Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 22
Þriðjudaginn 3. september 2013 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.
Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal auk Guðmundar Sigvaldasonar og Hjalta Jóhannessonar, starfandi sveitarstjóra, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Skútar, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum efnistöku
Lagt fram til umfjöllunar bréf, dags. 3. júlí 2013, frá Skipulagsstofnun ásamt áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum vegna efnistöku. Þar kemur fram að áhrif framkvæmdarinnar á landslag verða talsvert neikvæð og varanleg. Starfsemin geti valdið ónæði fyrir nálæga bæi og frístundabyggð en hávaði verði þó langt undir viðmiðum reglugerðar. Áhrif á fugla verða óveruleg en áhrif á jarðmyndanir og gróður nokkuð neikvæð. Áhrif á menningarminjar skv. kosti I verða óveruleg en samkvæmt kosti II nokkuð neikvæð. Við leyfisveitingar skal tryggja að frágangur efnistökusvæða verði tryggður og að námavinnslan mengi ekki læki í nágrenni framkvæmdasvæðisins. Álitið var kynnt á fundi sveitarstjórnar 21. ágúst 2013 og samþykkt að vísa því til umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd í ljósi þeirra athugasemda sem bárust.
2. Skútar, umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfisskýrslu og tillögu að deiliskipulagi
Lagt fram bréf, dags. 2. júlí 2013, frá Umhverfisstofnun þar sem fram kemur að stofnunin leggur áherslu á að við hönnun og frágang mannvirkja verði leitast við að gera mannvirkin eins lítið áberandi og kostur er. Að öðru leyti gerir stofnunin ekki athugasemdir við umrædda tillögu. Umsögnin var kynnt á fundi sveitarstjórnar 21. ágúst 2013 og samþykkt að vísa henni til umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd í ljósi þeirra athugasemda sem bárust. Einnig tekið fyrir að nýju bréf Skipulagsstofnunar, dags. 17. maí 2013, sbr. fund nefndarinnar 12. júní 2013 og sveitarstjórnarfund 19. júní 2013, með athugasemdum um deiliskipulag svæðisins. Þá var lagður fram uppfærður skipulagsuppdráttur ásamt greinargerð frá H.S.Á. teiknistofu, dags. 2. september 2013.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að í framlögðu uppfærðu deiliskipulagi sé tekið á þeim þætti sem fram kemur í áliti Umhverfisstofnunar m.a. með jarðvegsmönum. Skipulags- og umhverfisnefnd telur að í uppfærðu deiliskipulagi sé komið til móts við þær athugasemdir sem fram koma í erindi Skipulagsstofnunar frá 17. maí 2013. Samþykkt voru ný svör við athugasemdum þeirra sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagið sbr. fund skipulags- og umhverfisnefndar 18. febrúar 2013 og athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Athugasemdir Sigríðar Mahon og Péturs Karlssonar, Grjótgarði, 27. desember 2012: Gerð girðingar og vegslóða vegna hennar á jarðarmörkum er til skýringar á skipulagsuppdrættinum en er ekki viðfangsefni deiliskipulags þar sem um girðingar fer skv. girðingarlögum. Fornleifunum Skútnastekkur [Gamlistekkur í örnefnaskrá] og Skútnasel hefur verið bætt í greinargerð og uppdrátt og legu vegar að bæjarhúsum að Skútum hefur breytt í samræmi við ábendingu bréfritara. Leitað verður umsagnar Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra varðandi möguleg áhrif á grunnvatn og vatnssvæði og mótvægisaðgerðir. Einnig er vísað til mats á umhverfisáhrifum námuvinnslunnar í þessu sambandi. Gert verði ráð fyrir girðingu umhverfis framkvæmdasvæðið í samræmi við umhverfisskýrslu.
Athugasemdir Jóns Björgvinssonar, Dvergasteini, 8. janúar 2013: Legu vegur að fjárrétt og stærð lóðar fyrir hana hefur verið breytt í samræmi við ábendingar bréfritara.
Athugasemdir Þórðar Þórðarsonar, Hvammi, 24. janúar 2013: Gerð er grein fyrir mótvægisaðgerðum og frágangi námu í greinargerð deiliskipulagsins í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. Skipulags- og umhverfisnefnd gerir kröfu um að framkvæmdaaðili og skipulagshöfundur setji skilmála um jarðvegsmanir og trjágróður til að draga úr sýnileika námunnar, geymslusvæðis og annars búnaðar sem fylgir starfseminni. Áfangaskipting kemur fram í greinargerð deiliskipulagsins. Vísað er til umhverfisskýrslu sem tekur ítarlegar á þeim þáttum sem bréfritari nefnir um umhverfishluta verkefnisins.
3. Hólar, beiðni um friðlýsingu Hólahóla og Hóladals
Lagt fram bréf, dags. 16. ágúst 2013, frá Umhverfisstofnun þar sem Umhverfisstofnun kannar almenna afstöðu sveitarfélagsins til tillögu um friðlýsingu Hólahóla og Hóladals. Þá voru lögð fram drög að friðlýsingarskilmálum sem bárust frá Umhverfisstofnun í tölvupósti, dags. 3. september 2013.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að hér sé um áhugavert mál að ræða en að taka þurfi það til nánari skoðunar og ítarlegri úrvinnslu, til dæmis hvort rétt sé að friðlýsa heildstæðar landslagsheildir í framanverðum Öxnadal, s.s. fornu megineldstöðina og stóru berghlaupin í heild sinni. Þá vantar einnig mikilvæg gögn, s.s. uppdrátt sem sýnir afmörkun svæðisins.
4. Breyting á skipulagslögum, umsagnarbeiðni
Lagt fram bréf, dags. 6. ágúst 2013, frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þar sem óskað er eftir umsögn, um drög að breytingu á skipulagslögum er varðar bótaákvæði laganna svo og ýmsum öðrum ákvæðum laganna í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra. Á fundi sveitarstjórnar 21. ágúst 2013 var erindið kynnt og sveitarstjóra falið að að vinna að umsögn í samráði við skipulags- og umhverfisnefnd.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að umræddar breytingar séu almennt jákvæðar og tekur efnislega undir umsögn skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga sbr. fund þeirrar nefndar 23. ágúst 2013.
5. Beiðni um umsögn vegna aðalskipulagsbreytingar; akstursíþrótta- og skotsvæði á Glerárdal
Lagt fram bréf, dags. 15. ágúst 2013, frá Akureyrarbæ þar sem óskað er eftir umsögn um skipulagið og mat á umhverfisáhrifum áætlunarinnar.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við umræddar breytingar á aðalskipulagi Akureyrar.
Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:45