Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 109

21.01.2025 09:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar 109. fundur

Þriðjudaginn 21. janúar 2025 kl. 09:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Bjarki Brynjólfsson og í skipulags- og umhverfisnefnd, Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

  1. Lækjarvellir, breyting á deiliskipulagi og úthlutun lóða (2501004)

Fyrir fundinum liggja hugmyndir um að skipta lóðinni Lækjarvöllum 21 upp í tvær lóðir 21 og 21a líkt og kemur fram í fram lagðri skýringarmynd. Einnig lagt fram minnisblað sveitarstjóra m.a. varðandi úthlutun lóða við Lækjarvelli en þrír aðilar hafa sýnt áhuga á úthlutun eftir auglýsingu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að gerð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi Lækjarvalla þar sem lóðinni nr. 21 verði skipt upp í tvær lóðir nr. 21 og 21a í samræmi við meðfylgjandi uppdrátt. Þar sem málið varðar ekki aðra en sveitarfélagið er fallið frá grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta breytinguna. Í framhaldinu verði lóðirnar auglýstar til úthlutunar.
Þá samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd að leggja eftirfarandi til við sveitarstjórn varðandi úthlutun lóða:

  1. a) Gengið verði til samninga við Lækjarvelli 22 ehf, (Atli Gunnarsson) um að hann falli frá lóðinni nr. 22 og fái í staðinn lóðina nr. 19.
  2. b) Gengið verði til samninga við Vökvaþjónustu Kópaskers ehf um úthlutun lóðarinnar nr. 20, með hugsanlegri sameiningu við lóðina nr. 18.
  3. c) Gengið verði til samninga við Byggingarfélagið A-plús ehf um úthlutun lóðarinnar nr. 22.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti einnig að leggja til við sveitarstjórn að sett verði það skilyrði að innan 18 mánaða frá undirritun lóðarleigusamnings verði byggingarframkvæmdir komnar á byggingastig B2.

  1. Skútar L152537 - umsókn um framkvæmdaleyfi - mön við þjóðveg (2501001)

Fyrir fundinum liggur umsókn frá Skútabergi ehf. þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna manar meðfram þjóðvegi 1. Meðfylgjandi er deiliskipulag á því svæði sem um ræðir ásamt uppdrætti af framkvæmdasvæðinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsóknin verði samþykkt að því gefnu að umsögn Vegagerðarinnar liggi fyrir og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi. Bent er á að framkvæmdin sé unnin í samráði við Vegagerðina vegna nálægðar við veghelgunarsvæði og frágang á milli þjóðvegar og manar.

  1. Hringvegur (1) hringtorg við Lónsveg - framkvæmdaleyfi (2501006)

Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi til Hörgársveitar skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin felur í sér byggingu hringtorgs á gatnamótum Hringvegar (1) og Lónsvegar (8298) í Hörgarsveit og Akureyrarbæ. Meðfylgjandi er umsókn ásamt uppdráttum af framkvæmdasvæðinu.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsóknin verði samþykkt og feli skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi innan sveitarfélagsmarka Hörgársveitar.

  1. Fagranes L2157606 - Umsókn um leyfi til stækkun á áður samþykktu svæði til skógræktar (2411010)

Fyrir fundinum liggur erindi að nýju frá Henri Middeldorp, f.h. ITF Reforestation ehf. eiganda Fagraness, sem var frestað á síðasta fundi. Leiðrétt erindi barst, þar sem kemur fram að óskað er eftir stækkun á því framkvæmdasvæði sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar þann 29. apríl 2021. Stækkunin er svæði sem nemur 92,1ha. Meðfylgjandi er kort gert af „B.D“, sem sýnir breytt framkvæmdasvæði.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að þar sem heildarmagn skógræktar í Fagranesi og nágrenni er komið umfram viðmið varðandi umhverfismat, verði óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar varðandi umfang skógræktar á svæðinu.

  1. Breyting á Aðalskipulagi Akureyrarbæjar vegna Blöndulínu 3 – umsagnarbeiðni (2404003)

Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnir hér með drög að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin tekur til svæða sem merkt eru ÓB, ÍÞ7 og SL7 í aðalskipulagi og felst meðal annars í að felldir eru út skilmálar í greinargerð um iðnaðarsvæði I16 fyrir tengivirki í landi Kífsár.
Kafla 2.1.27 Veitur, sem fjallar um Blöndulínu 3, er breytt á þann veg að Blöndulína 3 tengist Rangárvöllum sem loftlína. Þegar tæknilegar forsendur hafa skapast til að breyta loftlínu í jarðstreng næst Akureyri er gert ráð fyrir að línan sé lögð í jörðu að hluta leiðarinnar. Öryggis- og athafnarsvæði 220kV jarðstrengs með tvö strengsett er um 20 m breytt og felur í sér byggingarbann og takmarkanir á röskun lands nema í samráði við Landsnet. Aðgengi til viðgerða á strengnum þarf að vera tryggt og takmarkanir eru á plöntun trjágróðurs. Gert er ráð fyrir niðurrifi Rangárvallarlínu 2 þremur árum eftir að Blöndulína 3 kemst í rekstur.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við tillögu að aðalskipulagsbreytingu er varðar Blöndulínu 3, en bendir á misræmi sem verður á sveitarfélagamörkum þar sem í greinargerð með gildandi aðalskipulagi Hörgársveitar er enn gert ráð fyrir jarðstreng.

  1. Efnisnám og -losun í Hörgársveit - skýrsla (2408013)

Minnisblað um efnisnám og – losun, vegna skýrslugerðar lagt fram til umfjöllunar nefndarinnar.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 10:50