Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 34
Mánudaginn 12. janúar 2015 kl. 16:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson, Agnar Þór Magnússon og Jóhanna María Oddsdóttir í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kerfisáætlun Landnets ohf., umhverfismat, matslýsing
Lagt fram tölvubréf, dags. 2. janúar 2015, frá Landsneti ohf. þar sem gerð er grein fyrir því að yfir standi undirbúningur að mótun kerfisáætlunar. Þá er í tölvubréfinu óskað eftir upplýsingum um áform í sveitarfélaginu um atvinnuuppbyggingu, fyrst og fremst orkufreka, skv. skipulagsáætlunum.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að gerð verði grein fyrir ákvæðum gildandi aðalskipulags um Dysnessvæðið.
2. Hjalteyri, lýsing skipulagsverkefni
Lögð fram drög að lýsingu skipulagsverkefnis vegna deiliskipulags á Hjalteyri. Drögin taka mið af fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að kynnt verði lýsing á væntanlegu deiliskipulagi á Hjalteyri, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga, eftir að tillaga að aðalskipulagi sveitarfélagsins hefur verið formlega auglýst.
3. Skútar/Moldhaugar, framkvæmdaleyfi fyrir vinnubúðum
Lagt fram bréf, dags. 1. desember 2014, frá Skútabergi ehf. þar sem gerð óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir vinnubúðum á Skútum/Moldhaugum sbr. gildandi deiliskipulag.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að vísa fyrirliggjandi erindi um vinnubúðir á Skútum/Moldhaugum til byggingarnefndar.
4. Skútar/Moldhaugar, framkvæmdaleyfi fyrir geymslusvæði
Lagt fram bréf, dags. 1. desember 2014, frá Skútabergi ehf. þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir geymslusvæði á Skútum/Moldhaugum sbr. gildandi deiliskipulag.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að óska eftir uppdráttum og framkvæmdalýsingu vegna fyrirliggjandi erindis um geymslusvæði á Skútum/Moldhaugum og að fresta afgreiðslu á erindinu þar til nauðsynleg gögn málsins liggja fyrir.
5. Krossastaðir, framkvæmdaleyfi fyrir afleggjara, grjótvörn og efnistöku
Lagt fram bréf, dags. 8. janúar 2015, frá Hæðargarði ehf. þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfum fyrir afleggjara að Hörgá, grjótvörn við Hörgá og efnistöku úr áreyrum Hörgár.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gefið út framkvæmdaleyfi fyrir afleggjara að Hörgá, grjótvörn við Hörgá og efnistöku úr áreyrum Hörgár, í landi Krossastaða, samkvæmt framlögðum gögnum. Jafnframt samþykkti nefndin að benda á að framkvæmdaleyfi vegna framangreindra atriða til Hörgár sf. geti komið til álita.
6. Landsskipulagsstefna 2015-2026, kynningarfundur
Lagt fram til kynningar tölvubréf, dags. 9. janúar 2015, frá Skipulagsstofnun þar sem gerð er grein fyrir kynningarfundum um tillögu að landsskipulagsstefnu 2015-2026. Einn slíkra funda verður á Akureyri 21. janúar 2015.
7. Umhverfisverðlaun
Rætt um veitingu umhverfisverðlauna í sveitarfélaginu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að tilteknum aðilum verði veitt umhverfisverðlaun sveitarfélagsins fyrir árið 2014.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 17:35.