Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 105

02.09.2024 17:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar 105. fundur

Fundargerð

Mánudaginn 2. september 2024 kl. 17:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins. Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir, Bjarki Brynjólfsson og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd, Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

  1. Aðalskipulag Hörgársveitar – endurskoðun (2305001)

Skipulagshöfundur Aðalskipulags Óskar Gunnarsson frá Landmótun mætti á fund nefndarinnar og fór yfir stöðuna við endurskoðun Aðalskipulags Hörgársveitar.

Skipulagshöfundi falið að halda vinnu við endurskoðun áfram í samræmi við umræður á fundinum.

  1. Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Hörgársveitar vegna Blöndulínu 3 (2308005)

Erindi sem frestað var á seinasta fundi nefndarinnar. Skipulagslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 vegna Blöndulínu 3 var kynnt milli 1. og 29. júlí sl. og bárust 14 umsagnir á kynningartímabilinu. Skipulagshönnuður mætti á fund nefndarinnar og fór yfir þær athugasemdir og umsagnir sem bárust.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagshöfundi verði falið að vinna áfram að aðalskipulagstillögu sem hægt verði að kynna á vinnslustigi, út frá þeim umsögnum sem bárust við kynningu skipulagslýsingar og umræður á fundinum.

  1. Skógarhlíð 43 L173473 – umsókn um stækkun lóðar (2408010)

Lóðarhafar Skógarhlíðar 43 óska eftir því að lóðin verði stækkuð til norðurs, samanber meðfylgjandi teikningu.

Afgreiðslur frestað og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjanda.

  1. Rarik – lóð undir dreifistöð á Lónsbakka (2408015)

RARIK ohf. sækir um lóð undir dreifistöð við Lónsbakka í tengslum við styrkingu á dreifikerfi RARIK í Hörgársveit. Gert er ráð fyrir að núverandi spennistöð (S034) við Skógarhlíð verði færð inn í þessa nýju dreifistöð. Meðfylgjandi er lóðarblað dags. 21.08.2024 og teikning af fyrirhuguðu húsi fyrir dreifistöð dags. 11.04.2024.

Afgreiðslu frestað og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjanda og óska skriflegs samþykkis lóðarhafa og umsagnar Vegagerðarinnar.

  1. Neðri-Rauðilækur land L212751 – stofnun tveggja nýrra lóða (2408014)

Tryggur ehf. sækir um stofnun tveggja lóða úr norðvestur horni lands Neðri-Rauðalækjar lans (L212751). Sótt er um að lóðirnar fái staðföngin Lundur 1 (stærð 2.961 fermetrar) og Lundur 2 (stærð 2.586 fermetrar). Merkjalýsing unnin af Hákoni Jenssyni dags. 28.08.2024 fylgir erindinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt þegar fyrir liggur umboð allra þinglýstra eigenda Neðri-Rauðalæks land (L212751) fyrir stofnun lóðanna og að sé tryggð kvöð um aðkomurétt að lóðunum skv. afstöðumynd og eftir samkomulagi við jarðeigendur.

  1. Moldhaugaháls vinnubúðir - umsókn um framkvæmdaleyfi (2408016)

Skútaberg ehf. sækir um framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnubúðasvæðis á Moldhaugnahálsi ásamt aðkomuvegi samkvæmt samþykktu deiliskipulagi. Meðfylgjandi eru teikningar sem sýna útlit, grunnmynd og snið.

Að mati skipulags- og umhverfisnefndar er ekki um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd að ræða heldur byggingarleyfisskylda samkvæmt deiliskipulagi.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 19:30