Fjallskilanefnd, fundur nr. 3 - 2003

31.07.2003 00:00

Miðvikudagskvöldið 31. júlí 2003 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka, mættir Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H. Hreinsson og Stefán L. Karlsson, einnig sat Helgi Steinsson oddviti hluta fundarins.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1.      Undirritun fundargerðar síðasta fundar frestað vegna blekleysis í prentara fjallskilastjóra.

 

2.      Stefna á að 1. göngur á Gloppu-, Almennings- og Seldalsgangnasvæði verði á föstudegi í stað laugardags eins og verið hefur, vegna þess að til stendur að Skagfirðingar komi að göngum á Seldal, en það er háð því að þeir séu ekki að ganga hjá sér á sama tíma. Einnig er ætlunin að skoða hvort ekki er hægt að færa mörk Seldals- og Vatnsdalsgangnasvæðis, t.d. þannig að mörk gangnasvæðanna verði hjá Varmavatnshólum.

Ákveðið að hafa fund með Guðmundi Heiðmann eiganda Gils um þessi mál fram í Öxnadal til að átta sig betur á staðháttum.

 

3.      Ákveðið að leggja dagsverk á eftir sama kerfi og í fyrra. Einnig beint til sveitarstjórnar að greiðsla fyrir dagsverk verði óbreytt, það er kr. 9.000.

 

4.      Oddviti lét fjallskilastjóra hafa tölur um fjárfjölda og fasteignamat á landi í sveitarfélaginu.

 

5.      Rætt um að koma í næsta fréttabréf sveitarstjórnar tilkynningu um að þeir sem hafa helming síns fjár eða meira innan girðingar allt sumarið geti sótt um til fjallskilanefndar að vera undanþegnir fjallskilum fyrir það fé.

 

6.      Ákveðið að 1. göngum verði flýtt um viku í Glæsibæjardeild, Syðri-Bægisárdal og neðri hluta Skriðudeildar fram í Sörlatungu á þessum svæðum verður því gengið laugardaginn 13. september. Fremstu svæði Öxnadals verða gengin föstudaginn 19. september, en neðri hlutinn laugardaginn 20. og réttað í Þverárrétt sunnudaginn 21. september. Fremri hluti Skriðudeildar verður genginn frá miðvikudegi 17. til sunnudagsins 21. september.

 

7.      Aðalsteini falið að kanna hvort Ungmennafélagið Smárinn vilji taka að sér að útvega menn í göngur ef til þess verður leitað.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 00:41.