Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 38
Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar
38. fundur
Fundargerð
Fimmtudaginn 13. ágúst 2015 kl. 14:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Jóhanna María Oddsdóttir og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd.
Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.
Þetta gerðist:
1. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024
Fyrir fundinum lá tillaga að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 ásamt greinargerð, forsendum og umhverfisskýrslu, dagsett 29. maí 2015 með lagfæringum með tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar sem bárust með bréfi 2. júlí 2015. Með því bréfi var Skipulagsstofnun búin að heimila auglýsingu ef tekið yrði tillit til þeirra ábendinga og athugasemda sem komu fram í því bréfi. Lá því fyrir lagfærð tillaga að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að samþykkja aðalskipulagstillöguna og umhverfisskýrsluna og fela sveitarstjóra að auglýsa tillöguna skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
2. Lækjarvellir 2, fyrirspurn um lóð.
Sveitarstjóri skýrði frá fundi með umsækjanda, Íslenska Gámafélaginu ehf. Í framhaldi af þeim fundi var umsækjandi beðinn um frekari útlistingar á hugmyndum sínum sem ekki hafa borist. Málið verður áfram í vinnslu.
3. Lækjarvellir ósk um viðræður varðandi breytingu á deiliskipulagi og lóðarúthlutun Lækjarvöllum.
Sveitarstjóri skýrði frá fundi með Ómari Má Þóroddssyni þar sem hann ítrekaði ósk sína um að fá að byggja íbúðarhúsnæði að Lækjarvöllum
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að deiliskipulag að Lækjarvöllum verði óbreytt að því leiti að þar verði áfram gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði eingöngu en ekki íbúðarhúsnæði.
4. Breyting á núgildandi aðalskipulagi vegna færslu á sveitarfélagamörkum og færslu á Lónsá.
Fyrir fundinum lá tillaga að breytingu á sveitarfélagamörkum með tilfærslu Lónslækjar til suðurs á móts við sláturhús B. Jensen í Hörgársveit, þannig að hægt verði að koma fyrir viðbyggingu við þá starfsemi sem þar er.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að láta gera aðalskipulagsbreytingu á sveitarfélagamörkunum vegna færslu Lónslækjar á fundi sínum 19. maí 2015. Tillagan að aðalskipulagsbreytingu dagsett 15. júlí 2015 er unnin af Landmótun ehf. og Árna Ólafssyni frá Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf. Breyting þessi felur ekki í sér stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda, sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er hún því ekki háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Breytingin er óveruleg og hefur hvorki áhrif á ósnortna náttúru, jarðmyndanir og vistkerfi, sem njóta sérstakrar verndar, verndarsvæði né skráðar fornminjar. Breytingin hefur ekki í för með sér neikvæð áhrif á nágranna eða landnotkun og nýtingu aðliggjandi svæða.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja því til við sveitarstjórn að tillagan verði samþykkt í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að sveitarstjóra verði falið að annast gildistöku hennar.
5. Stærðir lóða við Búðagötu, Hjalteyri
Til umræðu var hvort minnka ætti lóðir við Búðagötu þannig að þær nái ekki alveg að götu. Til þess að það sé hægt þarf að gera breytingu á skipulagi.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að ákvörðun um stærðir lóða verði teknar til afgreiðslu með deiliskipulagi Hjalteyrar sem er í vinnslu.
6. Umsókn um framlengingu stöðuleyfa fyrir vatnstanka að Skútum - umsögn
Fyrir fundinum lá erindi frá Byggingafulltrúa Eyjafjarðarsvæðis þar sem hann óskar umsagnar um umsókn um framlengingu stöðuleyfa fyrir vatnstanka að Skútum.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við að stöðuleyfi verði framlengt til allt að tveggja ára en mælist til þess að leyfishöfum verði gert skilt að mála tankana strax í jarðlitum er falli vel að umhverfinu og hugað verði að því að tankarnir verði færðir í náinni framtíð á stað þar sem þeir valda minni sjónmengun.
7. Umsókn um að stofna lóð undir bragga í landi Áss.
Fyrir fundinum lá umsókn frá Sverri Brynjari Sverrissyni þar sem hann óskar eftir að stofnuð verði lóð undir bragga á gömlum grunni á lóðamörkum Áss og Steinness. Umsókninni fylgir uppdráttur og samþykki nærliggjandi lóðarhafa.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að leyfið verði veitt.
8. Umsókn um að stofna lóð undir íbúðar- og móttökuhús landi Moldhauga
Fyrir fundinum lá umsókn frá Þresti Þorsteinssyni þar sem hann óskar eftir að stofnuð verði lóð undir íbúðar- og móttökuhús fyrir safn Skútabergs ehf í landi Moldhauga. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að að leggja til við sveitarstjórn að veitt verði heimild til að stofna lóð fyrir íbúðar- og móttökuhús úr jörðinni Moldhaugar skv. framlögðum gögnum.
9. Umsókn um að stofna lóð undir heilsársbústað í landi Neðri-Rauðalækjar
Fyrir fundinum lá umsókn frá Halldóri Jóhannssyni og Erlu Árnadóttur þar sem þau óska eftir að stofnuð verði lóð undir heilsársbústað í landi Neðri-Rauðalækjar. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að að leggja til við sveitarstjórn að veitt verði heimild til að stofna lóð fyrir heilsárshús úr jörðinni Neðri-Rauðalækur skv. framlögðum gögnum.
10. Umsókn um að stofna lóð undir frístunda-/ferðaþjónustuhús í landi Fornhaga II
Fyrir fundinum lá umsókn frá Önnu Guðrúnu Grétarsdóttur þar sem hún óskar eftir að stofnuð verði lóð undir heilsársbústað í landi Fornhaga. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að að leggja til við sveitarstjórn að veitt verði heimild til að stofna lóð fyrir frístunda-/ferðaþjónustuhús úr jörðinni Fornhagi II skv. framlögðum gögnum.
11. Umsókn um stöðuleyfi fyrir gám í landi Stekkjaráss við Dagverðareyri.
Fyrir fundinum lá umsókn frá Rannveigu Oddsdóttur um stöðuleyfi fyrir 40 feta gám í landi Stekkjaráss við Dagverðareyri. Umsókninni fylgir uppdráttur.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að stöðuleyfi verði veitt til eins árs.
Jóhanna María Oddsdóttir vék af fundi undir þessum lið.
12. Auglýsing um starfsleyfistillögu fyrir efnisnám og geymlsusvæði Skútum/Mold-haugum.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands Eystra hefur auglýst starfsleyfistillöguna og er umsagnarfrestur til 9.september 2015.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að beina því til sveitarstjórnar að sveitarfélagið sendi inn athugasemdir fyrir lok auglýsingartíma.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 15:10