Fjallskilanefnd, fundur nr. 26

12.08.2020 20:00

Fjallskilanefnd Hörgársveitar

26. fundur

Fundargerð

Miðvikudaginn 12. ágúst 2020 kl. 20:00 kom fjallskilanefnd Hörgársveitar saman til fundar á skrifstofu sveitarfélagsins í Þelamerkurskóla.

Fundarmenn: Jónas Þór Jónasson formaður, Jósavin Gunnarsson, Sigríður Kristín Sverrisdóttir, Davíð Jónsson, og Arnar Ingi Tryggvason nefndarmenn og Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Álagning gangnadagsverka

Lögð fram drög að álagningu fjallskila haustið 2020. Nefndin fór yfir drögin og gerði á þeim breytingar. Heildarfjöldi gangnadagsverka er 418. Samkvæmt síðustu forðagæsluskýrslu er alls um að ræða 7.469 kindur, sem er fækkun um 167 frá fyrra ári. Af þeim voru 239 kindur innan girðingar í sumar, þannig að til álagningar vegna fjallskilanna koma 7.230 kindur.  Meðaltalsfjöldi kinda í dagsverki er því 17,30.

Fjallskilanefnd samþykkti framlögð drög að álagningu fjallskila haustið 2020, með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim á fundinum.

2. Tímasetning gangna haustið 2020

Rætt um tímasetningu gangna.  Tímasetning gagna var samþykkt á fundi nefndarinnar þann 27. maí 2020.  Frávik frá þeim dagsetningum koma fram á gangnaseðlum.

3. Undanþágur frá fjallskilum

Fram kom að borist hefðu beiðnir frá jörðunum Árhvammi, Bitru, Hlöðum, Hvammi, Efsta-Samtúni og Steinkoti um að vera undanþegnar fjallskilum í haust, enda hafi fé þaðan verið í fjárheldum girðingum sumarlangt. Samtals er um að ræða 239 kindur.

Fjallskilanefnd samþykkti framkomnar beiðnir um undanþágur frá fjallskilum haustið 2020.

4. Viðhald fjárrétta

Rætt um stöðu mála varðandi ásigkomulag og viðhald fjárrétta.

5. Fjallskilamál og fjársmölun á sauðfé Skagfirðinga í Hörgársveit

Lagt fram minnisblað eftir fund með fulltrúum Akrahrepps 29.júlí 2020 þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

  1. Menn voru sammála um að leggja til að Skagfirðingar myndu smala Seldal og Almenning einir, sem og sjá um fyrirstöðu aðra helgina í september 2020 og féð yrði rekið yfir Öxnadalsheiði yfir í Skagafjörð.
  2. Menn voru sammála um að leggja til að 22. eða 23. september verði þau svæði í Öxnadal, þar sem nær eingöngu er skagfirskt fé, hreinsað með aðkomu beggja sveitarfélaga eftir nánara samkomulagi. Í þeirri aðgerð verði fé sett í hólf við Gloppu og sótt þangað.  Hörgársveit mun sjá um að gera hólf þetta fjárhelt.
  3. 3.    Menn voru sammála um að bæði sveitarfélög ýti á Vegagerðina með að rimlahliði verði aftur komið fyrir á þjóðvegi 1 á Öxnadalsheiði.

Fjallskilanefnd samþykkti að hafa fyrirkomulag með þeim hætti sem lagt er til og formanni fjallskilanefndar og fjallskilastjóra í Öxnadal falin nánari útfærsla.

Fleira gerðist ekki – fundi slitið kl.  22:40