Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 24

09.10.2013 20:00

Miðvikudaginn 9. október 2013 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Aðalheiður Eiríksdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2012-2024, afgreiðsla auglýsingar

Lagt fram tölvubréf, dags. 25. september 2013, frá svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar, þar sem gerð er grein fyrir auglýsingu á tillögu að svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 18. febrúar 2013 var tillagan til umræðu og afgreiðslu til auglýsingar. Nefndin samþykkti þá að leggja til við sveitarstjórn að tillagan yrði samþykkt af hálfu Hörgársveitar. Sveitarstjórnin samþykkti þá tillögu á fundi sínum 20. febrúar 2013. Við auglýsingu tillögunnar komu fram athugasemdir frá þremur aðilum, Landsneti ohf., Skipulagsstofnun og Sif Konráðsdóttur, auk þess sem bréf barst frá flugrekendum á Akureyrarflugvelli. Svæðisskipulagsnefndin hefur gert tillögur að afgreiðslu á framkomnum athugasemdum, sem fela í sér þrjár minniháttar breytingar á svæðisskipulagstillögunni.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að af hálfu Hörgársveitar verði staðfest afgreiðsla svæðisskipulagsnefndar á framkomnum athugasemdum við þá tillögu að svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2012-2024, sem auglýst var í júní 2013.

 

2. Öxnadalur, framkvæmdaleyfi rofvarna við Hringveg

Lögð fram umsókn, dags. 20. september 2013, frá Vegagerðinni um framkvæmdaleyfi fyrir rofvörnum við Hringveg í Öxnadal. Í umsókninni kemur fram framkvæmdalýsing verksins. Um er að ræða rofvarnir á um 750 m kafla og áætlað efnismagn er 3.500 m3. Umsókninni fylgir loftmynd og kennisnið.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir rofvörnum við Hringveg í Öxnadal í samræmi við framlagða umsókn og meðfylgjandi gögn.

 

3. Umhverfisstofnun, könnun á vilja til að koma á samræmdri flokkun heimilisúrgangs

Lagður fram tölvupóstur, dags. 23. september 2013, frá Umhverfisstofnun um könnun sem til stendur að á vilja sveitarfélaga og rekstraraðila til að koma á samræmdri flokkun heimilisúrgangs á landsvísu.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur æskilegt að flokkun heimilisúrgangs til endurvinnslu verði samræmd á landsvísu.

 

4. Akureyrarbær, auglýsing á deiliskipulagi fyrir Kjarnaskóg og Hamra

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 16. september 2013, frá Akureyrarbæ þar sem tilkynnt er um auglýsingu á deiliskipulagi fyrir Kjarnaskóg og Hamra.

 

5. Ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 24. september 2013, frá Umhverfisstofnun þar sem boðað er til ársfundar Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga. Fundurinn verður 24. október 2013.

 

6.

Róbert Fanndal spurðist fyrir um samþykkt sveitarstjórnar frá 18. september 2013 um friðlýsingu Hólahóla og Hóladals. Hann tjáði sig andvígan friðlýsingu Hólahóla og Hóladals á þeim grundvelli sem kynnt hefur verið.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 21:25.