Fjallskilanefnd, fundur nr. 2 - 2007

11.06.2007 00:00

Mánudagskvöldið 11. júní 2007 kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar saman til fundar á Staðarbakka mættir: Guðmundur Skúlason, Aðalsteinn H. Hreinsson, Stefán L Karlsson og Helgi Steinsson oddviti.

 

Eftirfarandi bókað á fundinum:

 

1. Skrifað undir fundargerð síðasta fundar.

 

2. Fjallskilastjóri greindi frá því að sveitarstjórn hafi á fundi sínum þann 16. maí 2007, fjallað um erindisbréf og vinnureglur fyrir fjallskilanefnd og samþykkt hvoru tveggja eins og frá þessu var gengið á síðasta fundi fjallskilanefndar. Erindi þessi hafa nú borist stimpluð og undirrituð af sveitarstjóra.

 

3. Samkvæmt ný settu erindisbréfi fyrir fjallskilanefnd þarf nefndin að skipta með sér verkum. Það var gert þannig að Stefán L. Karlsson verður vara fjallskilastjóri og Aðalsteinn H. Hreinsson ritari. Nefndin ákvað einnig að það verði áfram í verkahring fjallskilastjóra, Guðmundar Skúlasonar, að ganga endanlega frá fundargerðum nefndarinnar og koma þeim til sveitarstjóra.

 

4. Tímasetning gangna haustið 2007 rædd. Fjallskilanefnd stefnir á að göngum í Glæsibæjardeild, Syðri-Bægisárdal og neðri hluta Skriðudeildar fram í Sörlatungu verði flýtt um viku, þannig að þar verði gengið laugardaginn 8. september, annars staðar verði gengið á réttum tíma í 22. viku sumars. Komi fram eindregnar og almennar óskir um aðra tímasetningu fyrir 15. ágúst verður það tekið til skoðunar hjá nefndinni.

 

5.  Eftirfarandi bókun hefur borist frá sveitarstjórn:

„Í framhaldi af samþykkt vinnureglnanna leggur sveitarstjórn áherslu á að gangnadagsverkin á Illagilsdal og Lambárdal á Þorvaldsdalsafrétti verði lögð á þá landeigendur sem hafa upprekstrarrétt og/eða nýta hann á nefndum svæðum.“ Fjallskilanefnd telur þessi tilmæli ekki samræmast ný samþykktum vinnureglum fyrir nefndina eða fjallskilasamþykkt fyrir sveitarfélög á svæði héraðsnefndar Eyjafjarðar né lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 með síðari breytingum.  

Því telur fjallskilanefnd sér ekki stætt á að fara eftir þessum tilmælum.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 22:30.