Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 48
Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar
48. fundur
Fundargerð
Laugardaginn 28. október 2017 kl. 11:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir og Stefán Magnússon (vm) í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.
1. Deiliskipulag Lónsbakka
Skipulagshöfundur Árni Ólafsson mætti til fundar við nefndina.
Farið var yfir innkomnar umsagnir og athugasemdir og tillögur að svörum.
Níu umsagnir og athugasemdir bárust og leggur skipulags- og umhverfisnefnd til við sveitarstjórn að eftirfarandi svör vegna þeirra verði samþykkt:
1. Anton Sigþórsson, eigandi Berghóls B og Berghóls II
a) Sendandi telur að með lagningu vegar yfir lóð hans rýrni verðgildi fasteigna hans og að ókleift verði að nota þær.
b) Lagning götu innan lóðar Berghóls B er breyting á eldra deiliskipulagi.
Svar: Að teknu tilliti til framkominnar athugasemdar lóðarhafa við Lónsbakka 1 og 3 samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að leggja til við sveitarstjórn að fresta útfærslu á lóðum að Lónsbakka 1 og 3 og Berghóli B og Berghóli II í deiliskipulagi.
c) Sendandi er ekki tilgreindur í hópi aðila sem hafa þurfi náið samráð við vegna fyrirhugaðra vegtenginga og staðhæfir ennfremur að hann hafi ekki verið boðaður til samráðsfunda sem aðrir lóðhafar á svæðinu voru boðaðir til. Því hafi sveitarfélagið ekki rækt skyldu sína skv. skipulagslögum nr. 123/2010 um að hafa samráð við hann sem eiganda fasteignar.
Svar: Að teknu tilliti til athugasemda ályktar skipulags- og umhverfisnefnd að fullnægjandi samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila á vinnustigi deiliskipulagstillögunnar.
d) Sendandi telur að sveitarfélagið brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti sínum skv. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 33/1944 með að hafa ekki við hann samráð.
Svar: Að teknu tilliti til athugasemda ályktar skipulags- og umhverfisnefnd að samráð við hagsmunaaðila hafi verið í samræmi við skipulagslög og að ráðstöfun lóðar Berghóls B og Berhóls II brjóti ekki í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrár.
e) Sendandi telur að sveitarfélagið hafi brotið gegn meginreglu um rannsóknarskyldu stjórnvalds.
Svar: Að teknu tilliti til athugasemda ályktar skipulags- og umhverfisnefnd að samráð við hagsmunaaðila hafi verið í samræmi við skipulagslög og að ákvörðun um ráðstöfun lóðar Berghóls B og Berghóls II sé ítarlega rökstudd.
f) Sendandi telur að sveitarfélagið hafi brotið gegn skyldu sinnu um að veita hagsmunaaðilum rétt til andmæla skv. 10. gr., 13. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga 37/1993.
Svar: Að teknu tilliti til athugasemda ályktar skipulags- og umhverfisnefnd að sendanda hafi verið veitt lögboðið færi til að koma athugasemdum sínum á framfæri.
2. Jón Björgvinsson, Dvergasteini
a) Sendandi telur að núverandi hreinsivirki fráveitu við Lónsbakka sé hætt að virka og telur það óviðunandi stöðu. Hann fer þess á leit að ekki verði hafist handa við byggingu nýrra gatna fyrr en gengið hafi verið frá samkomulagi við Norðurorku um tengingu við fráveitu Akureyrarbæjar.
Svar: Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir með sendanda að æskilegt væri að tengja hverfið við fráveitukerfi Akureyrar og mun kappkosta að samningar um tenginguna náist, án þess þó að skilyrða uppbyggingu hverfisins við slíkan samning.
b) Sendandi fer fram á að deiliskipulag geri ráð fyrir fjórföldun þjóðvegar og að ekki verði þrengt að veginum með byggingarreit á Þórslóð eða með reit fyrir fráveitu.
Svar: Að teknu tilliti til athugasemda samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að halda vegsvæði þjóðvegar 1 óbreyttu, enda er í deiliskipulagstillögu nægt pláss til breikkunar þjóðvegarins.
3. Oddur Einarsson f.h. Þórs hf.
a) Sendandi telur að fyrirhuguð lokun aðkomu frá þjóðvegi 1 rýri mjög gildi lóða við Lónsbakka 1 og 3. Sendandi krefst þess að aðkoma að lóðunum verði áfram gengt aðkomu lóðar við Lónsbakka 2.
b) Sendandi telur að Lónsbakka 1 og 3 sé mismunað gagnvart Lónsabakka 2 með tilliti til bættrar aðkomu síðarnefndrar lóðar frá þjóðvegi 1. Sendandi gerir kröfu um að bætt aðkoma nái einnig til Lónsbakka 1 og 3.
Svar: Að teknu tilliti til framkominnar athugasemdar lóðarhafa að Lónsbakka 1 og 3 samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd leggja til við sveitarstjórn að fresta útfærslu á lóðum og aðkomu að Lónsbakka 1 og 3 og Berghóli B og Berghóli II í deiliskipulagi. Stefnt er að því að deiliskipulagi á hinu frestaða svæði verði lokið fyrir árslok 2019.
4. Garðar Hannes Friðjónsson f.h. Eikar fasteignafélags
a) Sendandi fagnar bættri aðkomu að Lónsbakka 2. Sendandi fer þess á leit að vera bætt í hóp hagsmunaaðila vegna vegtengingar, sem tilgreindur eru í skipulagsgreinargerð.
Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að bæta Eik fasteigafélagi í hóp samráðsaðila í skipulagsgreinargerð.
b) Sendandi telur töluverð tækifæri liggja í lóðinni og lýsir yfir vilja til að þróa svæðið í samstarfi við sveitarfélagið.
Svar: Hörgársveit lýsir sig reiðubúna til samvinnu um þróun á lóð við Lónsbakka.
5. Umsögn HNE um auglýsta skipulagstillögu.
a) HNE bendir á mikilvægi þess að vandað verði til framkvæmda við stækkun fráveitumannvirkja í takt við stækkun byggðar. Sendandi telur að tenging við fráveitukerfi Akureyrarbæjar sé betri kostur til framtíðar en stækkun rotþróar.
Svar: Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir með sendanda að æskilegt væri að tengja hverfið við fráveitukerfi Akureyrar.
6. Umsögn NO um auglýsta skipulagstillögu
a) Norðurorka gerir ekki athugasemd við auglýsta skipulagstillögu
Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
7. Umsögn Minjastofnunar um auglýsta skipulagstillögu
a) Minjastofnun gerir ekki athugasemd við auglýsta skipulagstillögu en bendir á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
8. Umsögn Vegagerðinnnar / umferðaröryggismat
a) Sendandi spyr hvort ekki þurfi að skipulegri vegtengingu verslunar- og þjónustulóða austan þjóðvegar m.t.t. frekari uppbyggingar þeim megin vegar.
Svar: Að teknu tilliti til athugasemda samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að leggja til við sveitarstjórn að halda vegtenginu lóða við Lónsbakka 2 og 4 óbreyttri.
b) Sendandi ræðir um tæknileg útfærsluatriði varðandi vegamót i skipulagstillögunni.
Svar: Deiliútfærsla vegamóta á skipulagssvæðinu verður í umsjón Vegagerðarinnar og því mun Hörgársveit ekki bregðast við tæknilegum ábendingum fyrir sitt leyti.
c) Sendandi bendir á að ekki sé unnt að hafa gangbraut yfir þjóðveg 1 við Lónsveg vegna aksturshraða.
Svar: Að teknu tilliti til framkominna athugasemda samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að leggja til við sveitarstjórn að breyta gangbraut í gönguleið í skipulagstillögu.
d) Sendandi bendir á að akstursstefnuörvar snúi rangt við vegamót Skógarhlíðar og þjóðvegar 1
Svar: Leiðrétt.
9. Umsögn Akureyrarbæjar um auglýsta skipulagstillögu
a) Akureyrarbær gerir ekki athugasemd við auglýsta skipulagstillögu.
Svar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að lóðin nr. 11 við Skógarhlíð falli út af deiliskipulagstillögunni og lóð nr. 13 stækki.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að byggingarreitur 3 á tjaldsvæði við Lónsá verði stækkaður.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagi Lónsbakka, þéttbýli svo breytt verði samþykkt og skipulagsfulltrúa og sveitarstjóra falið að annast gildistöku hennar.
2. Deiliskipulag Hjalteyri
Skipulagshöfundur fór yfir stöðu mála. Deiliskipulagstillagan verður til afgreiðslu til auglýsingar á næsta fundi nefndarinnar.
3. Hraukbæjarkot, stofnun lóðar
Lögð fram umsókn eigenda Hraukbæjarkots þar sem þeir óska eftir að afmarka lóð undir íbúðarhúsinu og að hún fái sér landnúmer. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að umbeðin landskipti á lóð undir íbúðarhús nr. 215-8015 úr landi Hraukbæjarkots (lnr. 152502) samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti verði samþykkt. Lóðin sem er 5.000 fm að stærð fái sér landnúmer.“
4. Engimýri, framkvæmdaleyfisumsókn
Lögð fram umsókn frá eigendum Engimýrar 1 (lnr.152435) þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir skógræktarsvæði 116,7 ha að stærð.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu framkvæmdaleyfis þar til álit Skipulagsstofnunar um matskyldu framkvæmdarinnar liggur fyrir.
5. Geirhildargarðar, umsögn um stofnun lögbýlis
Lögð fram umsókn frá eigendum Geirhildargarða (lnr.152436) þar sem óskað er umsagnar Hörgársveitar vegna stofnunar lögbýlis á jörðinni.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að mæla með því við sveitarstjórn að gefin verði jákvæð umsögn um að stofnað verði lögbýli á jörðinni Geirhildargarðar í Hörgársveit.
6. Hallgilsstaðir, stöðuleyfi fyrir aðstöðuhús
Lögð fram umsókn frá eiganda Hallgilsstaða þar sem óskað er eftir tímabundnum stöðuleyfi fyrir 36 fm vinnuskúr sem staðsettur verði við skemmu sem er á jörðinni.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að veitt verði stöðuleyfi fyrir vinnuskúr á meðan á viðgerðum á skemmu á svæðinu stendur, en þó aldrei lengur en til 12 mánaða.
7. Akureyarbær, deiliskipulag Sjafnargötu
Lögð fram til kynningar tillaga að breyttu deiliskipulagi við Sjafnargötu á Akureyri.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að gerð sú athugasemd við tillöguna, að deiliskipulagið skuli fela í sér heimild til götutengingar úr Sjafnargötu við Lónsbakkahverfi í Hörgársveit.
8. Efnistaka úr Hörgá, umsókn um framkvæmdaleyfi
Lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna malarnáms í Hörgá á svæði E9.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfið verði veitt og að skipulagsfulltrúa verði heimilað að veita framkvæmdaleyfið af því gefnu að fyrir liggi gögn samkvæmt reglugerð um framkvæmdaleyfi og lögbundnum umsögnum.
9. Framlenging á stöðuleyfi vegna vatnstanka Skútum
Lögð fram umsókn frá Skútabergi ehf þar sem óskað er eftir framlengingu á stöðuleyfi fyrir tvo vatnstanka við grjótnámu að Skútum.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gera ekki athugasemd við að stöðuleyfi verði framlengt til eins árs, en mælist til þess að leyfishöfum verði gert skilt að klára að mála tankana strax í jarðlitum er falli vel að umhverfinu og hugað verði að því að tankarnir verði færðir í náinni framtíð á stað þar sem þeir valda minni sjónmengun.
10. Þúfnavellir – byggingarreitur fyrir viðbyggingu
Lögð fram umsókn þar sem óskað er eftir heimild til að heimild til að byggja viðbyggingu við hlöðu á Þúfnavöllum (lnr.152420) samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að afmarkaður verði byggingareitur fyrir umbeðna viðbyggingu í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt.
11. Fagravík – breyting á deiliskipulagi
Lögð fram umsókn frá eiganda Fögruvíkur þar sem óskað er eftir að fá að auka byggingamagn fyrir þjónustuhús sem staðsett er við aðkomu svæðisins úr 22 fm í 50,3 fm.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að leggja til við sveitarstjórn að heimiluð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi með grenndarkynningu samkvæmt gr. 5.8.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.
Skipulags- og umhverfisnefnd átelur að ekki hafi verið aflað tilskilinna leyfa áður en framkvæmdir hófust.
12. Málaflokkur 09 - fjárhagsáætlun 2018 - staða 30.9.2017
Lögð fram til kynningar bókhaldstaða í málaflokki 09 (skipulags- og byggingarmál) þann 30.9.2017.
Jafnframt lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun málaflokksins fyrir árið 2018.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 15:00