Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 18

27.02.2013 20:00

Miðvikudaginn 27. febrúar 2013 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar í skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

 

Fundarmenn: Hanna Rósa Sveinsdóttir, Anna Dóra Gunnarsdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Jón Þór Benediktsson og Róbert Fanndal í skipulags- og umhverfisnefnd og Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist:

 

1. Hlaðir, umsókn um framkvæmdaleyfi efnistöku

Lagt fram bréf, dags. 21. febrúar 2013, frá Skútabergi ehf. og landeigendum á Hlöðum, þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til efnistöku að rúmtaki 49.900 m3. Með bréfinu fylgdi afstöðumynd.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í landi Hlaða, sbr. fyrirliggjandi umsókn, til eins árs, með skilyrðum um að raskað svæði verði minna en 2,5 ha og frágangur verði í samræmi við þær hugmyndir sem fram koma í umsókninni.

 

2. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, lýsing á skipulagsverkefni

Lagt fram leiðbeiningablað, dags. 1. febrúar 2013, frá Skipulagsstofnun þar sem gerð er grein fyrir þeim breytingum á málsmeðferð skipulagsáætlana sem ný skipulagsreglugerð, nr. 90/2013, hefur í för með sér. Í því felst m.a. að endurgera þarf lýsingu á skipulagsverkefninu „Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024“ og kynna hana að nýju.

Lögð fram endurgerð lýsing á skipulagsverkefninu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ný lýsing á skipulagsverkefninu „Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024“, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 verði samþykkt, eins og hún liggur fyrir, og að hún verði kynnt skv. lögum.

 

3. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, umsagnir um drög að tillögu

Lagðar fram umsagnir um fyrirliggjandi drög að tillögu að aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 frá eftirtöldum aðilum: Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Fiskistofa, Hafnasamlag Norðurlands, Landsnet, Minjastofnun ríkisins, Norðurlandsskógar, Siglingastofnun, Skógrækt ríkisins, Sveitarfélagið Skagafjörður og Vegagerðin, sbr. samþykkt sveitarstjórnar 16. janúar 2013, að tillögu skipulags- og umhverfisnefndar 14. janúar 2013.

Þá var lögð fram samantekt skipulagsráðgjafa á umsögnunum og tillögur hans að viðbrögðum við þeim.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagsráðgjafa verði falið að gera breytingar á tillögudrögunum í samræmi við tillögur hans.

 

4. Aðalskipulag Hörgársveitar 2012-2024, umræða

Rætt um nokkur atriði í tillögudrögum aðalskipulagsins, raforkuflutningslínur, íbúafund, byggingamagn á iðnaðarsvæði á landspildu á Moldhaugum o.fl.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að stefnt verði að íbúafundi um tillögudrögin 8. apríl 2013.

 

5. Upplýsingafundur um úrgangsmál

Rætt um upplýsingafund um úrgangsmál sem skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti á fundi sínum 6. nóvember 2012 að haldinn yrði í mars 2013.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að upplýsingafundur um úrgangsmál verði haldinn 13. mars 2013.

 

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl. 22:15