Fjallskilanefnd, fundur nr. 4 - 2003

06.08.2003 00:00

Miðvikudagskvöldið 6. ágúst 2003 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Auðnum 1.

Mættir:  Guðmundur Skúlason og Aðalsteinn H Hreinsson en Stefán L Karlsson forfallaðist á síðustu stundu.  Á fundinn mætti einnig Guðmundur Heiðmann eins og ákveðið var á fundi fjallskilanefndar þann 31. júlí síðast liðinn (sjá annan lið þriðja fundar fjallskilanefndar 2003).

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.      Farið var fram hjá Bakkaseli til að skoða aðstæður varðandi breytt fyrirkomulag gangna í fram Öxnadal. Ákveðið að breyta mörkum Seldals- og Vatnsdalsgangnasvæðis þannig að þau verði við gil upp af húsi Sverris Pálmasonar, þessi ákvörðun er einungis fyrir haustið 2003 og endurskoðist á næsta ári að fenginni reynslu í haust.

 

2.      Rætt var um að færa göngur á Seldalsgangnasvæði frá laugardegi fram á föstudag. Guðmundur Heiðmann lýsti sig fremur andvígann þeirri breytingu, vegna þess að verra væri að fá menn í göngur á föstudegi. Fram kom hugmynd um að ganga bara Almenning og Gloppusvæðið á föstudegi og Skagfirðingar manni þá Almenning í stað Seldals.

 

3.      Aðalsteinn greindi frá því að hann hafi í dag rætt í síma við Þórarin Magnússon fjallskilastjóra Akrahrepps og fengið þau svör að nánast ekkert hafi verið rætt þar í sveitarstjórn um aðkomu Akrahrepps að göngum í Hörgárbyggð síðan sameiginlegi fundurinn var á Melum 27. mars síðastliðinn.

 

4.      Ýmislegt fleira rætt ítarlega t.d. hvernig fjallskil eru lögð á land og hvernig á fjártölu, skipting gangnasvæða og hvernig þau væru ýmist of eða van mönnuð, þessar umræður verða ekki færðar hér nákvæmar til bókar.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl 00:50.