Fjallskilanefnd, fundur nr. 5 - 2006

23.11.2006 00:00


Fimmtudagskvöldið 23. nóvember 2006 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H Hreinsson og Stefán L Karlsson.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1. Farið var yfir hvað þyrfti að ræða við oddvita og sveitarstjóra, en þeir eru væntanlegir á fundinn síðar í kvöld. Það sem helst þarf að ræða er, fastara form á verkaskiptingu fjallskilsnefndar og sveitarstjórnar, viðhald og endurnýjun rétta og réttarhólfa, varnir gegn riðu- og garnaveiki í farmhaldi af fundi sem fjallskilanefnd sótti á Akureyri þann 15. nóv. síðastliðinn og inngrip sveitarstjórnar inn í frágengna álagningu gangnadagsverka hjá tveimur aðilum nú í haust.

 

2. Farið var yfir þann fjárfjölda sem kom fyrir utan heimasveitar í haust. Úr Akrahreppi komu fyrir í Öxnadal um 200 kindur og í Hörgárdal um 130 kindur, þetta er um 470 kindum færra en haustið 2005. Í Silfrastaðarétt komu fyrir um 50 kindur úr Öxnadal og 4 kindur úr Hörgárdal, er þetta nokkur fjölgun frá haustinu 2005 eða um nálægt 40 kindur. Þessi breyting milli ára á fjárfjölda, sem fer á milli sveitarfélaganna stafar örugglega af því, að nú í haust voru fremstu gangnasvæði Öxnadals gengin til Skagafjarðar. Úr Eyjafjarðarsveit komu 9 kindur í Þverárrétt og er það sama tala og í fyrra.

 

3. Mættir eru á fundinn Helgi Steinsson oddviti og Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri. Rædd var verkaskipting sveitarstjórnar og fjallskilanefndar og var Guðmundi sveitarstjóra falið að gera uppkast að erindisbréfi fjallskilanefndar í samráði við Guðmund fjallskilastjóra. Þá var rætt um ástand rétta, ákveðið var að vinna í undirbúningi  að endurnýjun Þórustaðaréttar, þannig að hún kæmist á fjárhagsáætlun fyrir árið 2008, einnig þarf að endurnýja Staðarbakkarétt á næstunni og var rætt um að gera það í áföngum. Þá er nokkurt viðhaldsverkefni við réttarhólf við Þverárrétt, það er endurnýjun á staurum, ákveðið að fara í það fyrir næsta haust. Varðandi varnir gegn riðu og garnaveiki þarf sveitarstjórn að taka ákvörðun um hvort hún vill taka þátt í þeim samráðsvettvangi, sem rætt var um á fundi með Sigurði Sigurðarsyni 15. nóv. sl. Fjallskilanefndarmenn lýstu mikilli óánægju með inngrip sveitarstjórnar, þegar hún felldi niður áður álögð gangnadagsverk í haust sem leið. Oddviti upplýsti að tvö af umræddum dagsverkum hafi nú verið greidd af þeim sem þau voru lögð á, en eitt dagsverk hafi verið fellt niður vegna veikinda og elli viðkomandi. Hvað varðaði afgreiðslu sveitarstjórnar á þessu, mætti líta á hana sem víti til varnaðar, sagði oddviti. Var nú tekið kaffihlé og að því loknu yfirgáfu oddviti og sveitarstjóri staðinn.

 

4.  Almenn umræða um göngurnar á síðastliðnu hausti. Víðast gengu þær vel fyrir sig að því  best er vitað, nema þar sem verið var að ganga 16. og 17. september þá lentu menn sumstaðar í svarta þoku. Samvinna við Akrahrepp upp göngur fremst í Öxnadal gekk mjög vel og er almenn ánægja með þá framkvæmd, þannig að stefnt er að sama fyrirkomulagi næsta haust, en um það þarf að ræða við fulltrúa Akrahrepps.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 23:59