Skipulags- og umhverfisnefnd, fundur nr. 13
Mánudaginn 29. september 2008 kl. 20:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgárbyggðar saman til fundar í Þelamerkurskóla.
Á fundinum voru: Oddur Gunnarsson, Aðalheiður Eiríksdóttir, Birna Jóhannesdóttir, Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri, og Yngvi Þór Loftsson, skipulagsráðgjafi aðalskipulags Hörgárbyggðar.
Þetta gerðist:
1. Hólar, frístundabyggð
Lagt fram tölvubréf, dags. 26. sept. 2008, frá Ólafi Valssyni þar sem óskað er eftir að skilgreind verði 5 ha frístundabyggð í landi Hóla á tillögu að aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026, á sambærilegan hátt og gert hefur verið í landi Hrauns. Tölvubréfinu fylgir afstöðumynd sem sýnir umrætt svæði.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur ekki fært að taka erindið til efnislegrar afgreiðslu að svo stöddu þar sem það þarfnist meiri athugunar en unnt er að koma við fyrir staðfestingu aðalskipulagstillögunnar.
2. Aðalskipulag Hörgárbyggðar 2006-2026
Skv. ákvörðun sveitarstjórnar 14. maí 2008 og að fenginni heimild Skipulagsstofnunar, sbr. bréf dags. 19. júní 2008, var tillaga að aðalskipulagi Hörgárbyggðar 2006-2026 auglýst og óskað eftir athugasemdum við hana. Skipulagsuppdrættir, greinargerð, umhverfisskýrsla og skýringaruppdrættir lágu frammi á skrifstofu Hörgárbyggðar í Þelamerkurskóla og í Skipulagsstofnun frá 14. júlí til 1. september 2008. Ennfremur voru gögnin aðgengileg á heimasíðu Hörgárbyggðar á sama tíma. Athugasemdafrestur var til og með 8. september 2008. Auglýsingin birtist á eftirfarandi stöðum:
o Fréttabréf Hörgárbyggðar, 12. júlí 2008
o Morgunblaðið, 13. júlí 2008
o Lögbirtingablaðið, 14. júlí 2008
o Heimasíða Hörgárbyggðar, 14. júlí – 8. sept. 2008
o Dagskráin, 16. júlí 2008
o Vikudagur, 17. júlí 2008
Lögð voru fram eftirtalin 6 bréf sem fela í sér athugasemdir við aðalskipulagstillöguna:
o Sigurjón Benediksson o.fl., dags. 28. ágúst 2008
o Lovísa Sigrún Snorradóttir o.fl., dags. 2. sept. 2009
o Jón Björgvinsson, dags. 4. sept. 2009
o Ragnheiður Guðmundsdóttir o.fl., dags. 5. sept. 2009
o Ríkarður G. Hafdal o.fl., dags. 7. sept. 2009
o Hermann Harðarson o.fl., dags. 8. sept. 2009
Þá var lagt fram bréf frá Gígju Snædal o.fl., dags. 14. apríl 2008, sem sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 14. maí 2008 að tekið yrði fyrir sem athugasemd við aðalskipulagstillöguna.
Að loknum umræðum um athugasemdirnar samþykkti nefndin að leggja til við sveitarstjórn eftirfarandi afgreiðslu á framkomnum formlegum athugasemdum við aðalskipulagstillöguna.
Sigurjón Benediksson o.fl., dags. 28. ágúst 2008
Í athugasemdinni segir að ekki sé “ástæða til að láta meira land fyrir þéttbýli við Skógahlíð”.
Í svæðisskipulagi Eyjafjarðar var á sínum tíma gert ráð fyrir stækkun á þéttbýlinu á Lónsbakka. Við vinnu við aðalskipulaginu voru bornir saman fimm kostir við þróun á íbúðabyggð í sveitarfélaginu. Niðurstaðan var að vænlegast er að þróun þéttbýlis á Lónsbakka haldi áfram, sbr. greinargerð á bls. 24.
Lovísa Sigrún Snorradóttir o.fl., dags. 2. sept. 2009
a) Mótmælt er “að nokkur hluti jarðarinnar Skipalón verði settur undir hverfisvernd”.
Tillaga að hverfisvernd á bökkum Hörgár og Hörgárósum tekur mið af afmörkun í verndaráætlun Umhverfisstofnunar.Svæðið er merkilegt einkum vegna mikils fuglalífs, fjölbreytts gróðurfar merkra búðatófta frá miðöldum og útivistargildis. Til að koma til móts við athugasemdir landeigenda á vinnslustigi aðalskipulagstillögunnar var minnkað það svæði, sem upphaflega var afmarkað stærra (í samræmi við afmörkun í verndaráætluninni).
Í ljósi afstöðu viðkomandi landeigenda til málsins leggur nefndin til við sveitarstjórn að felld verði niður hverfisvernd á þessu svæði.
b) Bent er á að svæði 506 á Náttúruminjaskrá var ekki ákveðin í samráði við landeigendur og svæðið er sýnt stærra á skipulagsuppdrættinum heldur en skilgreint er í textalýsingu.
Samkvæmt skipulagsreglugerð skal í aðalskipulagi auðkenna og gera grein fyrir náttúruverndarsvæðum, staðsetningu þeirra og helstu einkennum. Á heimasíðu Umhverfisstofnunar er misræmi á milli afmörkunar í texta og á uppdrætti að því er varðar það svæði sem hér um ræðir. Lagt er til að sveitarstjórn sendi Umhverfisstofnun fyrirspurn um þetta misræmi.
Jón Björgvinsson, dags 4. sept. 2009
Athugasemdir/ábendingar bréfritara eru í fjórum liðum.
a) Krafist er “að hverfisvernd verði fjarlægð með öllu úr landi Dvergasteins”
Um er að ræða hverfisverndarsvæði í beinu framhaldi fólkvangs í Krossanesborgum. Innan svæðisins er m.a. Lónið að sjó, aðliggjandi votlendi og klapparásar að túnum í landi Dvergasteins. Svæðið er sérstakt vegna klapparása, jökulminja, votlendis og er hentugt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis. Ákvæði hverfisverndar gera m.a. ráð fyrir að hefðbundnar landbúnaðarnytjar geta haldist eins og verið hefur. Afmörkun á hverfisverndarsvæðinu var breytt á vinnslustigi aðalskipulagsins í samræmi ábendingar landeigenda.
Í ljósi afstöðu viðkomandi landeigenda til málsins leggur nefndin til við sveitarstjórn að felld verði niður hverfisvernd á því landi sem tilheyrir Dvergasteini.
b) Þess er krafist að nýr vegur sem í tillögunni er sýndur frá hringtorgi norður um land Dvergasteins verði tekinn af tillögunni.
Lega vegarins sýnir hugsanlega vegtengingu fyrir svæðið norðan og austan Dvergasteins, en tillagan gerir ekki ráð fyrir að þörf verði fyrir slíka vegtengingu á skipulagstímabilinu. Nefndin leggur til að umræddur vegur verði tekinn af tillögunni og að vegtengingin verði færð sunnar og komi nyrst við lóð Húsasmiðjunnar. Aðalskipulagstillagan tekur ekki afstöðu til þess hvernig vegtengingar eru útfærðar.
c) Krafist er að skýrari línur verði dregnar um fráveitumál á Lónsbakka.
Miðað við núverandi magn fráveituvatns, áætlaða aukningu þess á næstu árum og þær endurbætur sem verið er gera verða á fráveitukerfinu mun það uppfylla kröfur Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
d) Þess er krafist að fjarlægðarmörk milli íbúðabyggðar og landbúnaðar verði sett í skýringartexta.
Fjarlægð íbúðabyggðar frá landbúnaðarlandi skv. landnotkunarkorti er ekki minni en hún er nú. Uppdráttur á bls. 22 í tillögunni er til skýringar og er því ekki bindandi um landnotkun í aðalskipulaginu. Ákvörðun um ný íbúðasvæði eftir skipulagstímabilið mun m.a. taka mið af þeim lögum og reglugerðum sem þá verða í gildi.
Ragnheiður Guðmundsdóttir o.fl., dags. 5. sept. 2009
a) Óskað er eftir að hverfisvernd við Hörgá sem tilheyrir Hlöðum verði felld úr tillögunni.
Tillaga að hverfisvernd á bökkum Hörgár og Hörgárósum tekur mið af afmörkun í verndaráætlun Umhverfisstofnunar.Svæðið er merkilegt einkum vegna mikils fuglalífs, fjölbreytts gróðurfar merkra búðatófta frá miðöldum og útivistargildis. Ákvæði hverfisverndar gera m.a. ráð fyrir að hefðbundin landbúnaðarnytjar geta haldist eins og verið hefur.
Í ljósi afstöðu viðkomandi landeigenda til málsins leggur nefndin til við sveitarstjórn að felld verði niður hverfisvernd á þessu svæði.
b) Óskað er eftir að íbúðabyggð á Gásum verði felld úr tillögunni.
Tillaga um íbúðabyggð í landi Gása eru til komin vegna óska viðkomandi landeiganda. Þar er gert ráð fyrir mun stærri lóðum en almennt gerist sem þýðir að um nýjan búsetukost í Eyjafirði yrði að ræða. Talið er að aukin íbúðabyggð muni styrkja sveitarfélagið sem slíkt og gera því auðveldara en ella að veita íbúunum þá þjónustu sem því ber. Íbúðabyggð með svo stórum lóðum sem gert er ráð fyrir á Gásum og sem er í nokkurri fjarlægð frá þjónustu, getur haft í för með sér neikvæð umhverfisáhrif, en hugsanlega getur íbúðasvæðið dregið úr eftirspurn eftir enn stærri lóðum og það getur dregið úr líkum á því að slíkt svæði verði byggt enn lengra frá helstu þjónustuþáttum.
Þéttbýlismyndun í innanverðum Eyjafirði á næstu áratugum mun væntanlega aðallega eiga stað á svæðinu norðan við Akureyri, þannig að með tímanum mun styttast í þjónustu fyrir þá sem búa á svæðinu. Gert er ráð fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu og minjavörslu í nágrenninu og íbúðabyggðin getur í einhverjum tilvikum stytt vegalengdir fyrir vinnusókn starfsmanna þar.
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að í byggingarskilmálum svæðisins verði gengið út frá því að dreifing búfjáráburðar eigi sér stað í næsta nágrenni þess.
Skv. 2. viðauka í lögum um umhverfismat ber að tilkynna breytingu á landnotkun í dreifbýli sem er stærri en 20 ha. Þessi breyting á landnotkun verður tilgreind í kafla 2.10.3 (um matsskyldar framkvæmdir) í aðalskipulagstillögunni.
Ríkarður G. Hafdal o.fl., dags. 7. sept. 2009
Mótmælt er tillögu um íbúðabyggð á Gásum.
Vísað er til svars við b-lið í athugasemd Ragnheiðar Guðmundsdóttur o.fl.
Hermann Harðarson o.fl., dags. 8. sept. 2009
Andmælt er staðsetningu hringtorgs vegna hávaðamengunar sem af því muni leiða og bent á núverandi gatnamót sem betri staðsetningu.
Aðalskipulagstillagan tekur ekki afstöðu til þess hvernig vegtengingar eru útfærðar, en vegna aðstæðna er ekki mögulegt að hafa núverandi gatnamót á sama stað til framtíðar. Nefndin leggur áherslu á að við útfærslu á gatnamótunum verði tekið mið af hljóðvist í nálægðri byggð og að í hvívetna verði fylgt reglum um takmörkun umferðarhávaða í íbúðasvæðum sem munu gilda á þeim tíma þegar að framkvæmdum kemur.
Gígja Snædal o.fl., dags. 14. apríl 2008
Gerð er athugasemd við að gert er ráð fyrir íbúðabyggð á Gásum.
Vísað er til svar við b-lið í athugasemd Ragnheiðar Guðmundsdóttur o.fl.
Við afgreiðslu athugasemda frá Ragnheiði Guðmundsdóttur o.fl. um íbúðabyggð á Gásum, og athugasemda frá Ríkarði G. Hafdal o.fl. og Gígju Snædal o.fl. vék Oddur Gunnarsson af fundi. Guðmundur Víkingsson tók sæti hans.
3. Umhverfisviðurkenningar
Tillögur lágu fyrir fundinum um umhverfisviðurkenningar í sveitarfélaginu. Þær verða veitt á árshátíðinni fyrsta vetrardag nk.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 21:50.