Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 15
Miðvikudaginn 10. júní 2009 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.
Á fundinum voru: Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Guðmundur Víkingsson og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Moldhaugar, deiliskipulag vegna skála í fornum stíl
Tillaga að deiliskipulagi vegna skála í fornum stíl í landi Moldhauga var auglýst 22. apríl 2009, sbr. tillögu nefndarinnar 30. mars 2009 og ákvörðun sveitarstjórnar 20. apríl 2009. Athugasemdafrestur rann út 3. júní 2009. Ein athugasemd barst, frá Vegagerðinni um tengingu aðkomu að skálanum við Hringveginn. Fram kom á fundinum að fundur hefur verið haldinn með landeiganda og Vegagerðinni um vegtenginguna. Þar kom fram að þeir aðilar eru sammála slíkri breytingu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að athugasemd Vegagerðarinnar verði tekin til greina og að deiliskipulagstillögunni verði breytt þannig að sýnd verði ný heimreið að Moldhaugum sem tengi saman aðkomu að öllum húsum á jörðinni.
2. Neðri-Rauðilækur, deiliskipulag vegna íbúðarhúss
Tillaga að deiliskipulagi vegna nýs íbúðarhúss á Neðri-Rauðalæk var auglýst 22. apríl 2009, sbr. tillögu nefndarinnar 30. mars 2009 og ákvörðun sveitarstjórnar 20. apríl 2009. Athugasemdafrestur rann út 3. júní 2009. Engin athugasemd barst.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir.
3. Skjaldarvík, deiliskipulag vegna dælustöðvar
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi vegna dælustöðvar í landi Skjaldarvíkur. Tillagan er eftir Árna Ólafsson, arkitekt, og er dagsett 9. júní 2009.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að sótt verði um að gerð verði óveruleg breyting á greinargerð staðfests aðalskipulags Hörgárbyggðar 2006-2026, sbr. 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998, sem heimili að veitu- og fjarskiptamannvirki séu reist á grundvelli deiliskipulags, grenndarkynningar eða framkvæmdaleyfis. Nefndin samþykkti jafnframt að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna dælustöðvar í landi Skjaldarvíkur verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998 þegar framgreind breyting á aðalskipulagi hefur tekið gildi.
4. Skjaldarvík, fyrirspurn um gerð vöruhafnar
Lagt fram bréf, dags. 9. júní 2009, frá Þór Konráðssyni þar sem óskað er eftir að skoðað verði hvort möguleiki sé fyrir hendi að gera breytingu á aðalskipulagi Hörgárbyggðar sem heimili að hafnaraðstaða verði gerð norðan húsbygginga í landi Skjaldarvíkur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað á þessu stigi málsins.
5. Hörgárdalsvegur, breytt lega
Lagt fram bréf, dags. 3. júní 2009, frá Vegagerðinni þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir breyttri legu Hörgárdalsvegar frá fyrri umsókn á um 1 km kafla. Þann 8. sept. 2008 gaf Hörgárbyggð út framkvæmdaleyfi fyrir veginum miðað við legu hans sem þá var fyrirhuguð.
Einnig var lagt fram tölvubréf, dags. 5. júní 2009, frá Skipulagsstofnun þar sem m.a. kemur fram það mat stofnunarinnar að auglýsa beri breytingu á aðalskipulagi vegna hinnar fyrirhuguðu breytingar á legu vegarins.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að sótt verði um að gerð verði óveruleg breyting á staðfestu aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026, sbr. 2. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1998, þar sem gert verði ráð fyrir breyttri legu Hörgárdalsvegar sbr. bréf Vegagerðarinnar um málið.
6. Blómsturvellir-Skjaldarvík, reiðleið
Munnleg fyrirspurn hefur borist frá reiðveganefnd hestamannafélagsins Léttis um framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum á núverandi reiðleið meðfram ströndinni frá Blómsturvöllum að Skjaldarvík.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við að gefið verði út umbeðið framkvæmdaleyfi þar sem viðkomandi reiðleið er tilgreind á staðfestu aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026.
7. Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009-2013
Lagt fram bréf, dags. 8. júní 2009, frá umhverfisnefnd Alþingis, þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu til þingályktunar um náttúruverndaráætlun 2009-2013. Tillaga varðar ekki Hörgárbyggð með beinum hætti.
Lagt fram til kynningar.
8. Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð, endurskoðun
Rætt um endurskoðun Staðardagskrár 21 fyrir Hörgárbyggð sem staðfest var af sveitarstjórn 10. maí 2006.
Skipulags- og umhverfisnefnd ákvað að halda sérstakan fund um endurskoðunina næsta haust. Fyrir þann fund verði óskað eftir hugmyndum frá íbúum sveitarfélagsins um breytingar á gildandi Staðardagskrá.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:25.