Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 111

25.03.2025 09:00

Þriðjudaginn 25. mars 2025 kl. 09:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Bjarki Brynjólfsson í skipulags- og umhverfisnefnd, Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Árskógsvirkjun, Þorvaldsdal - Breyting á aðalskipulagi mál nr. 0214/2025 í skipulagsgátt – umsagnarbeiðni (2502024)
Dalvíkurbyggð óskar umsagnar Hörgársveitar á skipulagslýsingu skv. 1.mgr. 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, vegna breytingar á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 fyrir allt að 5 MW vatnsaflsvirkjun í Þorvaldsdalsá, stíflu og stöðvarhús auk 3,7 km langrar aðrennslispípu.og fylgir lýsing á skipulaginu dags. 06.01.2025 erindinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

2. Landsnet - mótun kerfisáætlunnar 2025-2034 (2502025)
Verk- og matslýsingu vegna vinnu við gerð kerfisáætlunar 2025-2034 lögð fram til kynningar, sveitarfélög eru sérstaklega hvött til þess að nýta tækifærið og upplýsa um stöðu á aðalskipulagi og fyrirhugaða landnotkun sem getur haft áhrif á mótun kerfisáætlunar. Áætlað er að kerfisáætlunin sjálf og mat á umhverfisáhrifum komi í kynningu fyrir páska.

3, Blöndulína 3 (2304006)
Umræður um efnistöku og aðra stöðu mála eftir fundi með Landsneti.

4. Fagranes L152434 – umsókn um byggingarreit (2503028)
Landeigandi á Fagranesi sækir um byggingarreit fyrir 200m2 heilsárshús . Byggingarreiturinn er 711 m2 stór.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja erindið, að því tilskyldu að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir sem og umsögn Vegagerðarinnar vegna vegtengingar.

5. Fagranes L2157606 - Umsókn um leyfi til skógræktar (stækkun á framkvæmdarsvæði) (2411010)
Sveitarstjórn samþykkti á 178. fundi sínum að óska eftir umsögn Skipulagsstofnunar varðandi umfang skógræktar á svæðinu, sem liggur nú fyrir fundinum til umfjöllunar.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaraðila sé gert að tilkynna skógræktaráform sín til Skipulagsstofnunar, líkt og ber að gera óháð stærð framkvæmda á vatnsverndarsvæðum, samkv. 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Ef auka á skógrækt á jörðinni umfram þá 74 ha sem nú er leyfi fyrir þarf að liggja fyrir matsskylduákvörðun eða umhverfismat áður umsóknin verði tekin til afgreiðslu.

6. Skútar - Moldhaugaháls - beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingarreits 3 (2410006)
Óskað er eftir deiliskipulagsbreytingu sem felst í því að taka út skiptingu á A og B rými á byggingarreit 3. Heildar byggingarmagn verður áfram það sama, þ.e. 690 m2.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu. Breytingin telst óveruleg og leggur nefndin til að fallið yrði frá grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7. Aðalskipulag Skagafjarðar endurskoðun 2025-2040- kynning á tillögu á vinnslustigi - (2503036)
Skagafjörður óskar umsagnar Hörgársveitar um tillögu á vinnslustigi vegna nýs aðalskipulags. Skipulagstillaga unnin af VSÓ ráðgjöf, mars 2025 fylgir erindinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við vinnslutillöguna að öðru leyti en því er varðar Blöndulínu 3, þar sem bent er á misræmi sem verður á sveitarfélagamörkum þar sem í greinargerð með gildandi aðalskipulagi Hörgársveitar er enn gert ráð fyrir jarðstreng.

8. Reynihlíð/Lónsbakkahverfi L223515 - RARIK - Umsókn um lóð fyrir dreifistöð (2411011)
Sveitarstjórn samþykkti á 176. fundi sínum þann 13. desember sl. að leyfa óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi, þar sem lóð verði stofnuð á tilgreindu svæði og vísa erindinu í grenndarkynningu. Grenndarkynningartímabilinu lauk þann 7. mars sl. og liggja athugasemdir nú fyrir fundinum til umfjöllunar.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu og fela skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjanda um framhald málsins.

9. Blómsturvellir L152465 - Stofnun tveggja lóða úr landi Blómsturvalla (2503045)
Umsókn frá Akureyrarbæ, eiganda Blómsturvalla þar sem óskað er eftir samþykki Hörgársveitar fyrir stofnun tveggja lóða úr landi Blómsturvalla L152465.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóða og fela skipulags- og byggingarfulltrúa að kalla eftir merkjalýsingu og fullnusta málið á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.

10. Sandvík, Hauganesi - Umsagnarbeiðni vegna breytingar á Aðalskipulagi (2503050)
Dalvíkurbyggð óskar umsagnar Hörgársveitar um skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi. Skipulags- og matslýsing unnin af Nordic Office og Arcitecture, 7. mars 2025 fylgir erindinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

11. Hagabyggð áfangi 3, framkvæmdaleyfi (2502002)
Fyrir liggur umsókn um framkvæmdaleyfi varðandi framkvæmdir við áfanga 3 í Hagabyggð.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir ákveðnum verkþáttum þegar öll fullnægjandi gögn þeirra vegna liggja fyrir, sem og undirritaður samstarfssamningur milli Hörgársveitar og GLB17 ehf. um uppbyggingu 3. áfanga í Hagabyggð.

12. Stofnun lóðar úr landi Garðshorns
Umsókn um stofnun 10 ha lóðar úr landi Garðshorns L152487.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að stofnun lóðarinnar verði samþykkt og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kalla eftir merkjalýsingu og fullnusta málið á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.

13. Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku
Fyrir liggur umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í óskiptu landi Ytri-Bægisár 1, Ytri-Bægisár 2 og Garðshorns á Þelamörk.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi þegar öll fullnægjandi gögn liggja fyrir.

Agnar Þór Magnússon vék af fundi undir liðum 12 og 13.

14. Umsókn um framlengingu á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku
Fyrir liggur umsókn frá GLB17 ehf um framlengingu á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Glæsibæjar.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði heimilt að gefa út framlengingu á framkvæmdaleyfi til loka árs 2029 þegar öll fullnægjandi gögn liggja fyrir.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:10