Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 33

12.11.2014 15:15

Miðvikudaginn 12. nóvember 2014 kl. 15:15 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson, Jóhanna María Oddsdóttir og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, umræða

Lagt fram bréf, dags. 16. október 2014, frá Brynjólfi Snorrasyni og rætt að nýju bréf, dags. 4. september 2014, frá landeigendum á línuleið Blöndulínu 3 í Hörgársveit. Þá var rædd hugmynd að nýjum texta í kafla 3.4.8, um raforku, í fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Hugmyndin gerir ráð fyrir að Blöndulína 3 verði ekki á uppdrætti aðalskipulagstillögunnar, en í greinargerð tillögunnar komi fram stefna sveitarstjórnar um flutningsleiðir raforku um Hörgársveit.

Þorsteinn Rútsson sat fundinn undir þessum dagskrárlið.

Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar, Jón Þór og Jóhanna María, gegn atkvæði Róberts, samþykkti að draga til baka tillögu nefndarinnar frá 25. júní 2014 um að fyrirliggjandi tillaga að aðalskipulagi sveitarfélagsins verði auglýst eins og hún liggur fyrir. Sami meirihluti nefndarinnar leggur til við sveitarstjórn að bréfum Brynjólfs Snorrasonar og landeigenda á línuleið Blöndulínu 3 í Hörgársveitverði svarað þannig að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í bréfunum við gerð tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þá samþykkti ofangreindur meirihluti nefndarinnar að leggja til við sveitarstjórn að Blöndulína 3 verði ekki sýnd á uppdrætti fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins og að framkomin hugmynd að nýjum texta í kafla 3.4.8, um raforku,verði í tillögunni í stað þess texta sem þar er nú, og að tillagan, þannig breytt, verði send lögboðnum umsagnaraðilum og kynnt á íbúafundi við fyrsta tækifæri.

 

2. Fjárhagsáætlun vegna áranna 2015-2018

Lagt fram til kynningar uppkast að fjárhagsáætlun þeirra málaflokka, sem undir nefndina heyra, fyrir árið 2015. Fjárhagsrammi nefndarinnar fyrir árið 2015 sem afgreiddur var 21. maí 2014 var breytt 18. september 2014, þ.e. úr 18 millj. kr. í 17 millj. kr.

 

3. Lón, deiliskipulag vegna stækkun sláturhús

Lögð fram drög að tillögu að deiliskipulagi vegna stækkunar sláturhúss að Lóni.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi vegna stækkunar sláturhúss að Lóni verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga.

 

4. Hjalteyri, framkvæmdaleyfi vegna breytingar á sandfangara

Lagt fram tölvubréf, dags. 9. nóvember 2014, frá Hafnasamlagi Norðurlands þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir verkið „Færsla sandfangara“ á Hjalteyri. Meðf. er hönnunarteikning verksins.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir færslu sandfangara á Hjalteyri í samræmi við framlögð gögn.

 

5. Staða skipulagsfulltrúa

Gerð var grein fyrir þeim undirbúningi sem fram hefur farið að stofnun byggðasamlag um embætti skipulags- og byggingafulltrúa fyrir Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp, Hörgársveit og Svalbarðsstrandarhrepp.

 

6. Reglur um stöðuleyfi fyrir gáma og annað bráðabirgðahúsnæði

Lagt fram uppkast að reglum um útfærslu ákvæða byggingarreglugerðar um stöðuleyfi fyrir gáma og annað bráðabirgðahúsnæði, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 18. júní 2014.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrirliggjandi uppkast að reglum um útfærslu ákvæða byggingarreglugerðar um stöðuleyfi fyrir gáma og annað bráðabirgðahúsnæði verði samþykkt með breytingu sem gerð var á fundinum.

 

7. Skriða, framkvæmdaleyfi efnistöku

Lögð fram afstöðumynd vegna áætlaðrar efnistöku í landi Skriðu, dags. 12. nóvember 2014. Um er að ræða 1.000 – 1.500 m3 af efni á tveimur stöðum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggjast gegn því að efnistaka verði hafin á óröskuðu svæði á meðan umhverfismat liggur ekki fyrir, en leggur til að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir allt að 1.500 m3 úr námu sem er opin á svæði sem tilgreint í framlögðum gögnum.

Róbert Fanndal vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

 

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 17:00.