Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 106
Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar 106.fundur
Fundargerð
Miðvikudaginn 23. október 2024 kl. 08:30 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.
Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir og Bjarki Brynjólfsson og í skipulags- og umhverfisnefnd, Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.
- Hraun, stjórnunar og verndaráætlun
Davíð Örvar Hansson frá Umhverfisstofnun og Gunnar Már Gunnarsson verkefnastjóri fyrir Hraun í Öxnadal mættu á fundinn og fóru yfir hugmyndir um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hraun í Öxnadal.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hvatt verði til þess að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hraun í Öxnadal verði tekin á dagskrá og vinna við hana verði hafin sem fyrst.
- Skógarhlíð 43 L173473 – umsókn um stækkun lóðar (2408010)
Erindi sem frestað var á síðasta fundi nefndarinnar, lóðarhafar Skógarhlíðar 43 óska eftir því að lóðin verði stækkuð til norðurs, samanber meðfylgjandi teikningu.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt verði að stytta grenndarkynningartímabilið ef allir hagsmunaaðilar lýsa því yfir skriflega að ekki sé gerð athugasemd við framkvæmdina. Ef ekki berast andmæli á grennarkynningartímabilinu teljist áformin samþykkt.
- Rarik – lóð undir dreifistöð á Lónsbakka (2408015)
Erindi sem frestað var á seinasta fundi nefndarinnar og skipulagsfulltrúa falið að afla skriflegs samþykkis lóðarhafa og umsagnar Vegagerðarinnar. RARIK ohf. sækir um lóð undir dreifistöð við Lónsbakka í tengslum við styrkingu á dreifikerfi RARIK í Hörgársveit. Gert er ráð fyrir að núverandi spennistöð (S034) við Skógarhlíð verði færð inn í þessa nýju dreifistöð. Meðfylgjandi er lóðarblað dags. 21.08.2024 og teikning af fyrirhuguðu húsi fyrir dreifistöð dags. 11.04.2024.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykktur verði byggingarreitur með kvöðum fyrir dreifistöð Rarik og aðkomu að honum samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Jafnframt verði því beint til lóðareiganda að sótt verði um afmörkun sér lóðar fyrir dreifistöðina.
- Hrappsstaðir L146945 – fyrirspurn um vegtengingu, lögheimilisskráningu o.fl. (2409007)
Tekin fyrir fyrirspurn frá Bergþóru Ósk Guðmundsdóttur um vegtengingu, lögheimilisskráningu auk annarrar þjónustu sveitarfélagsins vegna áforma hennar um að byggja heilsárshús í landi Hrappsstaða (L146945).
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindinu verði hafnað enda Hrappstaðir ekki innan sveitarfélagamarka Hörgársveitar.
- Hafnasamlag Norðurlands – tillaga að götunöfnum á Dysnesi (2410001)
Lögð fram tillaga Hafnasamlags Norðurlands að götunöfnum á Dysnesi.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að rætt verði við landeiganda og afgreiðslu frestað.
- Landsnet – beiðni um efnistökusvæði vegna framkvæmda við Blöndulínu 3 (2410002)
Tekin fyrir beiðni frá Landsneti um að fá nokkur efnistökusvæði sett inn á Aðalskipulag Hörgársveitar vegna framkvæmda við Blöndulínu 3, samhliða aðalskipulagsbreytingu fyrir Blöndulínu 3.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði vísað í vinnslu við endurskoðun aðalskipulags.
- Moldhaugaháls – umsókn um framkvæmdaleyfi vegna jarðvinnu á geymslusvæði (2410003)
Skútaberg ehf. sækir um framkvæmdaleyfi til að hefja jarðvinnu á geymslusvæði nr. 19 á Moldhaugahálsi samkvæmt samþykktu deiliskipulagi, sbr. meðfylgjandi gögn.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að framkvæmdaleyfisumsókn Skútabergs ehf., til að hefja jarðvinnu á geymslusvæði nr. 19 á Moldhaugahálsi samkvæmt samþykktu deiliskipulagi, verði samþykkt. Bent er á að hafa verði samráð við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra um mengunarvarnir á svæðinu og skal landeigandi leggja fram áætlun um innra eftirlit til samþykktar hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra áður en framkvæmdaleyfið verður gefið út. Þá er lögð áhersla á að umgengni á svæðinu og ásýnd þess verði góð, sbr. kafla 3.12 í greinargerð deiliskipulagsins, og að frágangi á 1. áfanga geymslusvæðisins (19-A) verði lokið fyrir 1. janúar 2026, þ.á.m. jarðvegsmönum og trjágróðri. Frágangi á öllu geymslusvæðinu (áföngum 19-A, 19-B og 19-C) skal þá jafnframt vera lokið í árslok 2031. Jarðvegsmanir skulu gerðar og trjágróðri komið fyrir (fyrir árslok 2025) til að minnka sjónræn áhrif af starfseminni á svæðinu eins og frekast er kostur, þ.e. af námunni, geymslusvæðinu og öðrum búnaði sem fylgir starfseminni. Með þessari bókun uppfærist tímalína framkvæmda er varðar svæði 19 og ásýnd heildarsvæðisins. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við ofangreind skilyrði.
- Brekkuhús 1 – beiðni um breytingu á deiliskipulagi (2408003)
Fyrir liggja uppfærðar teikningar af Brekkuhúsum 1 vegna beiðnar um breytingu á deiliskipulagi en fyrri tillögu var hafnað á fundi nefndarinnar 13. ágúst 2024.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að þar sem umsóknin er ekki í samræmi við skilmála núverandi deiliskipulags, verði umsækjanda heimilað að láta gera tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem komi til umsagnar og afgreiðslu.
- Skútar - Moldhaugaháls – umsókn um framkvæmdaleyfi á byggingarreitum 17, 27 og 29 (2410004)
Skútaberg ehf. sækir um framkvæmdaleyfi samkvæmt samþykktu deiliskipulagi Skúta til að setja niður gáma til sorpflokkunar á byggingarreit nr. 17 (gámasvæði). Jafnframt er sótt um framkvæmdaleyfi til að jarðvegsskipta undir bílastæði á byggingarreitum nr. 27 og 29 (bílastæði fyrir bíla, vagna og vinnuvélar).
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að umsóknir um framkvæmdaleyfi til að setja niður gáma til sorpflokkunar á byggingarreit nr. 17 (gámasvæði) og til að jarðvegsskipta á reitum nr. 27 og 29 fyrir bílastæði fyrir bíla, vagna og vinnuvélar, í reglulegri notkun verði samþykktar. Lögð er áhersla á að umgengni á svæðinu og ásýnd þess verði góð, sbr. kafla 3.12 í greinargerð deiliskipulagsins. Jarðvegsmanir skulu gerðar og trjágróðri komið fyrir (fyrir árslok 2025) til að minnka sjónræn áhrif af starfseminni á svæðinu eins og frekast er kostur, þ.e. af námunni, geymslusvæðinu og öðrum búnaði sem fylgir starfseminni. Með þessari bókun uppfærist tímalína framkvæmda er varðar ásýnd heildarsvæðisins.Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við ofangreind skilyrði.
- Skútar- Moldhaugaháls – beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingarreita 8, 9, 10 og 11 (2410005)
Skútaberg ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi Skúta þar sem byggingarreitir 8, 9, 10 og 11 yrðu stækkaðir. Byggingarmagn héldist óbreytt.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að stækkun byggingarreita 8-11 verði samþykkt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur að erindið varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og málshefjanda sjálfs og því er fallið frá grenndarkynningu sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kallað verði eftir breytingarblaði deiliskipulagsbreytingarinnar og felur nefndin skipulagsfulltrúa að fullnusta deiliskipulagsbreytinguna þegar fullnægjandi gögn berast.
- Skútar – Moldhaugaháls – beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingarreits 3 (2410006)
Skútaberg ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi Skúta þar sem byggingarreitur nr. 3 yrði lengdur um 3 m. Jafnframt er óskað eftir því að fá að auka byggingarmagn á byggingarreitnum úr 480 m² í 690 m².
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að stækkun byggingarreits 3 og aukning byggingarmagns verði samþykkt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin telur að erindið varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og málshefjanda sjálfs og því er fallið frá grenndarkynningu sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kallað verði eftir breytingarblaði deiliskipulagsbreytingarinnar og felur nefndin skipulagsfulltrúa að fullnusta deiliskipulagsbreytinguna þegar fullnægjandi gögn berast.
Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:20