Skipulags- og umhverfisnefnd fundur nr. 82

10.05.2022 09:00

Skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar

82. fundur

Fundargerð

Þriðjudaginn 10. maí 2022 kl. 09:00 kom skipulags- og umhverfisnefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins.

Fundarmenn: Jón Þór Benediktsson formaður, Agnar Þór Magnússon, Jóhanna María Oddsdóttir, Ásgeir Már Andrésson og Jónas Þór Jónasson (vm) í skipulags- og umhverfisnefnd, Vigfús Björnsson skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðar og Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.

 Fundargerð ritaði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri.

1. Blöndulína 3, umsögn vegna umhverfismats

Nefndin fjallar um umhverfismatsskýrslu vegna Blöndulínu 3 sem nú er í kynningu skv. 23. gr. laga um umhverfismat áætlana og framkvæmda nr. 111/2021.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að sveitarfélagið komi á framfæri umsögn þar sem fram komi athugasemdir í samræmi við umræður á fundinum.

2. Moldhaugar/Skútar, aðal- og deiliskipulag

Kynningu aðal- og deiliskipulagstillaga á vinnslustigi skv. 2. mgr. 30. og 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga lauk 28. febrúar sl. og bárust 3 erindi á kynningartímabilinu. Nefndin fjallar um innkomin erindi og um fyrirliggjandi skipulagstillögur.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að auglýst yrði aðalskipulagstillögu vegna athafna, efnistöku og afþreyingar- og ferðamannasvæðis á Moldhaugnahálsi skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að boða til fundar með forsvarsmönnum Skútabergs til að fara yfir athugasemdir sem fram komu á fundinum vegna fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu.

3. Reynihlíð 20-26, breyting á deiliskipulagi

Sveitarstjórn hefur samþykkt að gengið verði til samninga við Bögg ehf. um uppbyggingu á lóðunum nr. 20,22,24 og 26 við Reynihlíð. Farið hefur verið yfir tillögur að breytingum frá Bögg ehf.

Skipulags- og umhverfisnefnd gerir athugasemdir við fyrirliggjandi tillöguteikningar og gerir kröfur um að fullnægjandi úrbætur verði gerðar á þeim áður en gengið verði frá samningum um lóðarúthlutanir.

4. Skriða, malarnám

Lögð fram umsókn frá eigendum Skriðu þar sem óskað er eftir breytingu á aðalskipulagi Hörgársveitar á þá leið að heimilt verði að taka allt að 150.000 rúmmetra af möl úr farvegi og áreyrum Syðri-Tunguár í landi Skriðu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti að fresta afgreiðslu erindisins og afla frekari upplýsinga um málið.

5. Norðurorka, erindi vegna breytinga á aðalskipulagi

Lagt fram erindi frá Norðurorku þar sem sem óskað er eftir því að lagnaleið nýrrar aðveituæðar hitaveitu frá Syðri-Haga að Hjalteyri verði færð inn á uppdrátt aðalskipulags Hörgársveitar 2012-2024.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að farið verði i vinnu við breytingu á aðalskipulagi.

6. Þúfnavellir, umsókn vegna byggingareits

Lögð fram umsókn um afmörkun byggingareits fyrir fjárhús ásamt uppdrætti.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt.

7. Sílastaðir (Fagravík), umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnislosunar

Lögð fram umsókn frá Eiríki Sigfússyni um framkvæmdaleyfi vegna losunar 5.000 rúmmetra af mold í landi Sílastaða við veginn að Fögruvík.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt en að gerð verði krafa um að jafnað sé úr efninu á snyrtilegan hátt og sáð í flagið fyrir 15.6.2022.

8. Glæsibær, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnislosunar

Lögð fram umsókn frá Ólafi Aðalgeirssyni um framkvæmdaleyfi vegna losunar 10.000 rúmmetra af mold í aflagðri malarnámu norðan Hagabyggðar í landi Glæsibæjar.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt en að gerð verði krafa um að jafnað sé úr efninu á snyrtilegan hátt og sáð í flagið jafnóðum.

9. Fyrirspurn vegna leyfis til bygginga á Nunnuhóli, Möðruvöllum

Skipulagsfulltrúi kynnti fyrirspurn um heimild til byggingar einbýlishúss á spildu þar sem áður stóðu bæjarhús jarðarinnar Nunnuhóll, nú í landi Möðruvalla.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að jákvætt verði tekið í erindið, enda liggi fyrir áhættumat vegna ofanflóða sem sýni fram á að svæðið sé hæft til byggingar sbr. reglugerð nr. 505/2000 áður en byggingareitur verður formlega samþykktur.

10. Fyrirspurn vegna stöðuleyfis utan lóðar við Reynihlíð

Skipulagsfulltrúi kynnti fyrirspurn um möguleika á að staðsetja garðskúr utan lóðarmarka.

Skipulags- og umhverfisnefnd frestar erindinu til að afla frekari gagna.

11. Umhverfisverðlaun 2022

Umræður og afgreiðsla.

Skipulags- og umhverfisnefnd ákvað hvaða aðilar fengju verðlaunin í ár.

12. Dalvíkurbyggð, umsögn vegna aðalskipulagsbreytingar Hauganesi

Lagt fram erindi frá Dalvíkurbyggð þar sem óskað er umsagnar um aðalskipulagsbreytingu á Hauganesi.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við breytinguna.

13. Gásar, afmörkun lóðar

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir afmörkun lóðar fyrir íbúðarhús samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt enda liggi fyrir staðfesting beggja eiganda jarðarinnar.  Nefndin áréttar að ný vegtenging er háð leyfi Vegagerðarinnar.

Fleira gerðist ekki, fundi slitið kl. 11:48