Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 17

13.01.2010 20:00

Miðvikudaginn 13. janúar 2010 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.

Á fundinum voru: Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Guðmundur Víkingsson og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri.

 

Þetta gerðist:

 

1. Lónsbakki, deiliskipulag

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 10. nóvember 2009 að leggja til við sveitarstjórn að sem fyrst verði hafist handa við gerð deiliskipulags fyrir allt svæðið sem tilheyrir þéttbýli Lónsbakka. Sveitarstjórn samþykkti tillöguna á fundi sínum 18. nóvember 2009.

Á fundinn kom Árni Ólafsson, arkitekt, til viðræðna um verkefnið og um möguleika á að hann taki verkið að sér. Lagðir voru fram tveir uppdrættir sem sýna staðfest deiliskipulag á hluta þess svæðis sem um ræðir, þ.e. uppdráttur fyrir norðurhluta Skógarhlíðar sem staðfestur var 16. mars 1994 og uppdráttur fyrir Birkihlíð sem staðfestur var 2. október 2003.

Þá var lagt fram bréf, dags. 12. janúar 2010, frá Ásbirni Valgeirssyni, þar sem fram kemur að hann hyggst stækka gistirými á Lónsá og óskað er eftir að deiliskipulagsvinna vegna þess verði tekin með í fyrirhugaða deiliskipulagsvinnu vegna þéttbýlið á Lónsbakka í heild.

Niðurstaðan var að leggja til við sveitarstjórn að Árni taki að sér verkið. Einnig var ákveðið að leggja til að aðalsskipulagi við Lónsá verði breytt þannig að allt land Lónsár verði skilgreint verslunar- og þjónustusvæði.

 

2. Hlaðir, deiliskipulag vegna fjósviðbyggingar, afgreiðsla

Tillaga að deiliskipulagi vegna fjósviðbyggingar á Hlöðum var auglýst 26. nóvember 2009, sbr. tillögu nefndarinnar 10. nóvember 2009 og ákvörðun sveitarstjórnar 18. nóvember 2009. Athugasemdafrestur rann út 7. janúar 2010. Engin athugasemd barst.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt eins og hún liggur fyrir, þegar undanþága frá umhverfisráðuneytinu um fjarlægð frá vegi, sbr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð liggur fyrir.

 

3. Green Globe vottun Íslands

Lagt fram bréf, dags. 10. desember 2009, frá Náttúrustofu Vesturlands, þar sem gerð er grein fyrir hugmyndinni um umhverfisvottun Íslands.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur jákvætt að skoðað verði með þátttöku í þessu verkefni, verði hún almenn.

 

4. Staðardagskrá 21 fyrir Hörgárbyggð

Rætt um Staðardagskrár 21 fyrir Hörgárbyggð, sem staðfest var vorið 2006, í framhaldi af fundi nefndarinnar 10. nóvember 2009. Lagður fram yfir listi yfir verkefni Staðardagskrárinnar, sem eru alls 64 og hvernig stöðu þeirra er háttað. Þar kemur fram að 12 þeirra er lokið, vinna við 11 til viðbótar er hafin, en ekki lokið.

Nefndin leggur áherslu á að áfram verði unnið í anda Staðardagskrárinnar, eftir því sem tilefni eru til, s.s. við breytingar á aðalskipulagi.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:40.