Fjallskilanefnd, fundur nr. 6 - 2003

01.09.2003 00:00

Mánudagsmorguninn 1. september 2003 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka, mættir Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.      Fundargerð síðasta fundar undirrituð.

 

2.      Munnlegt erindi frá Guðmundi Heiðmann þar sem hann mótmælir fækkun gangnamanna á Seldalsgangnasvæði í fyrstu göngum (sjá ákvörðun í fundargerð 5. fundar fjallskilanefndar 2003 lið 3) Erindinu hafnað að þessu sinni, en verður endurskoðað á næsta ári eins og breytingin á mörkum Seldals- og Vatndalsgangnasvæðis.

 

3.      Ekki er búið að ákveða hvort breytt verður mörkum gangnaskila Hlíðarfjallsgangnasvæðis og Glerárdals í haust. Stefáni falið að ganga frá þessu í samráði við gangnastjóra í Hlíðarfjalli og fulltrúa frá Akureyrarbæ.

 

4.      Um skil á úrtíningi gilda sömu ákvæði og 2002,  það er: Flutningur um Hörgárdal og úr Reistarárrétt verði greidd tvö dagsverk. Milli Staðarbakkaréttar og Þverárréttar verði greidd tvö dagsverk. Úr Gilsrétt í Þverárrétt greitt eitt dagsverk. Um Þelamörk í Þórustaðarétt greitt eitt dagsverk. Úr Akureyrarrétt í Þórustaðarétt verði greidd tvö dagsverk.

 

5.      Ákveðið að farið verði í eftirleitarflug yfir gangnasvæði Öxnadalsdeildar  eins og undanfarin ár og til viðbótar yfir Glæsibæjardeild, af þeirri viðbót ætti að verða óverulegur aukakostnaður, þar sem flogið er yfir svæðið hvort sem er.

 

6.      Farið var yfir drög að álagningu gangnadagsverka og gengið frá henni.                        

Gangnaseðlum verður dreift á öll heimili sem fá gangnadagsverk fyrir sauðfé.

Þeim landeigendum sem ekki eiga sauðfé, en fá gangnadagsverk fyrir landverð jarða verður sent bréf um gangnaskyldu þeirra.

 

7.      Aðalsteini falið að láta Þórarin Magnússon fjallskilastjóra Akrahrepps vita um niðurstöðu álagningar sem fyrst þ.e. að Akrahreppur á að leggja til 6 menn á Almenning sem er viðbót frá því sem verið hefur, en auk þess 3 menn á Seldal í fyrstu göngur eins og verið hefur undanfarin ár.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 13:30.