Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 104

13.08.2024 08:45

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar 104. fundur


Fundargerð

Þriðjudaginn 13. ágúst 2024 kl. 08:45 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Ásrún Árnadóttir, Sunna María Jónasdóttir, Bjarki Brynjólfsson og Agnar Þór Magnússon í skipulags- og umhverfisnefnd, Arnar Ólafsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

  1. Glæsibær, Hagabyggð – aðal- og deiliskipulag áfangi III (2301004)

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti á fundum sínum 8. maí og 13. júní 2024 að vísa aðal- og deiliskipulagstillögu vegna 3. áfanga íbúðarbyggðar í landi Glæsibæjar í auglýsingu skv. 1. mgr. 31 gr. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsingatímabilið var frá 20. júní til 1. ágúst sl. og bárust 9 umsagnir sem eru nú til umfjöllunar nefndarinnar.

  1. erindi, sendandi Umhverfisstofnun:

Athugasemd a): Umhverfisstofnun telur að þar sem skipulagstillagan tekur til íbúðarsvæðis utan þéttbýlisstaða sveitarfélagsins sé mikilvægt að það komi fram í tillögunni hvernig hún samrýmist kafla 2.1.1 í Landskipulagsstefnu þar sem fjallað er um sjálfbæra byggð í skipulagsáætlunum, en þar segir: „Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði miðað að því að styðja og styrkja samfélag viðkomandi byggðarlags með því að beina vexti að þeim kjörnum sem fyrir eru. Í dreifbýli tengist fjölgun íbúða fremur búrekstri eða annarri staðbundinni landnýtingu eða atvinnustarfsemi.“

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að í kafla 5.1 í greinargerð aðalskipulagstillögu er fjallað um tengsl tillögunnar við landsskipulagsstefnu. Þar segir að í Hörgársveit séu þrjú svæði skilgreind sem íbúðarbyggð; Lónsbakki, Hjalteyri og Blómsturvellir. Hins vegar hefur ekki verið unnið deiliskipulag fyrir Blómsturvelli og engin uppbygging verið á því svæði. Lágreist íbúðarbyggð er að rísa í landi Glæsibæjar sem fellur vel að náttúrulegu landslagi svæðisins í nágrenni við Akureyri. Ekki eru uppi áform um að ráðast í deiliskipulagningu íbúðarsvæða í landi Blómsturvalla í fyrirsjáanlegri framtíð og því hafa uppbyggingaráform í Glæsibæ ekki áhrif á framvindu þess svæðis. Skipulags- og umhverfisnefnd telur að þar sem ekki séu uppi áform um skipulagningu íbúðarsvæðis í landi Blómsturvalla sé uppbygging íbúðarsvæðis í Glæsibæ ekki að fjölga íbúðarsvæðum sveitarfélagsins miðað við fyrirliggjandi skipulag. Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum.

Athugasemd b) Umhverfisstofnun hvetur sveitarfélagið til að skoða aðrar náttúrulegar lausnir, t.d. blágrænar ofanvatnslausnir fremur en að veita ofanvatni í fráveitu sveitarfélagsins þar sem of mikið aðkomuvatn í fráveitukerfi eykur kostnað við fráveituhreinsun og þyngir reksturinn. Stofnunin bendir á að hægt væri að gera ráð fyrir hreinsivirki sem er minna umfangs ef hægt væri að koma ofanvatni í annan umhverfisvænni farveg

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að ræða við skipulagshönnuð um mögulega uppfærslu greinagerðar deiliskipulags í samræmi við ofangreinda athugasemd.

  1. erindi, sendandi Jón Örn Pálsson:

Athugasemd: Sendandi bendur á að fjölgun íbúa í Hagabyggð leiði af sér stóraukna umferð og segir þetta kalla á að gatnamót vegnar nr. 816 og Þjóðvegar 1 verði lagfærð sem allra fyrst.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir athugasemd sendanda og bendir á að sveitarfélagið er í viðræðum við Vegagerðina vegna úrbóta á gatnamótum Þjóðvegar 1 og Dagverðareyrarvegar (vegnr. 816). Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdina þó ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum.

  1. erindi, sendandi Vegagerðin:

Athugasemd a) Vegagerðin bendir á að á aðalskipulagsuppdrætti tillögunnar er vegurinn að Eyrarvík (Eyrarvíkurvegur, vegnr. 8160) sýndur sem tengivegur en hann er í raun héraðsvegur.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að uppfæra aðalskipulagsuppdrátt í samræmi við ofangreinda athugasemd Vegagerðarinnar.

Athugasemd b) Vegagerðin lítur svo á að svæðið sé þéttbýli skv. skilgreiningu skipulagslaga 123/2010. Verði síðar sótt um að vegurinn að hverfinu verði tekinn inn á vegaskrá mun hann því enda við fyrstu tengingu skv. vegalögum.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Gefur ekki tilefni breytinga.

Athugasemd c) Vegagerðin bendir á að stækkun íbúðarbyggðar í landi Glæsibæjar kallar á aukna umferð um Dagverðareyrarveg (816) en vegurinn er frekar mjór og ekki gerður fyrir mikla umferð. Þá er bent á að gatnamót Dagverðareyrarvegar (816) og Hringvegar (1) séu ekki góð og geti oft verið varasöm. Með fjölgun íbúa aukist umferð um gatnamótin og þar með slysahætta og geti uppbygging svæðisins haft neikvæð áhrif á umferðaröryggi. Stofnunin segir engar fjárveitingar séu í lagfæringar eða breytingar á Dagverðareyrarvegi eða gatnamótum við Hringveg og því séu lagfæringar eða breytingar ekki fyrirsjáanlegar.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að sveitarfélagið og Vegagerðin hafa áður átt í viðræðum vegna mögulegra úrbóta á gatnamótum Dagverðareyrarvegar (816) og Hringvegar (1) og sú athugasemd Vegagerðarinnar að lagfæringar eða breytingar séu ekki fyrirsjáanlegar eru alls ekki í samræmi við það sem þar hefur verið rætt, þar sem m.a. hefur verið rætt um útfærslur til að bæta umferðaröryggi við gatnamótin. Sveitarfélagið mun því óska eftir skýrari afstöðu Vegagerðarinnar til óska um lagfæringar.

Athugasemd d) Vegagerðin bendir á að samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þarf að sýna veghelgunarsvæði á deiliskipulagsuppdrætti.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að uppfæra deiliskipulagsuppdrátt í samræmi við ofangreinda athugasemd Vegagerðarinnar.

Athugasemd e) Vegagerðin bendir á að Dagverðareyrarvegur (816) er tengivegur og að samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 megi ekki staðsetja íbúðar- eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti eru 70 m frá vegi að næstu húsum. Stofnunin tiltekur að ef byggja á nær Dagverðareyrarvegi en skipulagsreglugerð segir til um muni Vegagerðin ekki taka þátt í aðgerðum vegna óþæginda eða ónæðis frá Dagverðareyrarvegi síðar, t.d. vegna hávaða.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

  1. erindi, sendandi Skógræktarfélag Eyfirðinga:

Athugasemd a) Skógræktarfélag Eyfirðinga telur mikilvægt að standa vörð um þá skóga og skógræktarsvæði sem eru á starfssvæði félagsins og forðast beri að taka skóga undir annars konar skipulag svo sem byggingarland. Ef til byggingaframkvæmda komi samt sem áður mælir félagið með því að hús séu reist inni í skógi í stað þess að ryðja burt allan skóg á byggingarlandinu og byggja svo.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir athugasemd Skógræktarfélags Eyfirðinga um mikilvægi þess að standa vörð um skóga og skógræktarsvæði sveitarfélagsins og bendir á að í greinargerð aðalskipulagstillögunnar er tekið fram að „...byggðin á svæðinu muni verða aðlöguð að núverandi gróðri og ekki sé ólíklegt að lóðarhafar muni planta gróðri á lóðum sínum sem að einhverju leyti mun vega upp á móti eyðingu skógar.“ Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum.

Athugasemd b) Skógræktarfélag Eyfirðinga bendir á að ekki ætti að líta á skóg sem sjálfsagt byggingarland þar sem þá er um óafturkræfa framkvæmd að ræða. Mikilvægt sé að standa vörð um græn svæði og hvetja til skógræktar.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að í greinargerð aðalskipulagstillögunnar er tekið fram að „...byggðin á svæðinu muni verða aðlöguð að núverandi gróðri.“ Skipulags- og umhverfisnefnd telur skipulagstillögurnar ríma vel við hugmyndir um mikilvægi grænna svæða á skipulagssvæðinu. Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum.

Ekki eru gerðar athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur í erindum sem bárust frá Landsneti, Minjastofnun, Norðurorku, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Landi og skógi. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að auglýstum aðal- og deiliskipulagstillögum verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 1a, 3a, og 3d og að svo breyttar skipulagstillögur verði samþykktar skv. 1. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og feli skipulagsfulltrúa að fullnusta gildistöku skipulaganna.

  1. Lónsbakkahverfi – aðal- og deiliskipulagsbreyting (2312004)

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti á fundi sínum 19. apríl 2024 að vísa aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir land Lónsár og Berghóls í Lónsbakkahverfi í auglýsingu skv. 1. mgr. 31 gr. og 1. mgr. 41 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsingatímabilið var frá 3. júní til 15. júlí sl. og bárust 9 umsagnir sem eru nú til umfjöllunar nefndarinnar.

  1. Erindi, sendandi Norðurorka:

Athugasemd a) Norðurorka bendir á að núverandi hitaveitulögn frá Norðurlandsvegi (Þjóðvegi 1) í Skógarhlíð liggur undir lóðir á skipulagssvæðinu. Til stendur að leggja nýja sverari lögn frá Norðurlandsvegi og í Skógarhlíð og þarf að tryggja henni pláss milli Lónsvegar og nýrra lóða upp með Lónsvegi. Einnig þarf að leggja vatnsveitulögn samhliða hitaveitulögninni til að þjóna nýjum lóðum.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ákvæði um að legu nýrrar hitaveitulagnar og vatnsveitulagnar frá Norðurlandsvegi og í Skógarhlíð (Lónsbakkahverfi), sem liggja mun milli Lónsvegar og nýrra lóða upp með Lónsvegi, skuli bætt við auglýsta skipulagstillögu.

Athugasemd b) Norðurorka bendir á að leggja þarf nýja vatnsveitulögn samhliða hitaveitulögnin til að þjóna nýjum lóðum og þarf að tryggja þeim pláss milli Lónsvegar og nýrra lóða upp með Lónsvegi.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ákvæði um að legu nýrrar vatnsveitulagnar samhliða hitaveitulögn milli Lónsvegar og nýrra lóða upp með Lónsvegi skuli bætt við auglýsta skipulagstillögu.

  1. Erindi, sendandi Vegagerðin:

Athugasemd a) Vegagerðin tiltekur að huga þurfi að gönguleiðum meðfram Lónsvegi og þverunum. Staðsetja þurfi þveranir þannig að þær nýtist gangandi- og hjólandi sem best.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd telur að vel sé hugað að gönguleiðum við og þverunum yfir Lónsveg í deiliskipulagstillögunni en fjórar þveranir eru áætlaðar yfir Lónsveg samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti. Skipulags- og umhverfisnefnd telur ábendinguna ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum.

Athugasemd b) Vegagerðin bendir á að samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þarf að sýna veghelgunarsvæði á deiliskipulagsuppdrætti.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að uppfæra deiliskipulagsuppdrátt í samræmi við ofangreinda athugasemd Vegagerðarinnar.

  1. Erindi, sendandi Magnús Valur Axelsson:

Athugasemd a) sendandi bendir á að gert sé ráð fyrir að svæði sem ætlað er til íþróttaiðkunar sé minnkað á aðaluppdrætti en gerir ekki athugasemdar við það eða tillögurnar að öðru leyti.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að svæði fyrir samfélagsþjónustu (S1) er stækkað til norðurs inn á svæði ÍÞ1(íþróttasvæði) til að gera ráð fyrir stækkun leikskólans Álfasteins. Skipulags- og umhverfisnefnd telur ábendinguna ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum þessa svæðis.

Athugasemd b) sendandi hvetur sveitarstjórn til þess að finna heppilegra svæði til íþróttaiðkunar sem er í/við þéttbýlið við Lónsbakka og koma þar upp litlum sparkvelli og körfuboltavelli og segir það myndi stuðla að aukinni íþróttaiðkun barna í sveitarfélaginu.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fyrir ábendinguna en telur hana ekki gefa tilefni til breytinga á auglýstum skipulags-tillögum.

  1. Erindi, sendandi Rarik:

Athugasemd: Rarik bendir á að gera þarf ráð fyrir lagnaleið frá spennistöð S035 að fyrirhugaðri byggð sunnan Lónsár.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ákvæði um lagnaleið frá spennistöð SO35 að fyrirhugaðri byggð sunnan Lónsár skuli bætt við auglýsta skipulagstillögu.

  1. Erindi, sendandi Jóhannes Árnason:

Athugaemd: Sendandi bendir á að líklega sé um villu að ræða á deiliskipulagsuppdrætti í kafla 3.4.1 þar sem fjallað er um fjölda íbúða. Í texta stendur að miðað sé við 18-20 íbúðir á lóð nr. 5 við Lónsveg og lyftu og bílastæði í kjallara. Hins vegar eigi þessir skilmálar við lóð nr. 3 á uppdrættinum en ekki lóð nr. 5 sem er einbýlishúsalóð.

Afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að texti á deiliskipulagsuppdrætti í kafla 3.4.1 verði leiðréttur í samræmi við athugasemd sendanda.

Ekki eru gerðar athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur í erindum sem bárust frá Minjastofnun Íslands, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Umhverfisstofnun og Dalvíkurbyggð. Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að auglýstum aðal- og deiliskipulagstillögum verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 1a, 1b, 2b, 4 og 5 og að svo breyttar skipulagstillögur verði samþykktar skv. 1. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og feli skipulagsfulltrúa að fullnusta gildistöku skipulaganna.

  1. Beiðni um breytingu á Aðalskipulagi Hörgársveitar vegna Blöndulínu 3 (2308005)

Skipulagslýsing fyrir breytingu á Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 vegna Blöndulínu 3 var kynnt milli 1. og 29. júlí sl. og bárust 14 umsagnir á kynningartímabilinu sem eru nú til umfjöllunar nefndarinnar.

Afgreiðslu frestað.

  1. Holtahverfi ÍB18 Aðalskipulagsbreyting – umsagnarbeiðni (2407002)

Akureyrarbær hefur hafið vinnu við breytingu á aðalskipulagi Akureyrar sem fellst í því að einnig verður heimilt að byggja lífsgæðakjarna innan vestari reit íbúðarbyggðar ÍB18. Óskað er umsagnar Hörgársveitar um skipulagslýsinguna og er umsagnarfrestur til 7. ágúst nk.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

  1. Víðihlíð 3 L232215 – beiðni um deiliskipulagsbreytingu vegna bílastæða (2407001)

Erindi frá lóðarhöfum Víðihlíðar 3 þar sem sótt er um að stækka bílastæði lóðarinnar til þess að fjölga stæðum sem yrðu þá 12 bílastæði í stað 11 eins og deiliskipulagið gerir ráð fyrir

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerðar breytingar á deiliskipulagi og því verði hafnað að fjölga bílastæðum úr 10+1 í 11+1.

  1. Brakandi og Bláteigur – framkvæmdaleyfisumsókn vegna bakkavarna (2408001)

Landeigendur Brakanda og Bláteigs sækja um leyfi til bakkavarna í Hörgá til að verjast landbroti og eignartjóni vegna breytts rennslis árinnar. Meðfylgjandi eru umsagnir Fiskirannsókna ehf vegna umsóknarinnar, dags. 11.12.2023 og 14.12.2023 og umsögn Veiðifélags Hörgár dags. 19.11.2022

Tillaga að bókun: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að landeigendum Brakanda og Bláteigs verði veitt framkvæmdaleyfi til að stöðva landbrot á landeignum sínum vegna breytt rennslis Hörgár. Ítrekað er að framkvæmdaleyfið á aðeins við um framkvæmdir vegna landbrots, ekki efnistöku.

  1. Hjalteyrarvegur (811) – erindi vegna framkvæmda innan veghelgunarsvæðis (2408002)

Erindi frá Vegagerðinni vegna framkvæmda innan veghelgunarsvæðis Hjalteyrarvegar (811). Lagt fram og kynnt.

  1. Brekkuhús 1 – beiðni um breytingu á deiliskipulagi (2408003)

H.S.Á. Teiknistofa sækir fyrir hönd eigenda Brekkuhúsa 1 nhl (L152358) og Brekkuhúsa 1 shl (L152357) um breytingu á deiliskipulagi Hjalteyrar. Sótt er um stækkun á byggingarreit lóðanna til vesturs, suðurs og norðurs og hækkun á vegghæð. Þá er sótt um að bæta við byggingarmagni á hvorri lóð fyrir sig.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að erindinu verði frestað og skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að ræða við umsækjendur.

  1. Hringtorg við Lónsveg - umræða um hugmyndir Vegagerðarinnar að breytingum(2408004)

Umræður vegna hugmynda Vegagerðarinnar um breytingar á hringtorgi.

Lagt fram og kynnt.

  1. Brekkuhús 4 og 5, Hjalteyri – umsókn um úthlutun lóða

Fyrir fundinum liggur umsókn frá Marc Cerisier og Sophie Cerisier um úthlutun íbúðarhúsalóðanna Brekkuhús 4 og Brekkuhús 5 á Hjalteyri.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að Marc Cerisier og Sophie Cerisier verði úthlutaðar lóðirnar nr. 4 og 5 við Brekkuhús á Hjalteyri.

  1. Hjalteyrarvegur 13, Hjalteyri – umsókn um úthlutun lóðar

Fyrir fundinum liggur umsókn frá Sólþing ehf um úthlutun lóðarinnar Hjalteyrarvegur 13 á Hjalteyri sem er verslunar- og þjónustulóð.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að Sólþing ehf kt. 430812-0170 verði úthlutuð lóðin nr. 13 við Hjalteyrarveg á Hjalteyri.

 

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:40