt fram bréf frá Skúla Þór Bragasyni, þar sem óskað eftir leyfi fyrir staðsetningu á skála í fornum stíl í landi Moldhauga. Fram kemur í bréfinu að leyfi Þrastar Þorsteinssonar liggur fyrir, en formleg staðfesting á því hefur ekki borist. Nefndin leggst ekki gegn hugmyndinni, en telur að afstöðumynd með formlegu samþykki landeigenda og leyfi fyrir vegtengingu verði að liggja fyrir áður en málið er endanlega afgreitt.
4. Öxnadalsárbrú, afmörkun landspildu Lögð fram drög að uppdrætti um afmörkun u.þ.b. 1.000 m2 landspildu í kringum gömlu Öxnadalsárbrúna á móts við Varmavatnshóla. Afmörkunin er til komin vegna beiðni Arnar Inga um að afstaða sé tekin til þessarar hugsanlegu afmörkunar á landsspildu vegna hugmynda hans um að byggja hús á brúnni. Fyrir liggur að leyfi Vegagerðarinnar muni fást fyrir framkvæmdinni, ef til kemur, en ekki hefur verið leitað eftir leyfi viðkomandi landeigenda. Sveitarstjórn fjallaði um þetta mál á fundi sínum 18. apríl 2007. Í bókun hennar kemur fram að hún leggst ekki gegn því að það verði skoðað. Nefndin bendir á leyfi allra viðkomandi aðila verði að liggja fyrir áður en málið verði afgreitt. Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 22:00 |